Afmælisbarnið Hannes staddur á heimili sínu árið 2015.
Afmælisbarnið Hannes staddur á heimili sínu árið 2015.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hannes Ö.Þ. Blandon fæddist 11. janúar 1949 í Barmahlíð 10, efri hæð, þar sleit hann barnsskónum og átti góða ævi. Þegar hann var þriggja ára varð sá atburður að fyrirtæki föður hans fór á hliðina. Neyddust þau hjónin til að flytja suður í Kópavog…

Hannes Ö.Þ. Blandon fæddist 11. janúar 1949 í Barmahlíð 10, efri hæð, þar sleit hann barnsskónum og átti góða ævi.

Þegar hann var þriggja ára varð sá atburður að fyrirtæki föður hans fór á hliðina. Neyddust þau hjónin til að flytja suður í Kópavog með öll sín börn og settust að í gömlum sumarbústað, afar smáum, þar sem þægindi hvað þá efni voru engin. Að alast upp í fátækt hlýtur að marka hvern mann en engu að síður börðust þau hjónin um á hæl og hnakka við að koma afkvæmum sínum á legg þótt oftar en ekki væri tros og slátur á borðum. Smám saman fór landið að rísa og hafist var handa við að byggja hús, með harmkvælum þó. Það tók nokkuð á á skömmtunarárunum.

Hannes var sendur í Kársnesskóla og þaðan lá leiðin í Flensborg þar sem hann lauk landsprófi. Í framhaldi hóf hann nám við Menntaskólann í Reykjavík sem reyndist honum erfiður tími. Námsleiði gagntók pilt og einnig hafði nýtt áhugamál fest rætur og heltekið hjarta og sál. Hann fór að bítla af öllu afli! Fékk sæti í skólahljómsveitinni þar sem ekki voru ómerkari menn en Hannes Jón Hannesson, síðar í Brimkló, Magnús Magnússon viðskiptafræðingur og Stefán Halldórsson lífeyrissjóðafræðingur. Bítlið kom nánast í veg fyrir að árangur næðist í námi en þó lauk hann stúdentsprófi 1970.

Áður hafði hann skráð á blað ein 50 atriði sem til greina kæmu í starfi. Efst var músíkant, í öðru sæti leikari, nr. 49 var kennari og í 50. sæti prestur. Það er ekki að orðlengja að Hannes gerðist prestur að ævistarfi og kenndi einnig í allmörg ár.

Að loknu stúdentsprófi hvarf hann til Þýskalands og vóð þar í villu og svíma um hríð. Fé var af skornum skammti, námslán lítil og foreldrar höfðu úr litlu að moða. Hvarf hann því heim á ný og gekk til liðs við Lögregluna í Kópavogi þar sem hann hafði unnið áður í sumarafleysingum. 1973 hóf hann nám í guðfræði og þar sem engin voru námslánin neyddist hann til að vinna með og hélt áfram uppi löggæslu í Kópavogi.

1981 vígðist hann til Ólafsfjarðar, 1986 færði hann sig um set og flutti fram í Eyjafjörð og þjónaði þar uns hann settist í helgan stein 2019. Hann starfaði sem prófastur í Eyjafjarðarprófastsdæmi frá 1999-2011.

Hann hefur alltaf gefið sér tíma til að sinna áhugamálum sínum. Leikferillinn hófst reyndar í fyrstu uppfærslu á Kardimommubænum þar sem hann var hálfur asni. Hann tók þátt í nokkrum uppfærslum með Herranótt MR, svo á Ólafsfirði í allmörgum leikritum sem og þeim sem Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit setti upp. Nokkur leikrit liggja eftir hann, þar á meðal verk um Káinn.

Síðan hann settist í helga steininn, sem er reyndar í Sólheimum í Grímsnesi, hefur hann lagt alþýðumenningunni lið með áhugaleikfélögum, sem eru nokkur allt um kring. Hann þýddi bókina The Confederacy of Dunces eða Aulabandalagið eftir John Kennedy Toole. Eftir hann liggur ein rímuð sögubók, Helgarsögur, og tveir hljómdiskar, Ein sveitastemning og Helgarsögur.

Hann þakkar af öllu hjarta fyrir samfélagið með konu og börnum í öll ár.

Nú býr hann sig undir hið næsta líf ásamt með inkarnasjón og hina eilífu vegferð sálarinnar og er því að heiman í dag.

Fjölskylda

Eiginkona Hannesar er Svana, skírð Hulda Svanhildur Björnsdóttir, f. 14.11. 1958, stuðningsfulltrúi og húsfreyja. Þau búa á Sólheimum í Grímsnesi. Foreldrar Svönu voru hjónin Hulda Emilía Emilsdóttir, f. 1.3. 1915, d. 20.7. 2001, og Björn Bjarnason, f. 18.3. 1914, d. 6.10. 2008. Þau voru bændur í Birkihlíð í Skriðdal.

Fyrri eiginkona er Marianne Pennycook, f. 12.10. 1948, augnþjálfi og listakona, búsett á Akureyri. Börn þeirra eru: 1) Hanna Blandon, f. 17.2. 1977, jarðvegssýnatökuhreinsitæknir, umhverfisfræðingur og myndlistarkona, búsett á Akureyri, sonur hennar er Major Pennycook; 2) Sara Blandon, f. 22.11. 1980, söngkona og -kennari, búsett í Hveragerði, eiginmaður hennar er Hilmar Karl Arnarson, f. 26.4. 1975, tæknifræðingur. Börn þeirra eru Þór, Matthías Týr og Jóhannes Loki.

Stjúpbörn eru: 1) Eva Björk Eyþórsdóttir, f. 19.12. 1984, söngkona og tónmenntakennari, búsett í Hafnarfirði, eiginmaður: Ari Stígsson, f. 9.9. 1984, tölvugreinir og smiður. Synir þeirra eru Brimir Emil og Aron Úlfur; 2) Erna Rósa Eyþórsdóttir, f. 14.10. 1986, rithöfundur, myndlistarkona og stjórnmálafræðingur, búsett í Hafnarfirði. Unnusti hennar er Ólafur Gränz, f. 18.8. 1984, rafvirkjameistari. Börn þeirra eru Róbert Leó og Harpa Svanhildur; 3) Ívar Eyþórsson, f. 25.1. 1995, ljósmyndari, búsettur í Kópavogi. Unnusta hans er Brynja Maren Ingólfsdóttir, f. 23.3. 1999, nemi. Sonur þeirra er Óliver Logi.

Systkini Hannesar: Einar Jón Erlendsson Blandon, f. 28.1. 1943, d. 1.3. 2002, stórkaupmaður, hundaræktandi, hestamaður, síðast á Litlu-Hildisey, Austur-Landeyjahreppi, og Hansína Íris Blandon, f. 3.7. 1950, sjúkraliði og leikkona, búsett á Laugarási, Bláskógabyggð.

Móðir Hannesar var Inga Blandon, f. 14.7. 1919, d. 6.2. 2012, kennslukona, búsett í Kópavogi. Faðir Hannesar hét Erlendur Dalmann Einarsson Blandon, f. 29.7. 2005, d. 18.9. 1977, stórkaupmaður, búsettur í Kópavogi. Þau giftust þann 30. nóvember 1947. Fyrri eiginkona Erlendar var Paula Blandon, þau skildu. Þau eignuðust eina dóttur, Lillian Báru Blandon, f. 22.12. 1932, búsett í Danmörku.