Suðureyri Mikil lífsgæði eru fólgin í lagningu ljósleiðara og vatnslagnar.
Suðureyri Mikil lífsgæði eru fólgin í lagningu ljósleiðara og vatnslagnar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Gamla lögnin var komin til ára sinna, um 50 ára gömul, og orðin nokkuð léleg,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ. Endurnýjun vatnslagnar fyrir vatnsveitu í Súgandafirði er nú lokið en unnið hefur verið að verkinu síðan 2022

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Gamla lögnin var komin til ára sinna, um 50 ára gömul, og orðin nokkuð léleg,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ. Endurnýjun vatnslagnar fyrir vatnsveitu í Súgandafirði er nú lokið en unnið hefur verið að verkinu síðan 2022.

„Flutningsgetan í henni annaði ekki vatnsþörfinni á Suðureyri og því var endurnýjunarþörfin mikil, enda kom það stundum fyrir að vatnsmagnið í tankinum ofan við þorpið var of lítið með tilheyrandi vandræðum,“ segir Arna Lára.

Hún segir að vatnslögnin liggi um þriggja og hálfs kílómetra leið frá Staðardal til Suðureyrar og við endurnýjunina hafi legu hennar verið breytt. Var það meðal annars vegna þess að eldri lögnin lá að hluta neðan vegar sjávarmegin. Það gerði hana viðkvæma fyrir rofi vegna ágangs sjávar.

„Nýja vatnslögnin er sverari en sú gamla og þegar hún var tengd jókst rennslið úr 35-40 rúmmetrum á klukkustund í 80 rúmmetra á klukkustund. Þessi aukning er bæði mikilvæg og ánægjuleg fyrir íbúa og atvinnustarfsemi á Suðureyri, ekki síst vegna uppbyggingar atvinnustarfsemi á svæðinu,“ segir Arna Lára.

Verkið tók tvö ár og var unnið í tveimur áföngum árin 2022 og 2023. Styrkur fékkst úr Fiskeldissjóði fyrir báðum áföngum að sögn bæjarstjórans, samtals upp á 53,8 milljónir króna. „Styrkurinn skipti miklu máli fyrir sveitarfélagið enda var áætlaður kostnaður við endurnýjun lagnarinnar 130 milljónir en áfallinn kostnaður endaði í 103,8 milljónum króna.“

Arna Lára segir ennfremur að samhliða lagningu nýrar vatnslagnar hafi Orkubú Vestfjarða og Snerpa lagt háspennukapal og ljósleiðara út í fjörðinn. Áður var aðeins koparstrengur. Lagning ljósleiðarans var hluti af verkefninu Ísland ljóstengt. „Þetta eru mikil lífsgæði sem fylgja nýja ljósleiðaranum,“ segir bæjarstjórinn.