Flugfarþegar Bandaríkjamenn voru fjölmennasti hópurinn.
Flugfarþegar Bandaríkjamenn voru fjölmennasti hópurinn. — Morgunblaðið/Eggert
Alls fóru ríflega 2,2 milljónir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll á öllu seinasta ári samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia á fjölda brottfara erlendra farþega frá landinu. Voru þeir tæplega hálfri milljón fleiri en á árinu 2022

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alls fóru ríflega 2,2 milljónir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll á öllu seinasta ári samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia á fjölda brottfara erlendra farþega frá landinu. Voru þeir tæplega hálfri milljón fleiri en á árinu 2022.

Þetta kemur fram í greinargerð Ferðamálastofu um brottfarir frá Keflavíkurflugvelli á nýliðnu ári sem birt er á vef Ferðamálastofu. „Aukningin milli ára nemur 31,1%. Brottfarir hafa einungis einu sinni áður mælst fleiri en metárið 2018 voru brottfarir rúmlega 2,3 milljónir,“ segir í umfjölluninni. Brottfarirnar í fyrra voru nokkru fleiri en á árinu 2017 sem er þriðja stærsta árið til þessa en þá voru brottfarirnar tæplega 2,2 milljónir.

Í fyrra fjölgaði brottförum frá Keflavíkurflugvelli alla mánuði ársins frá árinu á undan. Þær voru langflestar í ágúst eða um 282 þúsund talsins.

„Flestar brottfarir árið 2023 voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, um 629 þúsund talsins eða nærri þrjár af hverjum tíu. Um er að ræða 171 þúsund fleiri brottfarir Bandaríkjamanna en árið 2022 og 165 þúsund fleiri en árið 2019. Áður höfðu brottfarir þeirra mælst einu sinni fleiri á ársgrunni árið 2018 eða 695 þúsund talsins.

Brottfarir Breta voru í öðru sæti árið 2023, um 279 þúsund talsins, um 49 þúsund fleiri en árið 2022 og um 17 þúsund fleiri en árið 2019. Um er að ræða fjórða stærsta árið hvað varðar brottfarir Breta en áður höfðu þær mælst á bilinu 298 til 322 þúsund, 2016, 2017 og 2018,“ segir ennfremur í greiningu Ferðamálastofu.

Þjóðverjar voru í þriðja sæti eða um 136 þúsund talsins og Pólverjar í fjórða sæti, 134 þúsund talsins.

Ef sjónum er beint að ferðalögum Íslendinga til annarra landa í fyrra kemur í ljós að brottfarir þeirra frá Keflavíkurflugvelli voru samtals um 591 þúsund talsins á seinasta ári eða um fjögur þúsund fleiri en á árinu 2022. „Aukningin nemur 0,8% milli ára. Flestar brottfarir voru farnar í júlí en þá fóru tæplega 71 þúsund Íslendingar utan. Um er að ræða fjórða stærsta ferðaár Íslendinga þegar kemur að utanlandsferðum en brottfarir þeirra mældust um 619 þúsund árið 2017, 668 þúsund 2018 og 611 þúsund árið 2019.“