Níu líf Bjarni Ómar í hlutverki sínu í leikverkinu vinsæla.
Níu líf Bjarni Ómar í hlutverki sínu í leikverkinu vinsæla. — Ljósmyndir/oligunnars.com
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ábreiða tónlistarmannsins Bjarna Ómars Haraldssonar af laginu „Stál og hnífur“ eftir Bubba Morthens kemur út á helstu tónlistarveitum á morgun, föstudaginn 12. janúar. „Bubbi hefur verið mikill áhrifavaldur í lífi mínu frá því ég…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ábreiða tónlistarmannsins Bjarna Ómars Haraldssonar af laginu „Stál og hnífur“ eftir Bubba Morthens kemur út á helstu tónlistarveitum á morgun, föstudaginn 12. janúar. „Bubbi hefur verið mikill áhrifavaldur í lífi mínu frá því ég var 13 ára, haft mikil áhrif á tónlist mína og ferilinn,“ segir Bjarni Ómar, sem er einn hinna svonefndu alþýðububba í leikverkinu Níu líf, en lokasýningin verður í Borgarleikhúsinu annað kvöld og er útgáfudagur ábreiðunnar valinn af því tilefni. Sérstakar aukasýningar verða í vor og eru níu komnar í sölu í maí, en sýningin á morgun er sú 233. í röðinni og hefur alltaf verið uppselt.

Tíu manns hafa skipst á að vera í hlutverki alþýðububbans, sem syngur fyrrnefnt lag í sýningunni. Bjarni Ómar tók þátt í frumsýningunni 13. mars 2020 og var líka í hlutverkinu á fyrstu sýningu eftir að þær höfðu legið niðri vegna covid. Hann segir að útgáfa ábreiðunnar sé til þess að varðveita minningarnar sem hann hafi upplifað með góðu fólki í leikhúsinu og ekki síst til að votta Bubba virðingu sína. „Þegar sýningum lýkur endanlega er verkefninu lokið en hljóðritun lagsins fer ekki frá mér, lifir með mér, og ég á eftir að spila og syngja lagið „Stál og hnífur“ um ókomna framtíð.“

Bjarni Ómar er sérfræðingur í samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og vann heima 23. mars til 4. maí 2020 vegna samkomubanns í covid. Þá tók hann daglega upp eitt lag eftir Bubba og setti á facebooksíðu sína ásamt skýringum. „Það var kaffitími minn í covid,“ rifjar hann upp.

Tenging í áratugi

Bubbi Morthens sendi frá sér lagið „Stál og hnífur“ á fyrstu plötu sinni, Ísbjarnarblús, sem kom út 1980. Tveimur árum síðar kenndi Bubbi fermingardrengnum Bjarna Ómari á Raufarhöfn að spila lagið og hefur það fylgt honum síðan. Hann hefur meðal annars verið gítarleikari í hljómsveitum, komið fram sem trúbador og söngvari, tekið þátt í tónlistarverkefnum og sent frá sér þrjár plötur, síðast 2018, þar sem lagasmíðar hans eru undir sterkum áhrifum frá Bubba.

Sem alþýðububbi í leikverkinu ræðir Bjarni Ómar við Halldóru Geirharðsdóttur leikara um fyrstu kynni þeirra Bubba 1982. „Lagið „Stál og hnífur“ er stór hluti af tónlistarlífi mínu vegna þeirrar tengingar,“ segir hann. „Á síðustu sýningu nýliðins árs sagði ég að það væri 41 hár síðan í ljósi þess að ég er sköllóttur!“

Ingibjörg Hinriksdóttir gerði plötuumslagið og Arnþór Ingi Jónsson tók ljósmyndina. Pétur Hjaltested í Hljóðsmiðjunni í Hveragerði sá um upptökur ábreiðunnar og Sigurdór Guðmundsson hjá Skonrokk Studios í Danmörku átti lokaorðið. Bjarni Ómar syngur og leikur lagið á kassagítar en félagar hans í hljómsveitinni Góðri í hófi spiluðu með og komu að útsetningunni. Þeir eru hammondleikarinn Albert Pálsson, sólógítarleikarinn Ásgrímur Guðmundsson, trommu- og slagverksleikarinn Guðmundur Stefánsson, bassaleikarinn Kristinn Ingi Sigurjónsson og rytmagítarleikarinn Þórhallur Andrésson. Lagið verður aðgengilegt á veitum eins og Spotify, Tidal, Apple Music og YouTube.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson