Alls bárust 548 kvartanir inn á borð umboðsmanns Alþingis á nýliðnu ári og voru 489 þeirra afgreiddar hjá embættinu á árinu. Kvartanir til umboðsmanns hafa aðeins einu sinni verið fleiri en á síðasta ári

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alls bárust 548 kvartanir inn á borð umboðsmanns Alþingis á nýliðnu ári og voru 489 þeirra afgreiddar hjá embættinu á árinu. Kvartanir til umboðsmanns hafa aðeins einu sinni verið fleiri en á síðasta ári. Það var á metárinu 2021 þegar embættinu bárust 570 kvartanir. Kvartanir á árinu 2022 voru 528 talsins og fjölgaði þeim því um tæp fjögur prósent í fyrra frá árinu á undan.

Þetta kemur fram á nýbirtu yfirliti umboðsmanns Alþingis yfir starfsemina á seinasta ári. Þar má einnig sjá að svonefndum frumkvæðismálum embættisins fjölgaði einnig á milli ára. Tekin voru 20 mál til skoðunar að eigin frumkvæði umboðsmanns og meðferð 18 slíkra mála lauk hjá embættinu á árinu.

„Umboðsmaður skilaði 17 álitum í 18 málum þar sem í einu tilfelli voru tvö mál sameinuð í eitt. Þetta er umtalsverð fækkun frá undanförnum tveimur árum þegar þau voru um 60 hvort ár. Þótt engin einhlít skýring sé á þessari fækkun má benda á að samkvæmt bráðabirgðatölum var nálega 23% mála á árinu lokið að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalda en árið 2022 voru það 13%. Eitt dæmi um þetta var ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta að rukka handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða fyrir afnot af bílastæðahúsum borgarinnar,“ segir í samantekt umboðsmanns.

Samkvæmt lögum getur hver sá sem telur stjórnvald eða einkaaðila sem fengið hefur verið stjórnsýsluvald hafa beitt sig rangindum borið fram kvörtun við umboðsmann. Kvartanirnar dreifðust nokkuð jafnt yfir síðastliðið ár en flestar voru þær í mars og desember, eða 56 í hvorum mánuði.

Höf.: Ómar Friðriksson