Matgæðingurinn Hanna Thordarson er þekkt fyrir að gera bestu humarsúpuna og elskar að nostra við matargerðina í eldhúsinu. Hún nostrar sérstaklega við humarsúpuna og býr alla jafna til sína eigin kryddblöndu.
Matgæðingurinn Hanna Thordarson er þekkt fyrir að gera bestu humarsúpuna og elskar að nostra við matargerðina í eldhúsinu. Hún nostrar sérstaklega við humarsúpuna og býr alla jafna til sína eigin kryddblöndu. — Ljósmyndir/Heba Sólveig Heimisdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hanna sviptir hulunni af uppskriftinni að humarsúpunni sinni sem steinliggur á þessum árstíma. „Þessi uppskrift er heimatilbúin og er mjög vinsæl hjá heimilisfólkinu. Venjulega er fyrsta degi ársins fagnað með þessari súpu en einnig má gera…

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Hanna sviptir hulunni af uppskriftinni að humarsúpunni sinni sem steinliggur á þessum árstíma.

„Þessi uppskrift er heimatilbúin og er mjög vinsæl hjá heimilisfólkinu. Venjulega er fyrsta degi ársins fagnað með þessari súpu en einnig má gera hana hversdagslegri með því að nota minna af humri og bæta fiski við í staðinn. Þeir sem kjósa milda humarsúpa ættu að prófa þessa,“ segir Hanna.

Býr oft til eigin kryddblöndu

„Það er ágætt að hafa í huga að súpan er þunn og mér hefur þótt hún góð þannig en hana má þykkja með meira af sósujafnara eða maizena-mjöli. Oft bý ég til kryddblöndu sem ég set bæði í humarsoðið og í súpuna sjálfa. Hún kemur í staðinn fyrir salt og pipar í súpunni. Vert er líka að hafa í huga að hráefnin og hlutföllin eru ekki alveg heilög. Stundum nota ég meira hvítvín, sleppi sveppamulningnum og nota meiri rjóma, set minna eða meira af humri, bara svona eftir því hvað ég á til,“ segir Hanna sem veit fátt skemmtilegra en að leika sér við matargerð í eldhúsinu.

Hægt er að vinna sér í haginn með því að búa til kryddblönduna og humarsoðið áður og geyma í kæli. Tekur um tvær klukkustundir. Einnig er gott ráð að taka humarinn úr frysti daginn fyrir notkun og láta hann þiðna í kæli.

Humarsúpan hennar Hönnu

Fyrir 4-5

Humarsoð

½ laukur, saxaður

3-4 sellerístilkar, niðurskornir

2-3 hvítlauksrif, smátt söxuð

Smjör eftir smekk og þörfum

Skel af u.þ.b. 14-20 stk. meðalstórum humrum. Stærð og fjöldi fer eftir tilefni, fínt að kaupa t.d. skelbrot.

1 l vatn (vatnið á að ná yfir
humarskeljarnar)

1 tsk. græn piparkorn (niðursoðin)

1 tsk. rautt curry paste

1 tsk. kryddblanda, má sleppa (1 tsk. rósapipar, 1 tsk. ljós sinnepsfræ, ½ tsk. dökk sinnepsfræ, 2 tsk. hvítlaukssalt og ½ tsk. svartur pipar, allt sett í mortél og mulið).

Best er að taka humarinn úr frysti daginn áður og láta hann þiðna í kæli eins og fram kemur hér fyrir ofan. Allt sem rennur af humrinum er sett í soðið.

Smjör brætt á pönnu (eða í potti), lauk, selleríi og hvítlauk bætt út í og steikt á vægum hita í 10-15 mínútur. Laukurinn á ekki að brúnast heldur verða glær. Humarskelin sett á pönnuna og hitinn aðeins hækkaður, hrært í stutta stund. Vatni bætt við og hitað að suðu, látið sjóða í 10-15 mínútur. Niðursoðinn grænn pipar, kryddblandan og curry paste sett út í og látið malla í u.þ.b. 30 mínútur, með lokið á. Soð síað frá í gegnum sigti og geymt, gott að láta renna vel af. Soðið er u.þ.b. 5-7 dl.

Humarsúpa

Smjör

14-20 meðalstórir hreinsaðir humrar

3-4 msk. sósujafnari

Humarsoð (uppskrift hér að ofan)

3-4 dl hvítvín (má einnig nota freyðivín ef til er afgangur)

1 dl mjólk/matreiðslurjómi

2 tsk. kryddblanda eða saltflögur

1 tsk. kapers, saxað

Nokkrir dropar tabasco-sósa

1-2 msk. tómatsósa

1 msk. sveppaduft, t.d. þurrkaður kóngssveppur mulinn í mortéli

Nokkrir dropar sojasósa

3-5 gulrætur, mjög smátt saxaðar

Nýmalaður pipar

2-3 dl rjómi

Þeyttur rjómi og steinselja til skrauts

Smjör brætt í djúpri pönnu eða potti. 1 tsk. kryddblanda sett á pönnuna. Humarinn látinn steikjast örstutt á góðum hita, varist að steikja of mikið, tekinn upp úr og settur á disk, vökvinn látinn renna af í pottinn aftur, þ.e. aðallega smjör með ögn af humarbragði. Soð sett í pottinn og hitað að suðu, sósujafnari hrærður út í. Hvítvín, mjólk, kapers, tabasco, sojasósa, tómatsósa, og sveppaduft sett út í og hrært. Gulrótum bætt við og látið krauma í 15 mínútur á meðalhita, gætið þess að hræra í reglulega. Rjóma bætt við ásamt afgangi af kryddblöndunni (eða saltað og piprað) og smakka til, gott að láta standa á lágum hita í 10-15 mínútur (ef tími er til). Súpan hituð að suðu, tekin af hellunni og humarinn settur út í, hægt að helminga humrana til að meira verði úr þeim, borið strax fram. Einnig má setja 3-5 humra í hverja skál og hella heitri súpunni ofan á. Þannig má koma í veg fyrir að humarinn ofeldist. Hver skál skreytt með þeyttum rjóma og persilju. Gott að hafa nýbakað brauð með súpunni.