Vogar Háspennulínan mun breyta miklu í orkumálunum suður með sjó.
Vogar Háspennulínan mun breyta miklu í orkumálunum suður með sjó. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í næsta mánuði á Landsnet von á að ráðuneyti umhverfis- og orkumála heimili fyrirtækinu eignarnám undir Suðurnesjalínu 2 á þremur jörðum á Vatnsleysuströndinni. Fáist sú heimild tekur matsnefnd eignarnámsbóta við og sker úr um fjárhæð bóta

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í næsta mánuði á Landsnet von á að ráðuneyti umhverfis- og orkumála heimili fyrirtækinu eignarnám undir Suðurnesjalínu 2 á þremur jörðum á Vatnsleysuströndinni. Fáist sú heimild tekur matsnefnd eignarnámsbóta við og sker úr um fjárhæð bóta. Þetta er gangur mála eftir að Sveitarfélagið Vogar og Landsnet náðu sl. vor niðurstöðu um framkvæmdaleyfi sem hafði verið í læstri stöðu um árabil. Sveitarfélagið vildi að nýja línan færi í jörð. Slíkt taldi Landsnet ekki gerlegt þar sem það féll ekki að stefnu stjórnvalda um lagningu jarðstrengja.

Niðurstaðan varð sú að þegar Suðurnesjalína 2 verður komin í rekstur verður ráðist í fyrsta áfanga þess að Suðurnesjalína 1 fari í jörð á um 5 km kafla á milli Grindavíkurvegar og Voga. Strengframkvæmdin er jafnframt fyrsti áfanginn í að styrkja tengingu Sveitarfélagsins Voga vegna mögulegrar tengingar stórnotenda raforku við flutningskerfið. Þá kveður samkomulagið á um að tengingar af línunni verða fyrir orkufreka atvinnustarfsemi á Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, svæði sem oft hefur verið nefnt í sambandi við stóriðju.

Suðurnesjalína 2 mun liggja frá Hamranesi í Hafnarfirði að nýju tengivirki á Njarðvíkurheiði, en þarna á milli eru um 30 kílómetrar. Lengi hefur verið kallað eftir að Suðurnesjalína 2 verði reist enda þarf meira öryggi í flutning rafmagns til byggðanna á Suðurnesjum. Einnig er sú flutningsgeta sem nú býðst ekki næg.

„Enn er óvíst hvort við fáum svæðið sem línan nýja mun liggja á til umráða meðan matsnefnd eignarnámsbóta vinnur málið. Fáist það, getum við hafið framkvæmdir á allri línuleiðinni strax í sumar en kjósi landeigendur að fara með málið til dómsstóla tefur slíkt verulega,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets í samtali við Morgunblaðið. Steinunn segir líka að í desember hafi samningar náðst við einn af fjórum landeigendum sem eftir voru. Málið sé því langt komið. Þá megi á allra næstu vikum vænta úrskurðar Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála vegna kæru á framkvæmdaleyfi fyrir línunni sem Sveitarfélagið Vogar hefur samþykkt.

Undirbúningur og útboð

„Undirbúningur fyrir framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 er í fullum gangi,“ segir Steinunn. Stefnt er á að bjóða út innkaup á nánast öllu efni, það er möstrum, leiðurum og fleiru slíku, í febrúar. Þá hefur verið keyptur jarðstrengur sem mun liggja innan byggðar í Hafnarfirði. Hvort verktakasamningar vegna slóðagerðar og jarðvinnu verði boðnir út á næstu vikum fer eftir niðurstöðum úrskurðarnefndar og ráðuneytis. Einnig hefur í öllum undirbúningi verið horft til þeirra eldumbropta sem nú eiga sér stað á Reykjanesskaganum, sem eðlilega hafa nokkur áhrif á sviðsmyndina suður með sjó. Stæði nokkurra mastra í væntanlegri Suðurnesjalínu hafa verið færð til á kortinu og þau hækkuð i samræmi við greiningar frá almannavörnum á hugsanlegu hraunrennsli.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson