Fasteignir Uppbygging íbúða mætir ekki eftirspurn miðað við fólksfjölgun.
Fasteignir Uppbygging íbúða mætir ekki eftirspurn miðað við fólksfjölgun. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is „Hér blasir að einhverju leyti við hagfræðikenningin um harm heildarinnar. Sveitarfélögin hafa hvert um sig hámarkað sinn hag við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis undanfarin ár en það leiðir til þess að sárlega vantar íbúðir til að mæta þörfum landsmanna og svo mun verða áfram næstu ár.“

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

„Hér blasir að einhverju leyti við hagfræðikenningin um harm heildarinnar. Sveitarfélögin hafa hvert um sig hámarkað sinn hag við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis undanfarin ár en það leiðir til þess að sárlega vantar íbúðir til að mæta þörfum landsmanna og svo mun verða áfram næstu ár.“

Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), í samtali við Morgunblaðið inntur eftir viðbrögðum við nýrri könnun sem SI hefur látið gera meðal stjórnenda verktakafyrirtækja.

Það er óhætt að segja að það sé þungt hljóð í stjórnendum verktakafyrirtækjanna því samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar má búast við verulegum samdrætti í byggingu nýrra íbúða á næstu misserum. Þannig reikna þeir með að hefja byggingu um 700 íbúða á næstu tólf mánuðum á meðan tæplega eitt þúsund íbúðir hafa verið í byggingu á síðustu tólf mánuðum, sem er tæplega 30% samdráttur. Í sambærilegri könnun sem gerð var í mars á síðasta ári bjuggust stjórnendur við um 65% samdrætti, sem raungerðist ef miðað er við talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem framkvæmd var sl. haust.

Hár fjármagnskostnaður og lóðaskortur áberandi þættir

Niðurstaða nýju könnunarinnar verður birt á vef SI í dag, en Morgunblaðið hefur hana undir höndum. Samkvæmt henni má vera ljóst að háir vextir og skortur á lóðaframboði eru þeir þættir sem hafa mest áhrif á fyrrnefndan samdrátt. Um 88% stjórnenda segja að hækkandi fjármögnunarkostnaður muni hafa neikvæð áhrif á uppbyggingaráform þeirra og leiða til samdráttar. Þá segir tæplega helmingur þátttakenda í könnuninni að dregið hafi úr fjármögnunarmöguleikum þeirra fyrirtækja til byggingar íbúðarhúsnæðis á síðastliðnum sex mánuðum.

Í grafi hér á síðunni má sjá hluta af niðurstöðu könnunarinnar, þar sem spurt er um áform um uppbyggingu á næstu tólf mánuðum. Þá er ljóst að skortur á lóðum er áberandi þáttur sem hefur takmarkandi þátt í uppbyggingu íbúða. Fram kemur í könnuninni að verktakafyrirtækin hafi, vegna lóðaskorts, snúið sér að útboðsverkefnum í auknum mæli. Mikil hækkun á verði lóða hafi haft neikvæð áhrif á uppbyggingu íbúða. Greiða þarf fyrir lóðir áður en uppbygging hefst þannig að sá þáttur krefst mikils fjármagnskostnaðar. Þá hefur lóðaskortur gert það að verkum að ekki hefur tekist að tryggja framboð nýrra íbúða.

Meðal annarra þátta má nefna að um 75% svarenda segja fyrirtæki sín eiga erfiðara með að selja íbúðir nú en fyrir sex mánuðum. Aftur á móti nefnir meirihluti svarenda að verðhækkun aðfanga og hækkun launa hafi ekki breytt áformum um uppbyggingu.

Veltur allt á Reykjavík

Sigurður segir að mjög alvarlegur íbúðaskortur blasi við á næstu árum en sofandaháttur ríki um þörfina á aðgerðum.

„Þetta er þvert á þarfir landsmanna þar sem mikil fólksfjölgun ofan á margra ára uppsafnaða þörf fyrir nýjar íbúðir kallar á hraða uppbyggingu en ekki samdrátt,“ segir Sigurður.

Spurður nánar um afleiðingarnar segir Sigurður að þegar eftirspurn eykst með lækkandi vöxtum verði framboð ekki nægjanlegt. Þá séu líkur á að fasteignaverð rjúki upp með tilheyrandi efnahagslegum áhrifum, þ.e. hækkun fasteignaverðs sem leiði til hárrar verðbólgu og hárra vaxta.

Það liggur þó lítið fyrir um það hvort vextir lækki í bráð og þá hversu hratt þeir lækka. Spurður um það hvort aðrar lausnir séu í stöðunni segir Sigurður að sveitarfélög þurfi að bjóða fleiri lóðir til sölu og skipuleggja fleiri svæði.

„Það veltur í raun allt á Reykjavík,“ segir Sigurður þegar hann er spurður nánar um líklega aukningu á lóðaframboði.

„Reykjavík getur sett af stað uppbyggingu víðar en nú er. Þá þarf að stækka uppbyggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu en Reykjavík hefur tekið fálega í þær hugmyndir í gegnum tíðina og það bindur hendur annarra sveitarfélaga.“

Sigurður bætir við að staðan á húsnæðismarkaði hafi veruleg áhrif á lífskjör landsmanna. Því sé eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins kalli eftir aðgerðum í húsnæðismálum.

„Ríkið þarf nú að sýna forystu gagnvart sveitarfélögunum til þess að auka uppbygginguna þannig að hún verði í takt við þarfir landsmanna,“ segir hann að lokum.