Fjölmennt Frakkinn Dika Mem sækir að marki Norður-Makedóníu í gær. Í bakgrunninum má sjá mannvirkið sem Merkur Spiel-Arena í Düsseldorf er.
Fjölmennt Frakkinn Dika Mem sækir að marki Norður-Makedóníu í gær. Í bakgrunninum má sjá mannvirkið sem Merkur Spiel-Arena í Düsseldorf er. — AFP/Odd Andersen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frakkland vann afar sannfærandi 39:29-sigur á Norður-Makedóníu í upphafsleik Evrópumóts karla í handbolta í A-riðlinum í gærkvöldi. Leikið var á Merkur Spiel-Arena, knattspyrnuvelli Düsseldorf, en völlurinn rúmar tæplega 55.000 áhorfendur

EM 2024

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Frakkland vann afar sannfærandi 39:29-sigur á Norður-Makedóníu í upphafsleik Evrópumóts karla í handbolta í A-riðlinum í gærkvöldi. Leikið var á Merkur Spiel-Arena, knattspyrnuvelli Düsseldorf, en völlurinn rúmar tæplega 55.000 áhorfendur.

Frakkar voru aðeins seinir í gang því Filip Kuzmanovski kom Norður-Makedóníu í 10:8 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Þá skoraði Frakkland fjögur mörk í röð og breytti stöðunni í 12:10. Eftir það jókst munurinn jafnt og þétt út allan leikinn og var sigurinn að lokum ansi öruggur.

Franska liðið er sigurstranglegt á mótinu og það lék afar vel í gær eftir að liðið náði hrollinum úr sér eftir fyrsta korterið. Þjálfarinn Guillaume Gille nýtti breiddina vel, því allir útileikmenn Frakklands nema Karl Konan komust á blað í leiknum. Það verður erfitt að stoppa franska liðið, miðað við leikinn í gær.

Nikola Karabatic skoraði eitt mark og vantar nú níu mörk til að taka fram úr Guðjóni Val Sigurðssyni og verða markahæsti leikmaður í sögu Evrópumótsins.

Hugo Descar skoraði sjö mörk fyrir Frakkland og Dylan Nahi sex. Remi Desbonnet varði sjö skot í franska markinu og Charles Bolzinger fimm.

Zarko Pehevski skoraði sjö fyrir Norður-Makedóníu og Ivan Dzonov sex. Nikola Mitrevski varði 13 skot í markinu.

Í sama riðli var leikur Þýskalands og Sviss flautaður á klukkan 19.45, eða í þann mund sem blaðið fór í prentun. Áhuginn fyrir leiknum var gríðarlegur og heimsmet slegið því að minnsta kosti 53 þúsund áhorfendur voru mættir til Düsseldorf. Nákvæmar áhorfendatölur voru ekki aðgengilegar þegar blaðið fór í prentun.

Fyrra metið var 44.129 áhorfendur og metið sem hafði staðið frá september 2014 stórslegið.

Á milli leikja var svo glæsileg setningarathöfn og óhætt að segja að Evrópumótið 2024 hafi farið af stað með látum og lofar gríðarlega góðu fyrir framhaldið.