Ráðherrastólar Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir stinga saman nefjum á Alþingi. Þær settust fyrst saman í ríkisstjórn 2009 og aftur 2020.
Ráðherrastólar Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir stinga saman nefjum á Alþingi. Þær settust fyrst saman í ríkisstjórn 2009 og aftur 2020. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svandís Svavarsdóttir var kjörin á Alþingi árið 2009 og hefur síðan setið sem umhverfisráðherra, heilbrigðisráðherra og matvælaráðherra í þremur ríkisstjórnum. Á ýmsu hefur gengið á þessum árum, en vandræði vegna hvalveiðibanns Svandísar síðastliðið sumar eru ekki einstök á ferli hennar

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Svandís Svavarsdóttir var kjörin á Alþingi árið 2009 og hefur síðan setið sem umhverfisráðherra, heilbrigðisráðherra og matvælaráðherra í þremur ríkisstjórnum. Á ýmsu hefur gengið á þessum árum, en vandræði vegna hvalveiðibanns Svandísar síðastliðið sumar eru ekki einstök á ferli hennar.

Urriðafossvirkjun

Í febrúar 2010 synjaði Svandís, þá umhverfisráðherra, skipulagsbreytingum vegna virkjana í neðri Þjórsá staðfestingar. Fyrir það uppskar hún mikla gagnrýni fyrir að hafa aðeins litið til eigin pólitískra markmiða um að stöðva virkjunarframkvæmdir með öllum ráðum.

Í september sama ár dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur að synjunin ætti sér enga lagastoð. Ekkert í lögunum bannaði greiðsluþátttöku Landsvirkjunar, sem hún taldi hafa spillt málinu, en dómurinn hafnaði líka þeirri vörn að fyrirkomulagið ógnaði réttaröryggi í skipulagsmálum. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna 2010.

Viðbrögð Svandísar við dómnum vöktu hörð viðbrögð, því hún yppti aðeins öxlum og sagði: „Ég er í pólitík.“ Þar þótti hratt skautað hjá því að hún væri einnig embættismaður með úrskurðarvald, sem þyrfti líkt og aðrir að fara að lögum.

Skylduvist á sóttkvíarhóteli

Sem heilbrigðisráðherra á dögum heimsfaraldurs setti Svandís reglugerð í apríl 2021, sem skyldaði alla ferðamenn frá tilteknum svæðum – þar á meðal fólk sem hvorki var smitað né grunað um að vera smitað – til dvalar á sóttkvíarhóteli í varúðarskyni, jafnvel þótt þeir hefðu í önnur, betri og eigin hús að venda. Og það þrátt fyrir að efasemdir hefðu komið fram um það í minnisblöðum frá bæði lögfræðingum forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis.

Héraðsdómur gerði Svandísi og reglugerð hennar afturræka með dómi og úrskurðaði skylduvistun á sóttkvíarhóteli ólögmæta. Ekki aðeins skorti reglugerðina lagastoð, heldur þótti frelsisskerðingin ganga gegn meðalhófi og gegn bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Landsréttur vísaði frá kæru á úrskurðinum.

Verktaka SKE

Haustið 2022 átti Svandís sem matvælaráðherra frumkvæði að ólögmætum verktakasamningi við Samkeppniseftirlitið (SKE) um athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi til pólitískrar stefnumótunar um stjórn fiskveiða, en til þess vanhagaði hann meðal annars um upplýsingar sem ráðherra hefur ekkert vald til þess að krefjast. SKE hefur hins vegar ákaflega rúmar heimildir til slíks.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurðaði samninginn kolólöglegan haustið 2023. SKE hefði enga lagaheimild til slíkrar verktöku, hún græfi undan sjálfstæði stjórnvalds eftirlitsstofnunarinnar og mætti þaðan af síður beita valdheimildum sínum og þvingunarúrræðum í annarra þágu.

Málið hafði ekki aðrar afleiðingar fyrir ráðherrann, þótt ljóst væri að hann hefði reynt að fara í kringum fjárveitingavald Alþingis með því greiða SKE af fjárlagaliðnum „ýmis framlög í sjávarútvegi“ en Samkeppniseftirlitið er sem kunnugt er ekki í sjávarútvegi.

Hvalveiðibann

Nú síðast frestaði Svandís hvalveiðum í sumar, fyrirvaralaust, og bar fyrir sig álit fagráðs Matvælastofnunar um dýravernd, sem henni hafði borist deginum áður. Nú á föstudag var birt álit umboðsmanns Alþingis um að hvalveiðibannið hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum, en eins hafi það ekki samrýmst kröfum um meðalhóf.

Það er vægt til orða tekið, því vandséð er að ráðherra hafi getað uppfyllt rannsóknarskyldu sína, lagt sjálfstætt mat á málið og afleiðingar bannsins, allt á innan við sólarhring.

Samkvæmt 20. gr. stjórnarráðslaga er ráðherra skylt að leita álits ráðuneytis á fyrirhuguðum ákvörðunum og athöfnum til að tryggja að þær séu lögum samkvæmt. Eins eru starfsmenn ráðuneyta skyldir til veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf.

Vandinn er sá að aðeins 15 dögum áður en reglugerðin var sett hafði Svandís sagt á þingi að samkvæmt ráðgjöf lögfræðinga ráðuneytisins væri „ekki að finna skýra lagastoð fyrir stjórnsýsluviðurlögum, svo sem afturköllun leyfis að svo búnu“. Álit fagráðs um dýravernd, sem hefur enga stjórnskipulega stöðu heldur er aðeins Matvælastofnun til ráðgjafar, hnikar því í engu.

Það segir líka sína sögu að í minnisblaði ráðuneytisins vegna hvalveiðibannsins sagði að óháð því hvaða leið yrði farin við frestun hvalveiða „væri viðbúið að málið yrði borið undir dómstóla og/eða umboðsmann Alþingis“. Það eitt hefði átt að fá ráðherrann til að hugsa sinn gang, en það lét Svandís hjá líða.

Pólitíkin

Ljóst er að með þessu setur Svandís Alþingi í mikla klemmu, ekki þá síst þingmenn samstarfsflokkanna, sem unnið hafa drengskaparheit að stjórnaskránni. Verji þeir Svandísi vantrausti og Alþingi lætur framgöngu ráðherrans átölulausa eru þeir þar með búnir að setja ný viðmið um hvað ráðherra líðst.

Við bætist hinn pólitíski þáttur, sem best sést á því að framganga ráðherrans, að ekki sé sagt þrákelkni, hefur sett ríkisstjórnarsamstarfið í uppnám og vantrauststillaga yfirvofandi. Það má heita þvílíkt hættuspil, að spurningar vakna um hvort Svandís sé viljandi að reyna að grafa undan Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni Vinstri-grænna.

Ráðherrann

Pólitísk
arfleifð

Svandís Svavarsdóttir er fædd inn í pólitískt slekti 1964, dóttir Svavars Gestssonar, alþingismanns og ráðherra, og Jónínu Benediktsdóttur. Svavar kvæntist síðar Guðrúnu Ágústsdóttur borgarfulltrúa. Svandís var gift Ástráði Haraldssyni ríkissáttasemjara, en seinni maður hennar er Torfi Hjartarson lektor. Svandís á fjögur börn.

Hún er málfræðingur og íslenskufræðingur og sinnti kennslu og sérfræðistörfum, en 2006 var hún kjörin í borgarstjórn fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og þar varð þegar ljóst að hún ætti framtíðina fyrir sér í pólitík.

Hún var kjörin þingmaður Suður-Reykjavíkur 2009 og tók strax sæti í ríkisstjórn sem umhverfisráðherra. Eftir kosningaósigurinn 2013 varð hún þingflokksformaður, en varð heilbrigðisráðherra í núverandi stjórnarsamstarfi 2017, þar sem mikið mæddi á henni í heimsfaraldrinum. Þegar stjórnarsamstarfið var endurnýjað 2021 varð hún sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2021-2022 og matvælaráðherra síðan.

Höf.: Andrés Magnússon