Icelandair flutti um 4,3 milljónir farþega í fyrra, sem er 17% aukning á milli ára. Í ár verður félagið með stærstu flugáætlun í sögu félagsins. Farþegafjöldi Play tvöfaldaðist á milli ára í fyrra þegar félagið flutti 1,5 milljónir farþega.
Icelandair flutti um 4,3 milljónir farþega í fyrra, sem er 17% aukning á milli ára. Í ár verður félagið með stærstu flugáætlun í sögu félagsins. Farþegafjöldi Play tvöfaldaðist á milli ára í fyrra þegar félagið flutti 1,5 milljónir farþega. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að árið 2024 muni einkennast af minni vexti en verið hefur undanfarin ár. „Vöxturinn hjá Play hefur verið gríðarlegur á undanförnum misserum. Á tveimur og hálfu ári höfum við farið úr núll krónum í veltu yfir í 40 milljarða og úr 30 starfsmönnum í 550

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að árið 2024 muni einkennast af minni vexti en verið hefur undanfarin ár.

„Vöxturinn hjá Play hefur verið gríðarlegur á undanförnum misserum. Á tveimur og hálfu ári höfum við farið úr núll krónum í veltu yfir í 40 milljarða og úr 30 starfsmönnum í 550. Það er mikill vöxtur en nú er komið að því að einblína á reksturinn og reka félagið vel í stað þess að stækka enn meira,“ segir Birgir og bætir við að árið verði nokkuð rólegt hjá félaginu.

„Við verðum þó með tíu flugvélar, sem er stóra breytan hjá okkur. Við tókum inn fjórar nýjar vélar í júní í fyrra en nú verða þær allt árið. Við ætlum að nota þetta ár til að ná fram hagræðingu í rekstrinum og sjáum tækifæri til að gera enn betur,“ segir Birgir.

Stærsta flugáætlun í sögu félagsins

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að mörg spennandi verkefni séu fram undan hjá Icelandair en það sem beri hæst sé að á árinu verði félagið með stærstu flugáætlun í sögu félagsins. Flogið verði til 54 áfangastaða erlendis á árinu og á meðal þeirra eru þrír nýir; Pittsburgh, Færeyjar og Halifax. Þá hefst innleiðing Airbus-flugvéla í flotann á árinu.

„Við höfum undirbúið hana frá því að við skrifuðum undir samninginn við Airbus síðasta sumar og í þessari viku hóf fyrsti hópurinn þjálfun. Við tökum svo á móti fyrstu Airbus A321 LR-flugvélinni á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Þessar vélar eru mjög öflugar og opna á spennandi tækifæri fyrir okkur,“ segir Bogi Nils og bætir við að í lok árs muni Icelandair flytja í nýjar höfuðstöðvar í Hafnarfirði og þar með sameina stóran hluta af starfsfólki sem hefur aðsetur á höfuðborgarsvæðinu á einn stað.

Birgir segist bjartsýnn á árið 2024 og telur að íslensk ferðaþjónusta muni eiga mjög gott ár. Hann segir að eins og gefur að skilja hafi jarðhræirngarnar á Reykjanesi haft áhrif á eftirspurnina til skamms tíma en segist efast um að hún hafi neikvæð áhrif til lengri tíma.

„Eldgos eru oft besta markaðssetning sem íslensk ferðaþjónusta getur fengið og Eyjafjallajökull er skýrasta dæmið um það,“ bætir Birgir við.

Bogi segir að umfjöllun erlendra fjölmiðla um jarðhræringarnar hafi haft nokkur áhrif á eftirspurnina hjá Icelandair í lok síðasta árs.

„Umfjöllunin lýsti ástandinu verr en raunin var og var hún ekki í samræmi við eldgosið sem svo varð en það hafði engin áhrif á okkar flugáætlun. Miðað við reynslu úr fyrri eldgosum þá eru áhrif svona umfjöllunar á ferðavilja yfirleitt aðeins til skamms tíma.“

Spurður hvort Íslendingar séu duglegir að bóka segir Birgir svo vera en Play líkt og önnur fyrirtæki finni þó fyrir því að fólk haldi að sér höndum sökum hárra vaxta og verðbólgu.

„Fólk fer að hugsa um aurinn en hættir þó ekki að ferðast. Það er líka þekkt að í niðursveiflu velur fók frekar lággjaldaflugfélög þannig að við erum bjartsýn á árið,“ segir Birgir.

Markaðurinn tók við framboðinu

Play flutti 1,5 milljónir farþega í fyrra, sem er nær tvöföldun frá árinu 2022. Birgir segir að það sem skýri aukninguna sé að Play tók líkt og áður sagði inn í reksturinn fjórar nýjar vélar síðastliðið sumar.

„Við bættum við fjórum vélum sem er mikil framboðsaukning og við sáum að markaðurinn tók við þessu framboði, sem er ekki sjálfsagt og við erum virkilega ánægð með.“

Icelandair flutti 4,3 milljónir farþega árið 2023 í heild, 17% fleiri en 2022. Bogi segir að það sem búi að baki aukningunni sé þrotlaus vinna starfsfólksins. Heimsfaraldurinn hafi enn haft mikil áhrif á eftirspurn á fyrri hluta árs 2022 og Bandaríkin afléttu ekki ferðatakmörkunum fyrr en í júní það ár.

„Frá því að samgöngutakmörkunum létti eftir heimsfaraldurinn hefur eftirspurn eftir ferðalögum aukist og við höfum aukið framboð okkar jafnt og þétt í takt við hana. Við búum að sterku vörumerki og fólk treystir á okkar ferðir og okkar góðu þjónustu, hvort sem er á leiðinni yfir hafið eða til, frá og innan Íslands. Þannig höfum við náð sama farþegafjölda og metárið 2019,“ segir Bogi.

Í lok nóvember tilkynnti Play að afkomuspá félagsins sem kynnt var í lok sumars yrði kippt úr sambandi vegna áhrifa jarðhræringa á Reykjanesi á bókunarstöðu. Icelandair tilkynnti einnig viku áður að afkomuspá Icelandair væri heldur ekki lengur í gildi af sömu ástæðu.

Birgir segir að áhrif stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs hafi einnig spilað inn í þar sem það hafi haft mikil áhrif á eftirspurnina frá Bandaríkjunum til Evrópu.

„Við sjáum ekki fram á að skila rekstrarhagnaði á árinu en reksturinn er sterkur miðað við að félagið er í vaxtarkúrfu. Við erum sátt og hlökkum til að klára veturinn og fara inn í sumarið því þar er skemmtilegt að vera í þessum bransa,“ segir Birgir að lokum.