Björg Jónsdóttir (Bogga) fæddist í Pálshúsi á Húsavík 11. apríl 1953. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Húsavík, 29. desember 2023.

Foreldrar Boggu voru Jón Árnason, f. 1915, d. 2008, og Helga Sigurgeirsdóttir, f. 1926, d. 2005. Systkini eru Sigurgeir, f. 1951, d. 2019, Guðmundur, f. 1954, og Ásdís, f. 1962.

Bogga stundaði nám við Barnaskólann á Húsavík sem og Gagnfræðaskólann á Húsavík. Að því loknu fór hún í Kennaraskóla Íslands og þaðan í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan 1974. Á Laugarvatni kynntist hún eigin­manni sínum, Pálma Pálmasyni, f. 1952. Þau giftu sig 12. júlí 1974.

Börn Boggu og Pálma eru: 1) Anný Björg, f. 1975. Maki Tryggvi Kristjánsson, f. 1981. Börn þeirra eru Hugrún Lív, Aron Ingi, Eva Rut, Halla Marín og Patrekur. 2) Jóna Björg, f. 1978. Maki Kristján Gunnar Þorvarðarson, f. 1973. Börn þeirra eru Arnar Pálmi, Aníta Rakel og Kristín Eva. 3) Helga Björg, f. 1981. Maki Brynjúlfur Sigurðsson, f. 1978. Börn þeirra eru Emelíana, Sigurður Helgi, Inga Björg og Jón Helgi. 4) Pálmi Rafn, f. 1984. Maki Telma Ýr Unnsteinsdóttir, f. 1986. Börn þeirra eru Alexander Rafn og Christian Rafn.

Barnabarnabörn Boggu og Pálma eru Atlas Máni og Pálmi Leó.

Bogga vann allan sinn starfsferil við kennslu, lengst af við íþróttakennslu en síðustu árin við bekkjarkennslu.

Útför hennar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 11. janúar 2024, klukkan 14.

Við biðum eftir að þú fengir friðinn, fengir að losna undan þessum ótrúlega ósanngjarna sjúkdómi. Þegar það kom að því þá var það hins vegar svo ótrúlega þungt högg, högg sem við vissum ekki að yrði svona erfitt að fá. En engar áhyggjur, mamma, eins og þú sagðir alltaf, þetta jafnar sig, við vitum það. En þetta er miklu verri sársauki en tábrotin okkar, öll götin á hausana, öll íþróttameiðslin okkar sem þú hlustaðir takmarkað á, þetta er versti sársaukinn sem við höfum fundið og það mun taka okkur tíma að jafna okkur. En við munum reyna að finna friðinn í að þér líði betur, svo miklu betur, og getir hlaupið um og dansað, synt og spilað golf, kennt fleirum en barnabörnunum „hælbíruna“ frægu sem engin annar þekkir. Hún mun heldur betur lifa, eins og minningin um þig, elsku besta mamma, sú besta sem við mögulega gátum fengið. Það var ekki nóg fyrir þig að vera best þar, keppnisskapið gerði þig að bestu ömmunni, langömmunni og meira að segja tengdamömmunni líka. Þú varst alltaf að keppa, og fyrir okkur vannstu alltaf. Takk fyrir alla þolinmæðina, hlýjuna og ástina sem þú áttir alltaf nóg til af fyrir okkur.

Ljúfa, góða, grjótharða mamma, við munum sakna þín meira en orð fá lýst.

„Verðum við ekki alltaf saman?“ voru ein af þínum síðustu orðum til okkar. Það verðum við alltaf.

Hvíldu í friði, elsku mamma,

Anný Björg, Jóna Björg, Helga Björg og Pálmi Rafn.

Elsku Bogga mín, mikið sem ég vona að þú sért komin á stað þar sem þú getur notið þín í hreyfingu og kennandi „hælbírur“ öllum til mikillar gleði. Eins sárt og það er að kveðja þig þá trúi ég því og treysti að þér líði betur núna.

Þegar ég kom inn í þessa risastóru fjölskyldu að mér fannst, verandi einkabarn, passaðir þú alltaf upp á að allir væru hluti af menginu. Mér er það mjög minnisstætt þar sem við ein áramótin vorum öll að borða saman, og þú hafðir nú tekið eftir því að mér þætti sósur með rauðvíni ekki góðar, svo auðvitað útbjóst þú vínlausa sósu fyrir mig, þú varst nú ekki með nema á annan tug manns í mat.

En það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá þessum fyrstu áramótum mínum með ykkur fjölskyldunni og höfum við nú skálað í einhverjum vínglösunum, þó aðallega bjór, síðan þá. Nýju svalirnar fóru mjög vel með okkur, og bjórglas við hönd. Það er ekki lítið sem þú ert búin að reyna síðustu tuttugu árin að miðla mér af hæfileikum þínum í eldhúsinu og þakka ég þér fyrir þá óbilandi trú sem þú hafðir alltaf á mér. En eins og þú varst hjartanlega sammála þá er svigrúm til bætingar í eldhúsinu hjá mér og tek ég það svo sannarlega með mér.

Mikið ofboðslega sem við eigum eftir að sakna þín og þinnar yndislegu nærveru, þú passaðir upp á okkur öll og ekki síst að okkur kæmi öllum vel saman þrátt fyrir að hópurinn væri stór.

Elska þig og mun ávallt sakna þín,

Telma Ýr.

Yndislega mágkona mín Björg Jónsdóttir eða Bogga eins og allir þekkja hana er látin langt um aldur fram.

Ég var átta ára þegar ég kynntist Boggu minni fyrst sem var alltaf svo brosmild, ljúf og góð.

Tíminn leið og Bogga og Pálmi eignuðust sitt fyrsta barn, Anný Björgu, sem ég passaði þegar hún var 2-3 ára gömul. Bogga og Pálmi áttu þá heima á Hofteigi. Það er mér alltaf svo minnisstætt þegar ég kom að passa fyrir þau, Bogga var búin að útbúa skonsutertu með hangikjötssalati fyrir mig af því ég var komin til að passa! Mér fannst það svo ótrúlega frábært, því svona veitingar voru nú yfirleitt eingöngu framreiddar í stærri veislum. Að passa litlu frænku, fá skonsutertu og hlusta á Bítlana og Mannakorn var uppskrift að flottu kvöldi.

Ekki bjuggu Bogga, Pálmi og Anný Björg lengi í borginni því Húsavík kallaði og þar hafa þau alla tíð búið og alið upp sín börn.

Sem unglingur kom ég iðulega í heimsókn bæði að vetri og sumri, aðstoðaði við pössun þar sem barnahópurinn þeirra fæddist með þriggja ára millibili; Jóna Björg, Helga Björg og síðast Pálmi Rafn. Það var góður tími að koma á Húsavík og njóta samvista við þau öll, fara á skíði og vera bara saman.

Bogga var fyrirmynd í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, var framúrskarandi móðir, eiginkona, húsmóðir, íþróttakona, kennari og vinkona. Allt sem Bogga gerði virkaði svo auðvelt og lítið mál. Ástæðan var án efa hennar einstaka jafnaðargeð og þolinmæði.

Undanfarin ár höfum við Óskar hitt Boggu og Pálma reglulega á Húsavík, Akureyri og Reykjavík og átt ljúfar stundir saman sem við erum afar þakklát fyrir.

Það er mikil sorg og söknuður að sjá á bak yndislegri mágkonu, deyja í blóma lífsins frá elsku Pálma, börnum og fjölskyldum þeirra.

Eins sárt og það er að kveðja elsku Boggu þá er hún laus úr fjötrum alsheimerzsjúkdómsins sem lék hana og alla fjölskylduna hennar illa.

Elsku kæri Pálmi, Anný Björg, Jóna Björg, Helga Björg, Pálmi Rafn, makar og barnabörn, missir ykkar er mikill og allra sem þekktu og elskuðu Boggu.

Við sendum ykkur ljós lífsins og biðjum góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Elska ykkur.

Auður.

Elsku Bogga mín. Þú kvaddir hægt og hljótt. Ég samgleðst þér að vera laus úr fjötrum skelfilegs sjúkdóms og ganga um heil í Sumarlandinu.

Þú varst einstaklega vel af Guði gerð, svo hláturmild og skapgóð. Það vöfðust ekki fyrir þér hlutirnir. Ég man þá tíð er þú bakkaðir yfir hjól krakkanna þinna eða gleymdir peningaveskinu þínu á toppnum á bílnum þegar þú varst að fara í kaupfélagið. Þú hlóst og glottir að þessu, þetta var ekki svo mikið mál.

Meðfram því að ala upp fjögur börn kenndir þú bæði sund og leikfimi í skólanum og tókst svo kellurnar á Húsavík í skokk og leikfimi, já þig munaði sko aldrei um neitt.

Vinátta þín var mér mikils virði og sýnduð þið Pálmi það glöggt þegar ég þurfti á því að halda. Þökk sé ykkur.

Pálmi er nú ekki Bjargarlaus með þrjár stelpurnar ykkar með Björg að seinna nafni og svo Pálma Rafn ásamt öllum tengdabörnum og ömmuljósunum ykkar.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

(Hákon Aðalsteinsson)

Pálma þínum, börnunum og öllum ættingjum votta ég samúð.

Elsku Bogga mín:

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

Erla mágkona.

• Fleiri minningargreinar um Björgu Jónsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.