Skólastjóri Fólk byrjar í einkaflugmannsnámi og finnur oftast þar hvort flugið eigi við sig. Yfirleitt er ekki aftur snúið, segir Hjörvar Hans sem hefur, eins og fleiri, verið viðloðandi flugið alveg frá barnsaldri.
Skólastjóri Fólk byrjar í einkaflugmannsnámi og finnur oftast þar hvort flugið eigi við sig. Yfirleitt er ekki aftur snúið, segir Hjörvar Hans sem hefur, eins og fleiri, verið viðloðandi flugið alveg frá barnsaldri. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls 16 nemendur voru á dögunum brautskráðir frá Flugskóla Reykjavíkur úr bóklegu námi fyrir réttindi til atvinnuflugmanns. Þessir nemendur fara næst í verklega þjálfun, en fyrrgreind réttindi fást þegar fólk hefur flogið um 200 klukkustundir og staðist öll próf

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Alls 16 nemendur voru á dögunum brautskráðir frá Flugskóla Reykjavíkur úr bóklegu námi fyrir réttindi til atvinnuflugmanns. Þessir nemendur fara næst í verklega þjálfun, en fyrrgreind réttindi fást þegar fólk hefur flogið um 200 klukkustundir og staðist öll próf. „Í dag er mikil eftirspurn eftir flugmönnum og möguleikarnir til starfa sem bjóðast eru margir,“ segir Hjörvar Hans Bragason, skólastjóri Flugskóla Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið.

Undanfarið hafa verið sviptingar í flugkennslu á Íslandi. Starfsemi Flugakademíu Íslands, sem starfrækt var undir hatti Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ, var hætt í september í fyrra og í kjölfarið tók Flugskóli Reykjavíkur við keflinu. Í flota skólans eru í dag alls sjö kennsluflugvélar. Þær eru gerðar út frá Reykjavíkurflugvelli þar sem höfuðstöðvar skólans eru. Flughermar skólans eru á Ásbrú og verða þar um sinn.

„Að flytja flughermana er talsverð fyrirhöfn og er skilyrðum háð, enda eru þetta mjög viðkvæm og vandmeðfarin tæki. Við ætlum okkur þó að vera komin með öll tæki hingað á Reykjavíkurflugvöll innan fárra mánaða,“ segir Hjörvar.

Hjá Flugskóla Reykjavíkur eru í dag um 100 nemendur. Tæpur helmingur er nú að afla sér réttinda fyrir atvinnuflugmanninn. Aðrir eru að byrja og að læra til einkaflugmannsprófs. Að baki því eru 50-60 flognar stundir og bóklegt námskeið. Alls eru kennarar við skólann um 50 talsins, en þetta er þó aukastarf margra, að sögn Hjörvars sem jafnhliða skólastjórn er flugmaður hjá Icelandair.

„Í raun eru flestir okkar nemendur að stefna á atvinnuflugmanninn. Fólk byrjar í einkaflugmannsnámi og finnur oftast þar hvort flugið eigi við sig. Yfirleitt er ekki aftur snúið. Núna höfum við útskrifað 15 nemendur úr verklega hlutanum, þessir nemendur eru nú tilbúnir til umsókna hjá flugrekendum. Með evrópsk flugréttindi upp á vasann hafa þau fullan aðgang að evrópska markaðinum,“ segir Hjörvar og enn fremur:

„Margir ungir flugmenn freista gæfunnar í útlöndum en staðan hér heima er einnig góð. Icelandair, Play, Norlandair, Landhelgisgæslan og Air Atlanta hafa verið að ráða inn nýja flugmenn að undanförnu. Icelandair er til dæmis í mikilli sókn og þarf að bæta við sig fjölda flugmanna vegna stækkunaráforma sem og innleiðingar Airbus-flugvélanna.“

Flugnám er í eðli sínu dýrt

Nýmæli í starfsemi Flugskóla Reykjavíkur nú er svokallað lotunám en með því er nemendum mögulegt að hefja bóklegt nám hér heima en færa sig til annarra ríkja ef áhugi vaknar. Að auki hefur Flugskóli Reykjavíkur verið brautryðjandi hér á landi í fjarnámi. En allt kostar þetta sitt; að afla sér réttinda atvinnuflugmanns er pakki upp á 15-17 millj. kr.

„Eins og staðan er í dag er einungis brot af þeirri upphæð lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Úr þessu verður að bæta. Flugnám er í eðli sínu mjög dýrt og því þarf að skapa réttu skilyrðin,“ segir Hjörvar Hans Bragason að síðustu.