Keflavíkurflugvöllur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir landamærin tiltölulega greiðfær fyrir erlenda brotamenn sem hingað sækja stíft.
Keflavíkurflugvöllur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir landamærin tiltölulega greiðfær fyrir erlenda brotamenn sem hingað sækja stíft. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Baksvið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Færa má gild rök fyrir því að Ísland ætti að standa fyrir utan Schengen en landfræðileg staða landsins er með öðrum hætti en hjá öðrum Schengen-ríkjum þar sem landið er fjarri meginlandi Evrópu,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Morgunblaðið. Hann hefur verulegar áhyggjur af umferð um innri landamæri hér á landi sem hann segir tiltölulega greiðfær fyrir erlenda brotamenn sem hingað sæki stíft.

Umfang starfs lögreglunnar á Kaflavíkurflugvelli hefur vaxið mikið síðustu misseri, ekki síst vegna þess fjölda einstaklinga sem hingað koma í leit að betra lífi. Þannig sóttu 4.149 manns um alþjóðlega vernd hér á landi í fyrra en um 78% þessara umsókna fara fyrst í gegnum hendur starfsmanna lögreglu á flugvellinum á fyrstu stigum umsóknarferlis. Fleiri umsóknir bárust árið 2022 þegar þær voru 4.540. Aldrei áður hafa svo margar umsóknir borist um alþjóðlega vernd hér á landi, að sögn Úlfars.

Misjafn sauður í mörgu fé

Eins og vænta má er misjafn sauður í mörgu fé þegar svo margir leita hingað til lands eftir vernd. Af 241 gæsluvarðhaldsúrskurði sem kveðinn var upp hér á landi á síðasta ári voru 132 þeirra að kröfu lögreglunnar á Suðurnesjum. Segir Úlfar að 92 þeirra hafi verið vegna innflutnings á fíkniefnum og/eða peningaþvættis í tengslum við skipulagða brotastarfsemi, 24 á grundvelli útlendingalaga og/eða frávísunar á landamærum og þrír vegna innflutnings fíknilyfja. Aðrir sættu gæsluvarðhaldi vegna þjófnaðar, evrópskrar handtökuskipunar, kynferðisbrota, misnotkunar skjala og brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, heimilisofbeldis og síbrota.

Að meðaltali sátu 11 manns í gæsluvarðhaldi vegna mála á forræði lögreglunnar á Suðurnesjum á hverjum degi árið 2023. Til samanburðar voru að jafnaði átta í gæsluvarðhaldi á hverjum degi alla daga ársins 2022. Það ár voru 80 einstaklingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald að kröfu embættisins. Í dag sitja 12 í gæsluvarðhaldi, þar af 11 vegna innflutnings á ólöglegum fíkniefnum til landsins. Segir Úlfar að flest málanna tengist skipulagðri brotastarfsemi þvert á landamæri.

Eiturlyf og peningaþvætti

Fíkniefnamálum fer stöðugt fjölgandi á Keflavíkurflugvelli og segir Úlfar að samstarf lögreglunnar og tollgæslunnar á flugvellinum sé frábært, en í flestum tilfellum sé það tollgæslan sem eigi upphaf að slíkum rannsóknum við komu farþega til landsins. Þá fari samvinna lögreglu og tollgæslu við erlendar löggæslu- og tollgæslustofnanir vaxandi, ekki síst samstarf við Evrópulögregluna, Europol. Áhersla sé jafnframt lögð á að byggja upp tengslanet starfsmanna hér á landi við starfsmenn sambærilegra stofnana á öðrum flugvöllum erlendis.

Í fyrra lagði lögreglan á Suðurnesjum hald á tæplega 54 kíló af kókaíni, en árið áður nam magnið um 42 kílóum. þessi tvö ár voru hin stærstu í haldlagningu fíkniefna hjá embættinu. Sömu sögu er að segja um ávana- og fíknilyfið OxyContin, en í fyrra var lagt hald á 23.145 töflur af efninu en árið áður var fjöldinn 19.193 töflur. Þetta eru metár hvað varðar fíkniefni sem hald er lagt á, en auk framangreindra efna var reynt að smygla 125 kg af marijúana til landsins í fyrra.

Úlfar segir að skráð peningaþvættismál hafi aldrei verið fleiri en í fyrra, en þá lagði lögreglan hald á 147 milljónir króna í reiðufé sem voru í fórum erlendra brotamanna á leið úr landi með fjármunina. Í flestum tilvikum voru málin unnin í samstarfi við tollgæsluna á Keflavíkurflugvelli.

Eftirtektarverður árangur

„Starf lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli er gríðarlega mikilvægt, en eins og kunnugt er höfum við ekki fullkomna stjórn á því hverjir koma til landsins vegna fyrirkomulags á innri landamærum Íslands, þar sem heimilt er að fara yfir landamæri Schengen-svæðisins án þess að landamæraeftirlit fari fram, án tillits til ríkisfangs einstaklings,“ segir Úlfar og bætir því við að helstu áskoranir lögreglu og tollgæslu séu þó á innri landamærum landsins.

Úlfar segir að undanfarin misseri hafi greiningarvinna og önnur frumkvæðisvinna tollgæslu og lögreglu skilað eftirtektarverðum árangri sem endurspeglist m.a. í fjölda frávísana á innri landamærum og í þeim fjölda sem handtekinn hefur verið með fíkniefni við komu til landsins.