Markvörðurinn André Onana stendur ekki á milli stanganna er Kamerún leikur við Gíneu í fyrsta leik liðanna á Afríkumótinu í fótbolta 15. janúar. Onana hafði í hyggju að spila leikinn, þrátt fyrir að hann væri aðeins einum degi eftir leik Manchester United og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni

Markvörðurinn André Onana stendur ekki á milli stanganna er Kamerún leikur við Gíneu í fyrsta leik liðanna á Afríkumótinu í fótbolta 15. janúar. Onana hafði í hyggju að spila leikinn, þrátt fyrir að hann væri aðeins einum degi eftir leik Manchester United og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni. ESPN greinir hins vegar frá að Onana nái ekki leiknum.

Chelsea hefur gengið frá kaupum á sænsku landsliðskonunni Nathalie Björn frá Everton en bæði lið leika í ensku úrvalsdeildinni. Hefur hún verið í lykilhlutverki hjá Everton síðan hún kom til félagsins frá Rosengård í heimalandinu. Björn hefur leikið 57 landsleiki fyrir Svíþjóð og skorað í þeim sex mörk.

Framarar fá 17 ára gamlan íslenskan knattspyrnumann lánaðan frá Lyngby í Danmörku fyrir komandi keppnistímabil. Tipsbladet skýrði frá því í gær að samkvæmt sínum heimildum verði Þorri Stefán Þorbjörnsson lánaður frá Lyngby til Fram. Þorri kom til Lyngby frá FH síðasta haust, eftir að hafa leikið einn leik með Hafnarfjarðarliðinu í Bestu deildinni.

Norðmaðurinn Magne Hoseth hefur samþykkt tveggja ára samning hjá danska knattspyrnufélaginu Lyngby og verður hann næsti þjálfari liðsins og í leiðinni eftirmaður Freys Alexanderssonar. Hoseth hefur náð ótrúlegum árangri með KÍ Klaksvík frá Færeyjum.