Magnús Gunnlaugur Friðgeirsson fæddist 20. ágúst 1950 í Reykjavík. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landspítala 3. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Sigríður Magnúsdóttir, f. 22.5. 1924 á Bæ í Króksfirði, d. 29.4. 2005, og Friðgeir Sveinsson, f. 11.6. 1919 á Hóli í Hvammssveit, d. 22.5. 1952. Stjúpfaðir Magnúsar var Sigurður Sveinsson, f. 11.2. 1922 á Þykkvabæjarklaustri, d. 4.9. 1994. Systur Magnúsar eru Jóhanna, f. 17.10. 1944, Sigríður Hrefna, f. 28.9. 1946, Brynhildur Salóme, f. 17.10. 1948, og Sigurveig, f. 18.6. 1959.

Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Sigurveig Lúðvíksdóttir, f. 16.6. 1946.

Börn Magnúsar og fyrri eiginkonu hans, Sigrúnar Davíðsdóttur, f. 9.7. 1950, eru: 1) Aldís, f. 23.5. 1977, gift Valdimari Snorrasyni, börn þeirra eru Aníta Björk, Fannar Þór og Birkir Logi; 2) Davíð Fannar, f. 27.5. 1980, d. 21.2. 2003; 3) Maríanna, f. 23.5. 1985, sambýlismaður hennar Alexander Angelo Tonini, börn þeirra eru Rakel Björk, Hekla Sóley, Arnar Mikael, Haukur Atlas og Þórdís Harpa.

Börn Sigurveigar eru: 1) Gróa Ásgeirsdóttir, f. 17.4. 1965, gift Ísleifi Leifssyni, sonur hennar er Ólafur Ásgeir; 2) Ásgeir Örn Ásgeirsson, f. 24.10. 1970, giftur Drífu Viðarsdóttur, börn þeirra eru Ásgeir Aron, Snædís Birta, Katrín Eir og Sigurveig Jana; 3) Lúðvík Ásgeirsson, f. 4.1. 1974, giftur Bjarneyju Rut Jensdóttur, börn þeirra eru Bjarni Geir, Ólöf Björk, Egill Máni, Sara Aurora og Lovísa Rut; 4) Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir, f. 11.11. 1978, gift Ými Erni Finnbogasyni, börn þeirra eru Úlfur Orri og Arnbjörg Ylfa.

Langafabörn Magnúsar eru þrjú.

Magnús ólst upp í Kleppsholtinu og gekk í Langholtsskóla og Vogaskóla. Hann lauk samvinnuskólaprófi frá Bifröst 1971, prófi í Business Adm. frá London School of Foreign Trade 1973 og Adv. Mgmt. Prog. í Harvard 1994.

Á starfsferli sínum kom Magnús víða við í sölu landbúnaðar- og sjávarafurða og nýsköpunar í iðnaði. Magnús starfaði sem skrifstofustjóri hjá Rafiðjunni hf. 1970-72, sölustjóri sjávarafurðadeildar SÍS 1973-1983 og fór oft á því tímabili til Nígeríu til að markaðssetja skreið, forstjóri Iceland Seafood Corporation 1988-1994 og bjó hann þá ásamt fjölskyldu í BNA, var eigandi Hljómco hf. 1995-98, meðeigandi og framkvæmdastjóri Hugbúnaðar hf. 1999-2002, starfandi stjórnarformaður hjá ND, 2003-5, samhliða og í framhaldi rak hann verslunina Kúnígúnd með eiginkonu sinni til ársins 2015. Magnús sinnti margvíslegum öðrum störfum. Var hann meðal annars í stjórn SÍS fyrir hönd starfsmanna á árunum 1976-1982, í ýmsum nefndum og ráðum í tengslum við landbúnað og sjávarútveg á árunum 1983-1994, stjórnarformaður Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins frá 1988 til fjölda ára, í stjórn Icelandic-American Chamber of Commerce frá 1988 til margra ára, formaður þess 1991-4, stjórnarformaður Iðntæknistofnunar 1998-2007 og stjórnarformaður Miðborgarinnar okkar frá stofnun til 2015.

Útför Magnúsar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 11. janúar 2024, klukkan 15.

Streymi:

https://mbl.is/go/k7ut4

Elsku Maggi vinur minn og stjúpfaðir er fallinn frá.

Þessi dásemdar mannvera sem geislaði af kærleika, ást og góðmennsku kemur ekki til okkar aftur.

Við Maggi áttum ávallt yndislegt samband, náðum vel saman allt frá því að hann kynntist mömmu fyrir tæpum 25 árum. Hann átti líka einstakt samband við börnin mín og eiginmann. Maggi tók okkur öllum sem sínum eigin börnum, og þannig samband áttum við alla tíð.

Ég minnist Magga sem félaga, vinar, föður, leiðbeinanda og ráðgjafa. Ég gat alltaf leitað til hans og mömmu. Ef mig vantaði ráðleggingar um stærstu ákvarðanir lífs míns, þá var gott að fá dómgreind lánaða frá Magga því hann sagði hlutina bara eins og þeir voru, hreinn og beinn í öllu sem hann sagði og gerði.

Ég minnist Magga sem vinnufélaga í Kúnígúnd, verslun sem mamma átti og rak þegar þau kynntust. Maggi aðstoðaði mömmu þar til að byrja með og síðar ráku verslunina saman í nokkur ár. Þar var oft mikil stemning, t.d. í jólaösinni þar sem allir hjálpuðust að. Maggi gekk í flest öll störf, en það sem hann gerði alls ekki var að pakka inn, hann sagði að það myndi aldrei ganga, og þar við sat.

Ég minnist dásamlegra tíma með Magga og mömmu á yndislega heimilinu þeirra Sólvöllum á Spáni, ferðalaga innanlands og margra góðra stunda á golfvellinum þar sem keppnisskap Magga kom vel í ljós. Ég minnist allra matarboðanna og samverustundanna þar sem spjallað var um heima og geima, og alltaf hafði Maggi sögur að segja úr sínu lífi.

Ég minnist sérstaklega allra áramótanna sem við eyddum saman. Maggi fór alltaf með Óla son minn í flugeldainnkaup, raðaði svo flugeldum nánast í stafrófsröð í bílskúrnum og svo var skotið upp eftir kúnstarinnar reglum. Ég veit að Óli minn gleymir þessum stundum aldrei og öll erum við þakklát fyrir þessi kvöld.

Ég minnist húmoristans Magga. Hann sagði fyndnar sögur og brandara sem gaman var að hlusta á og hlæja að með honum. Ég elskaði líka að hlusta á hlátrasköllin þegar þeir Ísleifur minn spjölluðu í símann oft á kvöldin sl. mánuði, þá sögðu þeir sögur sín á milli þegar enginn annar heyrði og hlógu greinilega mikið.

Ég minnist Magga sem yndislegs eiginmanns mömmu, þau áttu svo ástríkt og fallegt samband. Þau voru samstiga og það ríkti mikill kærleikur á milli þeirra. Maggi sagði fyrir nokkrum árum við Ísleif, þá tilvonandi eiginmann minn, að „já elskan“ væru orð sem Ísleifur þyrfti að læra strax. Það væru töfraorð að farsælu hjónabandi, sagði hann og hló mikið.

Ég minnist Magga með miklu þakklæti, þakklæti fyrir að hafa kynnst þessari einstöku manneskju sem Maggi var, þakklát fyrir allar stundirnar okkar saman, öll samtölin, sögurnar, hláturinn og grátinn – og bara allt sem Maggi gaf af sér til mín og minna. Heimurinn er fátækari án þín elsku Maggi, og þín verður sárt saknað. Við höldum utan um mömmu, styðjum hana og styrkjum. Þú nýtur þín hinum megin með elsku Davíð og öðru góðu fólki, og svo sameinumst við öll á ný einn daginn.

Hvíldu í friði elsku Maggi, takk fyrir allt og allt – elska þig undurheitt.

Þín

Gróa.

Það er svo erfitt og sárt að sitja hér og minnast elsku Magga, stjúpföður míns og afa barnanna minna. Það er svo sárt að hann hafi ekki fengið meiri tíma hér með okkur, að mamma fái ekki meiri tíma með elsku manninum sínum, að við öll fáum ekki meiri tíma með dásamlega Magga og að börnin mín fái ekki meiri tíma með dýrmæta afa sínum sem þau héldu svo upp á.

Ég var rétt innan við tvítugt þegar Maggi kom inn í líf mitt og allt frá upphafi var hann svo hlýr og kærleiksríkur að auðvelt var að taka honum opnum örmum. Hann mætti okkur af svo mikilli virðingu, var svo fallega leiðbeinandi þegar til hans var leitað og traustið óx hratt. Hann varð fljótt foreldri mitt.

Ein fyrsta minning mín um Magga er þegar hann, ásamt mömmu, stóð þétt við bakið á mér í framkvæmdum í íbúð minni. Við þurftum að gera íbúðina nánast fokhelda og það var stund þar sem hann sá að það þurfti að taka eitt auka skref í niðurbroti en ég, rétt rúmlega tvítug, var algjörlega buguð og vildi helst stinga höfðinu í sandinn. Hann gekk rólega fram með verkefnið fullur af hvatningu, styrk og stuðningi. Það var ómetanlegt.

Eitt helsta einkenni elsku Magga var hjartahlýjan. Það var alltaf hlýja í augum hans og faðmlagi og ósjaldan fylgdu falleg orð með. Hann talaði fallega til okkar allra og ekki síst til mömmu. Sumt af fallegasta hrósinu sem ég hef fengið kom frá Magga og að sjá hlýjuna og ástina smitast áfram til barnanna minna er mér svo dýrmætt.

Það eru óteljandi fallegar stundir og minningar sem ég á með elsku Magga, allt frá byrjun til síðasta dags. Dýrmætar stundir í Hesthömrunum, í hjólhýsinu, á fjölskyldustundum, jólum og áramótum, á Spáni þar sem djúpar gæðastundir náðust og svo í veikindunum síðustu vikur þegar ég fékk að vera til staðar fyrir hann og mömmu.

Síðustu jól voru einstök og gleymast aldrei og faðmlögin, sem alltaf voru hlý og þétt, voru enn hlýrri og enn þéttari síðustu dagana og vikur. Hann rétti extra vel úr höndunum til að ná að umvefja vel og lengi og hvíslaði falleg orð í eyra. Svo óendanlega dýrmætt.

Maggi var líka stórkostlegur afi og það var dýrmæt og falleg taug á milli hans og Úlfs og Arnbjargar. Hann tók alltaf á móti þeim og kvaddi með knúsi og kærleika, áhuga, natni, hlýju og ást þar sem hann beygði sig iðulega niður í þeirra hæð til að eiga góða stund með þeim.

Það eru nokkur orð og orðatiltæki á mínu heimili sem tengjast afa Magga og munu fylgja okkur út lífið. „Strætó!“ og að „taka einn afa“ mun lifa en einnig „afi, þú ert rugludallur“ sem flaug iðulega með hlátri og gleði í fíflagangi.

Síðustu stundirnar á líknardeildinni hugsaði ég ítrekað: „Þín verður svo sárt saknað!“ Ég sagði honum það sem og hvað hann var mikið elskaður því það var hann svo sannarlega.

Elsku Maggi, ég er svo heppin að hafa fengið að eiga í þér vin, stuðning, styrk og stjúpföður. Mér þykir svo óendanlega vænt um samband okkar og ekki síður samband þitt við Úlf og Öddu. Þúsund hjartans þakkir fyrir ástina og hlýjuna, alltaf! Við pössum upp á mömmu og göngum með henni inn í vorið.

Þín

Þóra.

Elsku Maggi.

Nú ertu fallinn frá alltof snemma. Síðustu daga hafa skrefin verið þung því í okkar huga var óralangt í kveðjustund og vorum við viss um að þú myndir hrista þetta mein af þér.

En enginn veit hvenær kallið kemur. Eftir sitjum við æðrulaus gagnvart almættinu með sorg í hjarta.

Ég kynntist Magga fyrir 25 árum þegar hann kom inn í líf hennar mömmu. Hann kom mér og systkinum mínum fyrir sjónir sem flottur og heilsteyptur maður, ætíð vel til fara og vissi vel hvað hann vildi. Þess vegna valdi hann mömmu. Þið voruð alltaf mjög samstiga í gegnum ykkar ferðalag, hvort sem var í viðskiptum eða frítíma. Alltaf funduð þið ykkur tíma til að njóta lífsins saman, í hjólhýsi austur í Þingvallasveit í dulitlu kjarri eða í fallega húsinu ykkar á Spáni. Maggi tilheyrði þannig kynslóð sem gat allt og gerði allt. Hann lét aldrei neinn bilbug á sér finna, allt fram til síðasta dags. Í okkar huga var hann duglegur, vinnusamur, ósérhlífinn og þrautseigur. Hann skaraði fram úr í flestu eins og kemur fram í æviágripi hans. Það var alltaf gaman að spjalla við hann um heima og geima. Hann hafði ætíð frá einhverju merkilegu að segja sem hann hafði lent í eða séð og minnumst við margra skemmtilegra frásagna. Ósjaldan gátum við setið saman og farið yfir öll lífsins mál hvort sem við vorum sammála eða ekki og minnist ég líflegra samtala þar sem við ræddum pólitík eða borgarmálin. Eins og oft hafðir þú ákveðnar skoðanir á slíkum málum og heyrði maður ósjaldan hve miklir vitleysingar það væru, sem eru að reyna að stýra þessu samfélagi. Þó hiti gæti færst í samræður enduðu þær allar á innilegum hlátrasköllum. Við þessa upprifjun hlýnar manni i hjartastað og fyllist þakklæti. Við sem eftir sitjum eigum örugglega eftir að rifja upp eitthvað af þessum samtölum og brosa í gegnum tárin. Maggi hafði einstaklega hlýja og góða nærveru, var mikill fjölskyldumaður og fannst fátt skemmtilegra en að fá okkur systkinin í heimsókn með allan hópinn hvar sem þau voru stödd. Minnumst við margra heimsókna í hjólhýsið þeirra eða í húsið á Spáni í gegnum tíðina.

Við erum ótrúlega þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Þau skipti sem þú komst og hjálpaðir okkur eða öðrum við hvaðeina sem þurfti aðstoð við. Alltaf varstu boðinn og búinn til þess að hjálpa.

Elsku Maggi. Það er komið að kveðjustund. Ég vildi að við hefðum fengið lengri tíma saman hérna megin, en „svona er lífið“ eins og amma mín sagði um árið.

Ég veit að það hafa verið fagnaðarfundir í sumarlandinu þegar þú mættir og ertu eflaust kominn með veiðistöng eða gítar í hönd.

Við sjáumst þegar okkar tími kemur, en þangað til munum við passa vel upp á mömmu og ylja okkur við minningarnar.

Takk fyrir allt.

Minning þín mun lifa áfram hjá okkur.

Hvíl í friði.

Ásgeir, Drífa og börn.

Ég man þegar ég hitti Magga fyrst, en hann var kvæntur tengdamóður minni, henni Sillu. Þá fékk ég þétt og gott faðmlag og svona ósagt; velkominn vinur. Það tókst strax með okkur einlæg og góð vinátta sem er kannski ekki sjálfsögð þegar það er kynslóðabil milli fólks. Maggi var reyndur í viðskiptum, hvort sem það var í sölu á fiski til BNA eða skreið til Nígeríu, á tímabili átti hann Hljómco og kom svo að rekstri Kúnígúnd með Sillu sinni. Þá starfaði hann með Miðbæjarsamtökunum og fannst honum miður um þróun miðbæjarins, sérstaklega hvað varðar verslun. Eitt sinn er við vorum að ræða saman sagði hann mér að hann hefði fulla trú á samvinnufélagsforminu og sagði: „Ég veit að þetta hljómar ekki vel í dag, en þetta er gott form.“

Maggi var vel lesinn, hógvær og með góðan húmor, aldrei heyrði ég hann hallmæla eða tala illa um nokkurn mann. Hann hafði gaman af tónlist, spilaði á gítar, og ekki var komið að tómum kofunum hvað varðar flytjendur.

Maggi greindist með krabbamein í mars 2021 og tókst á við það af miklu æðruleysi. Eitt sinn hringdi hann í mig og þá nokkuð kvalinn. Þegar ég benti honum á að leita á spítalann var eins og hann vildi ekki taka pláss frá öðrum, honum fannst svo mikið að gera þar. Eins þegar við vorum að plana jólin í byrjun desember; „við höldum okkar plani – höfum allt eins og venjulega“ sagði hann. Blessunarlega náðum við að eiga jólin með elsku Magga en hinn 1. janúar var hann lagður inn á líknardeild og látinn stuttu síðar eða 3. janúar.

Takk fyrir allt elsku Maggi, ég á eftir að sakna símtalanna okkar og samverustundanna.

Hvíldu í friði kæri vinur.

Þinn

Ísleifur.

Í dag kveð ég hinstu kveðju kæran mág minn og vin, Magnús Gunnlaug Friðgeirsson. Með honum er genginn traustur og góður samferðamaður.

Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir meira en hálfri öld, þegar ég kynntist systur hans, eiginkonu minni, Jóhönnu Friðgeirsdóttur. Á þeim árum var Maggi við nám í Samvinnuskólanum á Bifröst og hélt að því loknu til Englands til frekara náms. Eftir það starfaði hann fyrir sjávarafurða- og landbúnaðardeildir Sambandsins, bæði hér heima og erlendis. Síðustu árin starfaði hann með eiginkonu sinni, henni Sillu, við glæsilegan verslunarrekstur.

Maggi var farsæll og góður stjórnandi og vel liðinn í öllum þeim störfum sem hann tók að sér. Hann var að eðlisfari skemmtilegur, vinsæll og vandaður í framkomu og á gleði- og skemmtisamkomum var hann ævinlega hrókur alls fagnaðar, alltaf mættur með gítarinn og spilaði og söng. Það eru slíkar stundir með honum sem skilja eftir hjá okkur ljúfar minningar. Undanfarið barðist hann við krabbamein og átti oft erfiðar stundir en naut þá þeirrar gæfu að eiga einstaklega góða aðstandendur sem hlúðu að honum af einstakri alúð.

Síðasta samvera okkar hjóna með honum var á gamlársdag. Það var ljúft að sjá hans fallega bros með sínum nánustu á fallegu heimili þeirra hjóna. Það má sannarlega segja að það hafi verið forréttindi og mikið lán að hafa kynnst og tekið þátt í lífinu með Magnúsi Friðgeirssyni.

Blessuð sé minning hans.

Gunnar Þórólfsson.

• Fleiri minningargreinar um Magnús Gunnlaug Friðgeirsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.