Reynsla Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson eru reyndustu leikmenn íslenska liðsins sem mætir Serbíu í fyrsta leik á morgun.
Reynsla Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson eru reyndustu leikmenn íslenska liðsins sem mætir Serbíu í fyrsta leik á morgun. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er á leið á sitt 13. Evrópumót en liðið tók fyrst þátt í lokakeppni EM árið 2000 þegar mótið fór fram í Króatíu. Ísland leikur í C-riðli keppninnar ásamt Serbíu, Svartfjallalandi og Ungverjalandi og verður…

Í München

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er á leið á sitt 13. Evrópumót en liðið tók fyrst þátt í lokakeppni EM árið 2000 þegar mótið fór fram í Króatíu.

Ísland leikur í C-riðli keppninnar ásamt Serbíu, Svartfjallalandi og Ungverjalandi og verður riðillinn leikinn í München en Ísland mætir Serbíu á morgun, Svartfjallalandi á sunnudaginn og loks Ungverjalandi þriðjudaginn 16. janúar.

Margir með stórliðum

Margir af lykilmönnum liðsins leika í dag fyrir sterkustu félagslið heims en leikstjórnendurnir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason sem og stórskyttan Ómar Ingi Magnússon eru allir lykilmenn hjá Evrópumeisturum Magdeburg.

Vinstri hornamaðurinn Bjarki Már Elísson er samningsbundinn ungversku meisturunum í Veszprém en liðið er fastagestur í Meistaradeildinni og þá er hægri hornamaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson fyrirliði Noregsmeistara Kolstad sem leikur líka í Meistaradeildinni. Íslenska liðið á fleiri fulltrúa í Meistaradeildinni því leikstjórnandinn og stórskyttan Haukur Þrastarson leikur með Póllandsmeisturum Kielce.

Þá á íslenska liðið fjóra fulltrúa á Evrópudeildinni, næststerkustu félagsliðakeppni heims, en markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með Nantes, línumaðurinn Ýmir Örn Gíslason með Rhein-Neckar Löwen, vinstri hornamaðurinn Stiven Tobar Valencia með Benfica og hægri hornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson með Kadetten.

Væntingarnar minni í ár

Það voru miklar væntingar gerðar til liðsins fyrir síðasta heimsmeistaramót sem fram fór í Svíþjóð og Póllandi í janúar á síðasta ári en þar reyndist tap gegn Ungverjalandi í lokaleik riðlakeppninnar dýrt.

Íslenska liðið fór inn í milliriðla með tvö stig í stað fjögurra og endaði svo í þriðja sæti milliriðils 2 með sex stig, líkt og Ungverjaland, og missti þar af leiðandi af sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Íslenska liðið þurfti því að gera sér tólfta sætið á mótinu að góðu sem voru ákveðin vonbrigði enda ætlaði liðið sér stóra hluti í Svíþjóð og Póllandi.

Íslenska liðinu hefur hins vegar gengið mun betur á Evrópumótum en heimsmeistaramótum í gegnum tíðina, þrátt fyrir að Evrópumótið sé af mörgum talið sterkari keppni, en liðið hafnaði í sjötta sæti á síðasta Evrópumóti í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar árið 2022 eftir tap gegn Noregi í framlengdum leik um fimmta sætið í Búdapest.

Ísland náði sínum besta árangri á Evrópumóti í Austurríki árið 2010 þegar liðið hafnaði í þriðja sæti eftir sigur gegn Póllandi í bronsleiknum í Vínarborg.

Landsliðsfyrirliðinn og stórskyttan Aron Pálmarsson og markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson eru þeir einu í núverandi leikmannahópi Íslands, sem tóku þátt í Evrópumótinu í Austurríki og þá er Snorri Steinn Guðjónsson, sem var leikstjórnandi liðsins í Austurríki, tekinn við þjálfun landsliðsins með Arnór Atlason, sem var einnig í hópnum í Austurríki, sér til aðstoðar.

Snorri Steinn tók við þjálfun liðsins síðasta sumar eftir að hafa stýrt Val í úrvalsdeildinni frá árinu 2017 en undir hans stjórn vann Valur níu bikara. Þá hefur Arnór stimplað sig rækilega inn í Danmörku, fyrst sem aðstoðarþjálfari Aalborgar en hann stýrir Tvis Holstebro í dag, ásamt því að þjálfa yngri landslið Danmerkur.

Bæði Snorri og Arnór léku yfir 200 landsleiki á sínum tíma og vita því vel hvað þarf til þess að ná árangri á stórmóti.

Kjarninn sá sami og síðustu ár

Kjarninn í íslenska hópnum hefur mikið til verið sá sami frá árinu 2018 þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson tók við þjálfun liðsins í þriðja sinn en hann lét nokkuð óvænt af störfum í febrúar á síðasta ári.

Af þeim 18 leikmönnum sem voru í lokahópi Íslands fyrir HM 2023 eru 15 í lokahópnum fyrir Evrópumótið í ár. Leikmennirnir sem um ræðir eru markverðirnir Björgvin Páll Gústavsson og Viktor Gísli Hallgrímsson, hornamennirnir Bjarki Már Elísson, Óðinn Þór Ríkharðsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson, skytturnar Aron Pálmarsson, Kristján Örn Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Viggó Kristjánsson og leikstjórnendurnir og línumennirnir Arnar Freyr Arnarsson, Elliði Snær Viðarsson, Elvar Örn Jónsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason og Ýmir Örn Gíslason.

Þeir Björgvin Páll, Viktor Gísli, Arnar Freyr, Aron, Bjarki Már, Elliði Snær, Elvar Örn, Gísli Þorgeir, Janus Daði, Kristján Örn, Ómar Ingi, Sigvaldi Björn, Viggó og Ýmir Örn voru einnig í leikmannahópi Íslands á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu árið 2022 og þeir Arnar Freyr, Bjarki Már, Björgvin Páll, Elvar Örn, Gísli Þorgeir, Ómar Ingi, Sigvaldi Björn og Ýmir Örn voru líka í lokahópi Íslands á HM í Egyptalandi árið 2021.

Ólympíusæti í húfi

Yfirlýst markmið íslenska liðsins fyrir Evrópumótið er að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fara í París næsta sumar.

Undankeppni Ólympíuleikanna fer fram dagana 14.-17. mars þar sem leikið verður í þremur fjögurra liða riðlum og verða þrjú evrópsk landslið í tveimur riðlanna. Ekki hefur verið gefið út hvar undankeppnin mun fara fram en á Ólympíuleikunum fer handboltakeppnin fram frá 25. júlí til 11. ágúst og verður leikið í bæði París og Lille.

Eins og sakir standa eru Noregur, Spánn, Svíþjóð, Þýskaland og Ungverjaland örugg með sæti í undankeppninni eftir góða frammistöðu á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi. Þá fær Króatía sæti í undankeppni Ólympíuleikanna ef Egyptaland verður Afríkumeistari en Afríkumótið fer fram í Kaíró í Egyptalandi 17.-27. janúar.

Slóvenar þurfa að treysta á að Egyptaland verði Afríkumeistari og að Danmörk, Frakkland, Spánn, Noregur, Svíþjóð, Þýskaland eða Ungverjaland verði Evrópumeistari.

Ísland er því að berjast við Austurríki, Bosníu, Færeyjar, Georgíu, Grikkland, Holland, Norður-Makedóníu, Portúgal, Rúmeníu, Serbíu, Svartfjallaland, Sviss og Tékkland um þau tvö sæti sem verða í boði í undankeppni Ólympíuleikanna.

Danmörk og Frakkland hafa bæði tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum, Danir sem heimsmeistarar og Frakkland sem gestaþjóð Ólympíuleikanna. Þá hafa Japan og Argentína einnig tryggt sér keppnisrétt á leikunum sem Asíumeistarar og Suður-Ameríkumeistarar. Liðið sem fagnar sigri á Evrópumótinu tryggir sér einnig keppnisrétt á Ólympíuleikunum og ef Danir eða Frakkar verða Evrópumeistarar fer liðið sem endar í sætinu á eftir þeim á Ólympíuleikana.

Þurfa allir að haldast heilir

Líkt og áður sagði voru væntingarnar miklar fyrir síðasta stórmót en í ár eru væntingarnar ekki nærri því jafn áþreifanlegar og það gæti orðið liðinu til happs.

Leikmenn og þjálfarateymið mæta að einhverju leyti pressulaus inn í mótið enda þjálfarateymið algjörlega óskrifað blað á stærsta sviðinu ef svo má segja.

Það skiptir öllu máli að byrja vel á stórmóti og landsliðsþjálfarinn tekur það vafalaust með sér inn í mótið að liðið er ósigrað undir hans stjórn í fyrstu fjórum leikjunum. Vissulega komu sigrarnir í vináttulandsleikjum gegn Færeyjum og Austurríki en sigur er alltaf sigur.

Hraðari sóknarleikur

Liðið spilar talsvert hraðari sóknarleik en það gerði undir stjórn Guðmundar og þá er varnarleikurinn ekki heldur sá sami.

Þjálfarinn hefur líka verið duglegri að dreifa álaginu en forveri hans og það gæti reynst lykillinn að góðu gengi Íslands í Þýskalandi.

Breiddin í íslenska hópnum hefur sjaldan verið meiri en nú og allir leikmenn liðsins eru í stórum hlutverkum hjá sínum félagsliðum.

Í nútímahandbolta þarftu að dreifa álaginu svo leikmenn springi ekki á limminu og ef allir leikmenn liðsins haldast heilir og eru ferskir þegar komið er inn í milliriðla getur allt gerst. Til þess að það takist þarf liðið hins vegar að sýna sínar bestu hliðar í riðlakeppninni gegn Serbíu, Svartfjallalandi og Ungverjalandi í München.