Í Predikunarstólnum Hafsteinn og Ágústa á Preikestolen við Lysefjord, þeirri gönguferð verður enginn svikinn af.
Í Predikunarstólnum Hafsteinn og Ágústa á Preikestolen við Lysefjord, þeirri gönguferð verður enginn svikinn af.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ef það hefði verið í boði að greina mig með eitthvað á þessum tíma hefði það verið ADHD [ofvirkni með athyglisbresti] með snert af einhverfu,“ segir Hafsteinn Krøyer Eiðsson í samtali við Morgunblaðið

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Ef það hefði verið í boði að greina mig með eitthvað á þessum tíma hefði það verið ADHD [ofvirkni með athyglisbresti] með snert af einhverfu,“ segir Hafsteinn Krøyer Eiðsson í samtali við Morgunblaðið. Greiningar hans á andlega sviðinu verða því líklega aldrei gerðar heyrum kunnar en þeim mun ljósara er að greining Hafsteins á góðu myndefni í stórbrotinni náttúru Noregs er þeim mun nákvæmari – í raun hárfín.

Hafsteinn er úr Vogunum í Reykjavík en nú búsettur í bænum Sandnes, ásamt Ágústu Eyþórsdóttur konu sinni, steinsnar frá olíuhöfuðborginni Stavanger í vesturstrandarfylkinu Rogaland sem uppfóstrað hefur fjölda sagnapersóna við sitt brjóst, svo sem þá Erling Skjálgsson og Flóka Vilgerðarson, kunnari sem Hrafna-Flóka en Erlingur var þekktur að því að gefa þrælum sínum jarðir og frelsi og gera þá að gegnum bændum. „Öllum kom hann til nokkurs þroska,“ skrifaði sagnaritarinn í Reykholti um Erling.

Hafsteinn kom sjálfum sér hins vegar til nokkurs þroska hvað ljósmyndun snertir því hann er algjörlega sjálflærður að linsubaki, hóf ferilinn með eldgamlan iPhone-síma og stjörnukíki að vopni en tekur nú myndir sem blaðamaður leyfir sér að telja eiga fullt erindi í virtustu náttúrulífstímarit.

Örverpið í fjölskyldunni

Áður en ljósmyndaáhuginn kom til vann Hafsteinn ýmis störf eftir að hafa ungur flosnað upp úr skóla þar sem bókvitið heillaði hann lítið enda alkunna að ekki verður það í askana látið. Hann lifir þó ekki af listsköpun sinni þótt verkefni við brúðkaupsljósmyndun leiti inn á borð hans og hann selji eina og eina mynd.

Nú starfar Hafsteinn við útakstur hjá matvæladreifingarfyrirtækinu ASKO í Rogaland sem löngum hefur haft íslenska starfsmenn í hávegum og jafnvel sent fólk til Íslands til að ráða þarlenda til starfa á tímum bankahruns.

„Ég fór beint að vinna þegar ég datt út úr skólanum,“ segir Hafsteinn sem fæddur er árið 1978 og því staddur miðja vegu milli fertugs og fimmtugs, „fyrsta verkefnið var bara að fá vinnu,“ rifjar hann upp af lífi sínu árið 1995 en það var eldhúsið á Landakotsspítala sem fyrst fékk að njóta krafta hans.

„Ég var svo rekinn þaðan, reyndar ólögleg uppsögn svo ég fékk bætur. En ég fór svo á Borgarspítalann. Ég er alinn upp á sjúkrahúsum, pabbi og mamma voru alltaf að vinna á sjúkrahúsum svo ég var alltaf að þvælast þar,“ segir hann frá, faðir hans sá lengi vel um lagerinn í Fossvoginum og móðir hans ræsti skurðstofurnar. Þetta voru þau hjónin Eiður Hafsteinsson og Guðný Þorgeirsdóttir, nú bæði látin, en Hafsteinn er örverpið í systkinahópnum með þrjár eldri systur.

„Ég endaði sem sagt á sjúkrahúsum til tvítugs og fór svo að framleiða majones hvorki meira né minna hjá Vega, fyrirtæki sem nú er hætt held ég,“ rifjar Hafsteinn upp sem hóf því næst störf sem öryggisvörður hjá Securitas, var eftir það húsamálari í þrjú ár en síðar tók við ræktun siberian husky-hunda með barnsmóður hans.

Hófst með stjörnukíki 2012

„Það vorum við sem gerðum allt vitlaust í siberian husky-heiminum hérna á Íslandi. Það varð allt brjálað af því að við vorum með samninga sem enginn annar var með á Íslandi, þekktust bara erlendis, og maður fékk þvílíkt skítkast yfir sig. Nú eru allir með þetta,“ segir Hafsteinn og hlær dátt. Við víkjum talinu að ljósmyndun.

„Ég er algjörlega sjálflærður, notaði aldrei Google og enginn kenndi mér neitt. Þetta byrjaði allt á því að ég keypti mér stóran og mikinn stjörnukíki árið 2012,“ segir ljósmyndarinn frá. „Ég átti eldgamlan iPhone, fjögur eða eitthvað, svo ég ákvað að taka myndir af plánetunum á símann gegnum stjörnukíkinn, smíðaði búnað til þess. Og þetta gekk alveg ágætlega svo ég ákvað að kaupa mér stafræna myndavél, alveg eldgamla, Canon 450D, og smella henni á kíkinn og það gekk enn þá betur,“ heldur hann áfram.

Hafsteinn hefur haldið tryggð við Canon æ síðan, segir það tómt vesen að vera að skipta um merki, þá þurfi hann að skipta út öllum linsum og öðrum aukabúnaði um leið. Í kjölfar myndavélarkaupanna keypti hann svo linsur og boltinn fór að rúlla.

Sólmyrkvinn á Spáni 2026

„Næstu árin fóru bara í að læra,“ segir Hafsteinn frá en Ágústa er einnig liðtækur ljósmyndari og eru þau skötuhjúin mikið á ferðinni í norskri náttúru þar sem fyrirsæturnar eru oftar en ekki smávinir fagrir, foldar skart, eins og Jónas orti. Sem fyrr segir hefur Hafsteinn einnig selt myndir og nefnir sérstaklega þegar DV keypti af honum mynd af áhlaupi sérsveitarmanna lögreglunnar á hafnarsvæðinu í Keflavík.

„Ég var þá að vinna hjá Securitas úti á velli, ég man ekkert hvað var að gerast þarna en ég var þarna við hliðina á með myndavélina og DV keypti eina af þeim myndum,“ segir Hafsteinn sem er alltaf með myndavélina á sér, „hún er bara framlenging af handleggnum á mér og er alltaf meðferðis, líka í vinnunni“, segir Hafsteinn sem stefnir að fróðlegu verkefni.

„Ég ætla að efna til hópferðar ljósmyndara 12. ágúst 2026 til að taka myndir af sólmyrkva sem sést eingöngu sem fullkominn almyrkvi frá Spáni. Mér er reyndar alveg sama þótt enginn komi, þá fer ég bara einn!“

Áhugasamir geta skoðað úrval mynda Hafsteins á Facebook-síðunni Hkroyer photography.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson