100 ára Sveinn ásamt börnunum sínum samankomin til að fagna stóra áfanganum.
100 ára Sveinn ásamt börnunum sínum samankomin til að fagna stóra áfanganum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinn Pálsson er fæddur 10. janúar 1924 í Sandgerði og var skírður 3. febrúar 1924. Snemma hneigðist Sveinn til söngs og hefur það gert alla tíð. Þannig varð hann allt frá því að vera sem stálpaður unglingur meðal yngstu meðlima…

Sveinn Pálsson er fæddur 10. janúar 1924 í Sandgerði og var skírður 3. febrúar 1924.

Snemma hneigðist Sveinn til söngs og hefur það gert alla tíð. Þannig varð hann allt frá því að vera sem stálpaður unglingur meðal yngstu meðlima Hvalsneskirkjukórsins í það að vera nær undantekningarlaust elstur meðlima þeirra kóra sem hann söng með fram á tíræðisaldur. Ástríða hans fyrir kórsöng jókst jafnt og þétt eftir því sem árunum fjölgaði og náði líklega hámarki þegar hann starfaði samtímis í fimm kórum á fyrsta áratug þessarar aldar enda voru stjórnendur viðkomandi kóra tregir til að sleppa honum. Hann hefur líka alltaf haldið hinum hreina og sanna tóni, enda með nær fullkomið tóneyra og klingjandi söngrödd sem raddfélagar hans hafa getað stólað á og stutt sig við.

Svenni reyndi á unga aldri fyrir sér í trompetblæstri undir leiðsögn Karls O. Runólfssonar í Tónskóla Reykjavíkur en sneri sér svo alfarið að harmonikkuleik enda mikill aðdáandi nikkunnar og slunginn spilari. Fór svo að Karl fékk hann til liðs við hljómsveit sína og með henni spilaði Svenni á dansiböllum á Hótel Borg, í Klúbbnum í herstöðinni á Keflavíkurvelli og á öðrum tilfallandi ballstöðum. Það var á einu slíku balli í Sandgerði sem hann hitti Eddu Margeirs og eftir stutt tilhugalíf gengu þau í hjónaband á jóladag árið 1950.

Tæpa tvo áratugi bjó fjölskyldan á neðri hæðinni að Lágafelli í Sandgerði. Sveinn festi kaup á vörubíl og meðal verkefna hans var að flytja möl úr Grindavík út á Miðnesheiði þar sem byggður var alþjóðaflugvöllur. Síðar gerði hann út, ásamt Páli bróður sínum, fiskibátinn Hamar frá Sandgerði en var loks ráðinn verkstjóri Miðneshrepps. Sinnti Sveinn því starfi þar til fjölskyldan flutti til Reykjavíkur en þá réð hann sig til álversins í Straumsvík og starfaði þar út starfsævina.

Meðan Svenni bjó suður með sjó söng hann um hríð með áðurnefndum kór Hvalsneskirju en þegar Karlakór Miðnesinga var stofnaður slóst hann í þann hóp. Segir hann þetta hafa verið hörkufínan kór en svo hafi Keflvíkingarnir nappað frambærilegustu Sandgerðingunum, líkt og þeir gerðu í fótboltanum, yfir í sinn kór og honum sjálfum þar með. Lagði þá Miðnesingakórinn upp laupana en Svenni söng með Karlakór Keflavíkur í ríflegan áratug. Fjórir kórmanna stofnuðu svo Keflavíkurkvartettinn og ferðuðust þeir víða um land. Gáfu þeir út 45 snúninga smáskífu árið 1968 og af og til hefur Seljalandsrósin af þeirri skífu fengið að hljóma á vönduðum útvarpsstöðvum.

Meðal annarra kóra sem hann hefur starfað með eru Dómkórinn í Reykjavík, Kór Árbæjarkirkju, Kór Breiðholtskirkju, Karlakórinn Kátir Karlar, Kór Víðistaðakirkju, Hrafnistukórinn og Söngfuglar eldri borgara. Best naut Sveinn sín þó með Karlakórnum Fóstbræðrum og afsprengi hans Fjórtán Fóstbræðrum. Átti hann sínar bestu stundir með kórnum á tónleikaferðalögum, jafnt innanlands sem utan.

Var það samdóma álit Fóstbræðra að Svenni hefði allt of ungur ákveðið að hætta í kórnum fyrir aldurs sakir en hann söng þó áfram í Gömlum Fóstbræðrum í fjölmörg skipti með hópi þeirra við jarðarfarir. Má með sanni segja að Fóstbræður hafi tekið sér bólfestu í hjarta Sveins og hann má ekki til þess hugsa að missa af árlegum vortónleikum kórsins. Og þó hann ausi kórinn gjarnan lofi geta menn bókað að hann lætur vita af því þegar honum finnst sem eitthvað hafi vantað upp á.

Stjórnmál skipuðu nokkurn sess í lífi Sveins og var hann á framboðslista Sósíalista í hreppsnefndarkosningum í Sandgerði 1950 og 1954 og í 2. sæti á lista Óháðra í Sandgerði 1962. En fótbolti hefur líka leikið stóra rullu í lífi hans. 11 ára gamall stofnaði hann, ásamt nokkrum félögum sínum í Sandgerði, Knattspyrnufélagið Reyni og það hefur hann stutt alla tíð síðan. Hann hannaði og teiknaði félagsmerki liðsins sem enn er notað og á 80 ára afmæli Reynis var hann með formlegum hætti gerður að heiðursfélaga liðsins.

Svenni styður líka Knattspyrnufélagið Val. Ekki aðeins er það hverfisfélag Suðurhlíða, hvar hann bjó frá 1984 allt þar til hann flutti á Dvalarheimilið Seljahlíð árið 2022, því að auki eru höfuðstöðvar félagsins og heimavöllur þess til húsa á Hlíðarenda í Reykjavík, jörðinni sem átti alnafni hans og móðurbróðir, Sveinn Pálsson veggfóðrari, en sá lést úr spænsku veikinni. Þá hefur meirihluti barnabarna hans æft með Val, hafi þau á annað borð stundað knattspyrnu, og a.m.k. tveir afkomendur þjálfað fyrir félagið.

100 er stór tala með tilliti til mannsára og ljóst að Sveinn hefur marga fjöruna sopið. Tvítugur að aldri varð hann vitni að þeim harmleik þegar þýskur kafbátur grandaði Goðafossi undan Garðskagavita og mikill mannskaði varð. Og þegar menn verða svona gamlir eykst stöðugt tala þeirra aðstandenda sem þeir þurfa að fylgja til grafar og Sveinn hefur þurft að horfa á eftir foreldrum, 7 systkinum, 2 tengdasonum og fjölda annarra. Það var svo mikið áfall þegar Edda veiktist alvarlega fyrir 15 árum og andaðist eftir erfiða baráttu 21. september 2018.

Maðurinn sem aldrei hafði haft annað hlutverk í eldamennsku en að setja upp kartöflur þurfti nú háaldraður að færa út kvíarnar í heimilishaldinu. Hann var þó snöggur að komast upp á lagið með að bjarga sér við eldavélina, gerði sér hafragraut á hverjum morgni og maukaði eftir kúnstarinnar reglum epli og banana til að sjóða saman við grautinn. Nú fær hann eldaðan fyrir sig hefðbundnari hafragraut og hann lætur vel af sér en stundum leiðist honum og hugurinn leitar á æskustöðvarnar. Hann er því ævinlega þakklátur þeim sem bjóða honum í bíltúr suður með sjó, koma við á Hvalsnesi og vitja leiða foreldra hans og systkina, en fara svo niður að Sandgerðishöfn, skoða báta og skip og anda að sér sjávarilminum.

Fjölskylda

Eiginkona Sveins var Edda Ingibjörg Margeirsdóttir, f. 15.2. 1933 á Sauðárkróki, d. 21.9. 2018. Hennar foreldrar voru Jón Margeir Sigurðsson, f. 1906, d. 1986, og Elenóra Þórðardóttir, f. 1907, d. 1987.

Börn Sveins og Eddu eru Helga Hjördís, f. 1951, Elenóra Björk, f. 1953, Hallveig Elfa, f. 1957, Höskuldur Freyr, f. 1962, og Páll Margeir, f. 1970.

Sveinn var yngstur fimm systkina sem uxu úr grasi en þrjú önnur voru andvana fædd: Páll Ó., f. 1911, d. 1972, Björgvin Jón, f. 1914, d. 2009, Þórunn Fjóla, f. 1916, d. 1981, Margrét Dóróthea, f. 1917, d. 2002.

Foreldrar Sveins: Páll Pálsson f. 25.4. 1881, d. 16.8. 1969, og Helga Pálsdóttir, f. 28.10. 1888, d. 22.7. 1977.