Mikilvægur Skyttan Ómar Ingi Magnússon hefur verið einn besti leikmaður heims að undanförnu.
Mikilvægur Skyttan Ómar Ingi Magnússon hefur verið einn besti leikmaður heims að undanförnu. — Ljósmynd/HSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir til leiks á Evrópumótinu á föstudag er það mætir Serbíu í C-riðli í München í Þýskalandi. Einar Jónsson, þjálfari karla- og kvennaliðs Fram, er bjartsýnn fyrir hönd íslenska liðsins á mótinu, þrátt fyrir að …

EM 2024

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir til leiks á Evrópumótinu á föstudag er það mætir Serbíu í C-riðli í München í Þýskalandi. Einar Jónsson, þjálfari karla- og kvennaliðs Fram, er bjartsýnn fyrir hönd íslenska liðsins á mótinu, þrátt fyrir að frammistaðan í vináttuleikjunum gegn Austurríki í aðdraganda mótsins hafi ekki heillað.

„Ég er mjög bjartsýnn, þótt leikirnir á móti Austurríki gefi ekki endilega tilefni til bjartsýni. Ég hef samt mikla trú á Snorra og þessu liði og hef því trú á að við eigum eftir að eiga gott mót,“ sagði Einar í samtali við Morgunblaðið.

Frekar flatt allt saman

Ísland vann Austurríki ytra, 33:28 og 37:30, í síðustu leikjum liðsins fyrir lokamótið. Þrátt fyrir samanlagt tólf marka sigra telur Einar íslenska liðið eiga mikið inni.

„Mér fannst þeir ekki sérstaklega góðir á móti Austurríki. Við spiluðum á móti slöku liði og frammistaðan var ekki sannfærandi í þessum tveimur leikjum. Við eigum mikið inni eftir þessa leiki og ég hef trú á að liðið muni sýna það á EM,“ sagði Einar og hélt áfram:

„Þetta var frekar flatt allt saman. Innkoma Einars Þorsteins var fín í fyrri leiknum og það lítur út fyrir að hann fái hlutverk í liðinu. Annars voru þetta nokkurn veginn þeir sömu og venjulega sem héldu þessu uppi,“ sagði þjálfarinn og hrósaði svo Selfyssingnum Elvari Erni Jónssyni. Elvar var tæpur fyrir mótið en það var ekki að sjá á móti Austurríki.

„Sá sem var tæpastur fyrir þessa leiki spilaði nánast mest. Það voru kaflar í hans leik sem ég var ánægður með. Það endurspeglar hans spilamennsku í vetur. Hann hefur verið frábær í þýsku Bundesligunni,“ sagði Framarinn.

Selfyssingurinn Haukur Þrastarson hefur misst af síðustu þremur stórmótum vegna meiðsla en hann fær loks að spreyta sig á stóra sviðinu í landsliðstreyjunni.

„Ég vil að Haukur Þrastarson sýni eitthvað stórkostlegt á þessu móti en hann fékk ekki margar mínútur og gerði ekki neina stórkostlega hluti á móti Austurríki. Það er samt ekki mikið að marka þessa leiki. Stóra markmiðið var að hafa alla ferska og gefa öllum mínútur,“ sagði Einar.

Einar fer ekki í felur með að hann vilji sjá íslenska liðið ná í sín fyrstu verðlaun á stórmóti frá því það vann brons á EM í Austurríki 2010. Tveimur árum á undan varð liðið í öðru sæti á Ólympíuleikunum í Peking og eru það einu mótin þar sem Ísland hefur unnið til verðlauna.

Á allt öðrum stað

„Ég vil setja markmiðið á verðlaun. Ef við náum í verðlaun á þessu móti þá förum við í það minnsta í forkeppni um þetta ólympíusæti. Ég skil umræðuna um að vilja komast í þá forkeppni en við vitum ekki nákvæmlega hvaða sæti það er. Topp átta væri t.d. viðunandi árangur en mér finnst að íslenskt landslið og þessi hópur, sem er einn sá besti sem landsliðið hefur átt, eigi að stefna hærra og þora að stefna á verðlaun,“ sagði Einar ákveðinn.

Leikmannahópur Íslands er að mestu skipaður sömu leikmönnum og léku á HM í Svíþjóð og Póllandi á síðasta ári. Einar sagði liðið samt sem áður vera á öðrum stað núna en fyrir ári.

„Nú erum við á allt öðrum stað og með nýjan þjálfara. Við þurfum að nota breiddina betur og hafa menn ferska þegar líður á mótið. Ég myndi sætta mig við það að haltra í gegnum þennan riðil. Við þurfum að vinna alla leikina, en það þarf ekki endilega að spila eitthvað frábærlega. Svo má liðið springa út í milliriðli og vinna réttu leikina þar,“ útskýrði hann.

Mikið hefur verið rætt og ritað um að varnarleikur íslenska liðsins þurfi að smella á Evrópumótinu, en Einar hefur meiri áhyggjur af sóknarleiknum.

„Það hefur mikið verið talað um varnarleikinn. Ég held að hann verði bara þokkalegur, eins og hann hefur verið. Að mínu mati er það sóknarleikurinn sem verður okkur að falli á þessum mótum. Við erum með bestu sóknarlínu í heimi að mínu mati og við eigum að fara langt á því, en ef hann bregst förum við ekki langt,“ sagði hann.

Áhuginn fyrir landsliðinu hefur sjaldan verið meiri og verður mikill fjöldi Íslendinga á leikjunum í riðlakeppninni í München.

„Það er engin smá spenna fyrir þessu móti og maður finnur að þjóðfélagið er að bíða eftir þessu. Það er þvílíkur fjöldi að fara út og í riðlakeppninni verður þetta eins og að vera á heimavelli. Við fylltum líka höllina í Kristianstad í Svíþjóð í fyrra og það var eins og að vera á heimavelli, en þá dugði það ekki til. Við vonum að menn fari ekki á taugum.“

Snorri frábær þjálfari

Einar hefur mætt Snorra Steini Guðjónssyni, sem er að fara á sitt fyrsta stórmót sem landsliðsþjálfari, oft á hliðarlínunni á síðustu árum. Hann hefur trú á nýja landsliðsþjálfaranum.

„Hann er frábær þjálfari og hefur sýnt það síðustu ár. Það er mjög gaman að kljást við hann. Hann er klókur, yfirvegaður og gefur leikmönnum mikla ábyrgð inni á vellinum. Við munum sjá það á EM að leikmenn leysi málin svolítið sjálfir, enda mikil gæði og kunnátta í þessum leikmannahópi. Þessi hópur hentar Snorra mjög vel.

Hann hefur svo mikla reynslu sem leikmaður á svona mótum og ætti að vita hvað þarf til að leikmönnum líði sem best. Stundum hefur andrúmsloftið í þessu liði virkað yfirþyrmandi og þetta hefur virkað þungt þegar gengið hefur ekki verið upp á tíu. Reynsla Snorra sem leikmaður á eftir að vega þyngst þegar kemur að því,“ sagði Einar.

Aron Pálmarsson sneri aftur heim til FH fyrir leiktíðina. Landsliðsfyrirliðinn hefur verið í fremstu röð í Evrópu í meira en áratug og því í öðruvísi stöðu nú en fyrir síðustu stórmót.

„Auðvitað væri maður til í að sjá hann spila á hæsta stigi í Evrópu en ég held að það skipti engu um hans landsliðsferil. Eftir meiðsli hefur hann sótt mikið í sig veðrið í deildinni heima og hann er frábær leikmaður. Ég hef ekki áhyggjur af Aroni á þessu móti. Hann verður drulluflottur,“ sagði Einar um landsliðsfyrirliðann.

Viktor þarf frábært mót

Markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson var kornungur þegar hann tók sín fyrstu skref í meistaraflokki hjá Fram. Einar hefur gríðarlega mikla trú á sínum manni.

„Við erum stolt af okkar mönnum. Bæði Viktor Gísli og Arnar Freyr eru uppaldir Framarar. Viktor Gísli er orðinn lykilmaður í liðinu og vonandi lokar hann markinu. Ef hann á frábært mót þá vinnum við til verðlauna, svo ég hendi mikilli pressu á hann,“ sagði Einar léttur að lokum.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson