Skáldið Gagnrýnandi segir „margt áhrifaríkt, vel skrifað og áhugavert í þessu stafrófskveri Magnúsar“.
Skáldið Gagnrýnandi segir „margt áhrifaríkt, vel skrifað og áhugavert í þessu stafrófskveri Magnúsar“. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóð Lexíurnar ★★★·· Eftir Magnús Sigurðsson. Dimma, 2023. Mjúkspjalda, 185 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Lexíurnar er fimmta prósasafn Magnúsar Sigurðssonar og heldur hann hér áfram að vinna á athyglisverðan hátt með og úr tungumálinu, bókmenntum, skáldskap og dægurmenningunni í víðustu mynd og það á mjög persónulegan hátt. Með allrahanda vísunum í aðra texta og ólíkustu verk, sem snúið er upp á, þau tengd eða toguð, og blandað við og breytt í skáldskap hans sjálfs. „Stafrófskver“ er það kallað og tekur Magnús mið af slíkum kverum fyrri tíma, kennslubókum sem áttu að veita ungum lesendum innsýn í „töfraheima leslistarinnar“ og geyma um leið „uppbyggilegar lexíur og heilræði“ sem gætu nýst lesendum sem eins konar veganesti út í lífið, eins og segir á kápu um verkið. Og Magnús tekur heldur betur með sínum hætti snúning á það gamla bókarform, eins og hann hefur gert í fyrri greinasöfnum, eins og ritgerðasafninu Húslestri (2022) og textasafninu Íslensk lestrarbók (2019). Þegar Magnús kom fram á ritvöllinn árið 2008 sendi hann bæði frá sér ljóðabók og prósasöfn og síðan eru bækur hans orðnar fimm í hvorum flokki en síðustu ár hafa prósasöfnin tekið yfir, með vænni ílögn þó af ljóðum, en samhliða hefur Magnús verið öflugur ljóðaþýðandi. Hann er doktor í viðtökusögu ljóða Emily Dickinson.

Undirstaða Lexíanna er hylling höfundar á áhrifamætti bókmennta og lesturs, að með orðum megi gera hvað sem er og jafnframt veiti þau lesandanum skjól. Birtist það vel í tveimur tileinkunum í upphafi, annarsvegar til skáldsins Ingibjargar Haraldsdóttur: „Undankoman / var jafnan vís: // öryggi draumanna / tryggð orðanna“ og hinsvegar til skáldsystur hennar, hinnar bandarísku Mary Oliver: „abcdefghijklmnopqrstuvxyzþæö / Gerðu svo vel. Gerðu það sem þú vilt.“ Nokkrir þræðir renna svo gegnum bókina og birtast sumir þeirra endurtekið, eins og hugleiðingar undir yfirskriftinni „Bókhald“ sem fjalla um lestrarupplifanir úr æsku. Sú fyrsta hljómar þannig: „Öddubækurnar. Dórubækurnar. Völubækurnar. / Á hátindi gullaldarinnar. / Gullaldarskeiði lestrarreynslunnar.“ Og „Bókhald (10)“ er einfaldlega: „Að Nonnabókunum ógleymanlegu ógleymdum.“ Rýnir tengir vel við þessi minningabrot, lagði sjálfur í það verkefni að lesa allar bækur barnabókadeildar Bókasafns Keflavíkur í æsku, byrjaði á A-bókunum og endaði á Ö. Og það er hluti af aðferð Magnúsar með fjölþættu neti vísana í bókunum, treyst er á að lesandinn skilji, þekki og tengi, sem eflaust tekst misvel. Og í textaþræðinum „Hið ósegjanlega“ vinnur Magnús einmitt með það, en hann hefst á tilvísun í Håvard Rem um að þegar „Ég skrifa um mig. / Þú lest um þig.“ Þar er lesandanum bent á að hann verði að leita sjálfan sig uppi í verkum einhvers annars.

Annar þráður sem er tekinn upp ítrekað er „Orðrétt“ og er einhverskonar tilvitnun en í einni slíkri færslu er til dæmis fjallað um þá hugmynd höfundarins Gretars Fells í Lesbók Morgunblaðsins árið 1942 að nota hugtakið ljóðúð um þau einkenni sem skilji ljóð frá öðrum bókenntagreinum. Í annarri „Orðrétt“-færslu segir: „„Orð, orð, orð.“ / Svarar Hamlet. / Vitfirrti, vaklandi Hamlet.“ Enn einn þráðurinn sem oft er tekinn upp er „Málum blandið“, sem kalla mætti hugleiðingar um orðsifjafræði. Sjötta færslan er þessi: „vís / Úr latínu, „visus“: séður. / Þar af viss, viska, vísindi, vitni, vit –“

Á milli eru sjálfstæðir prósar, sagnabrot og ljóð höfundar sem tengjast þemum bókarinnar um orðin með misskýrum hætti og margt af því bæði áhugavert og áhrifaríkt. Og glettnisleg og jafnvel nokkuð svört skoðun á sögunni og bókmenntum birtist okkur, eins og í prósanum „Svarthvít brennivínsrómantík“ sem er um þrjú skáld og höfunda sem sagan segir að áfengið hafi leikið illa og er minnst á staði sem komu við sögu í lífi þeirra og dauða og vísað líka í verk þeirra:

„Stundum sjást þeir á White Horse Tavern, stundum á Hviids Vinstue, Dylan Thomas, Jónas og Steinar, ásamt öllum hinum snillibyttunum. Sitja þar hver á móti öðrum í skáldafrökkunum, þegjandalegir, drungalegir á svipinn, og blanda í svartan dauðann“ (71).

Þessu stafrófskveri sínu skiptir Magnús í þrjá hluta kennda við fyrstu þrjá stafi stafrófsins, bæði há- og lágstafi: Aa, Bb og Cc. Þýðir það að hann ætli sér að halda áfram og fikra sig eftir allri romsunni, að ö-inu? Það væri áhugavert verkefni. Fyrsti og síðasti hlutinn bera bókina uppi, með endurteknu hugleiðingaþráðunum, prósum, athugasemdum og ljóðum. Á milli situr Bb-hlutinn, ljóðið „Sama hvað“ í 32 númeruðum hlutum og sagt ferðakvæði. Þetta er einskonar tilvistarheimspeki í afar knöppu ljóðformi sem hefst á línunum „Ég. // Til dæmis. // Til að byrja með. /// Byrjar þar. // Ég þar. // Byrjar til dæmis með ég þar.“ Ljóðmælandinn veltir svo fyrir sér hugsuninni og stöðu sinni/mannsins í lífinu allt til enda, í þessum 32 hlutum, „Þar til ekkert sama hvað.“ Kaldhamrað formið á ljóðinu og leikurinn með endurtekningar og hrynjandi er vissulega nokkuð áhugavert en heildin náði þó ekki að kveikja áhuga þessa lesanda, þrátt fyrir ítrekaðan lestur; áhrifamáttur heildarverksins fellur talsvert af þeim sökum í þessum miðhluta. En þar fyrir utan er margt áhrifaríkt, vel skrifað og áhugavert í þessu stafrófskveri Magnúsar, höfundar sem fetar markvisst sína slóð í íslenskum bókmenntum, ólíkur öllum öðrum.