Glæpagengi eru með heilu þjóðfélögin í herkví í Rómönsku Ameríku

Ekvador er land í upplausn. Glæpagengi fara þar fram með yfirgangi og ofbeldi og halda landinu í greipum ógnar og skelfingar.

Á mánudag var lýst yfir neyðarástandi í landinu og útgöngubanni frá ellefu á kvöldin til fimm á morgnana eftir að einn voldugasti eiturlyfjaforingi landsins slapp úr fangelsi. Glæpamennirnir svöruðu með því að lýsa í raun yfir stríði á hendur stjórnvöldum. Þeir réðust inn í útsendingu hjá ríkissjónvarpinu í borginni Guayaquil með byssur á lofti, skutu í allar áttir og tóku viðstadda í gíslingu. Þá hótuðu þeir að myrða fólk af handahófi. Á þriðjudag höfðu átta verið myrtir í Guayaquil og tveir teknir af lífi „með grimmilegum hætti“ í Nobol, nærliggjandi bæ.

Daniel Noboa forseti landsins fyrirskipaði hernum að taka gengin úr umferð og talaði um að brotist hefðu út vopnuð átök innanlands.

Glæpagengin hafa tekið lögregluþjóna í gíslingu og á félagsmiðlum hafa þeir sett í umferð myndband þar sem einn gíslinn er látinn lesa yfirlýsingu, sem ætluð er forseta landsins: „Þú lýstir yfir stríði, þú munt fá stríð.“ Í yfirlýsingunni sagði að lögregla, almennir borgarar og hermenn væru „herfang“ og allir sem væru á ferli eftir ellefu á kvöldin yrðu „teknir af lífi“.

Ekvador var fyrir nokkrum árum friðsælt land. Grannríkin Perú og Kólumbía eru hins vegar helstu framleiðendur kókaíns í Rómönsku Ameríku. Á skömmum tíma hefur sigið á ógæfuhliðina og Ekvador er nú orðið ein lykilmiðstöð eiturlyfjaflutnings frá álfunni til Bandaríkjanna og Evrópu. Í landinu berjast heimaræktaðir glæpahringir við erlenda um völdin.

José Adolfo Macías heitir eiturlyfjaforinginn, sem slapp úr fangelsi, Hann gengur undir viðurnefninu Fito og leiðir stærstu glæpasamtök landsins, Los Choneros. Þau komu fram fyrir aldamót og eru kennd við strandbæinn Chone.

Macías er talinn hafa sloppið skömmu áður en lögregla kom á vettvang til að skoða fangelsið, sem hann sat í. Hann var að afplána 34 ára dóm fyrir skipulagða glælpastarfsemi, eiturlyfjamisferli og morð.

Annar glæpaforingi, Fabricio Colón Pico, leiðtogi glæpagengisins Los Lobos, slapp einnig úr haldi eftir að hafa verið handtekinn á föstudag fyrir aðild að samsæri um að myrða dómsmálaráðherra Ekvadors.

Róstur hafa brotist út í nokkrum fangelsum landsins og í vikunni voru 125 fangaverðir og átta stjórnendur í haldi í fangelsum í fimm borgum. Glæpamenn hafa farið sínu fram í fangelsum landsins og er talið að þeir séu í raun með fjórðung þeirra á sínu valdi. Hjá föngum hafa fundist vopnabúr og alls kyns rafmagnsbúnaður,

Þótt Macías væri í fangelsi gat hann haldið áfram glæpastarfsemi sinni að vild. Hann var í stöðugu sambandi við umheiminn og hefur því verið lýst að í fangaklefa hans hafi verið fleiri rafmagnsdósir en á góðu hótelherbergi. Talið er að hann hafi ákveðið að flýja fangelsið þar sem átt hafi að flytja hann annað þar sem öryggisgæsla væri meiri og hann gæti ekki haldið áfram að reka skipulagða glæpastarfsemi. Óttast er að þeim upplýsingum hafi verið lekið til hans.

Noboa komst til valda í nóvember. Hans bíður erfitt verkefni; að uppræta glæpagengin, sem tekist hefur að hreiðra rækilega um sig. Morðtíðni í Ekvador fjórfaldaðist frá 2018 til 2022. Í fyrra voru 220 tonn af eiturlyfjum gerð upptæk í landinu. Síðan í febrúar 2021 hafa rúmlega 460 manns verið myrtir bara í fangelsum, margir afhöfðaðir eða brenndir lifandi.

Ekvador er ekki einsdæmi. Annað land, sem áður var friðsælt, Kostaríka, glímir nú einnig við glæpaöldu. Það gerir stjórnvöldum þar erfitt fyrir að líkt og Ísland er Kostaríka ekki með her. Hann var lagður niður árið 1949. Þar hefur morðtíðnin einnig snarhækkað.

Síle er einnig fórnarlamb þessarar glæpaöldu. Þar hefur tekist að hemja morðin, en glæpum hefur fjölgað svo um munar og þeim fylgir ofbeldi.

Í Mexíkó vaða gengi uppi og hafa gert lengi. Þar og í Brasilíu eru borgir með hæstu morðtíðni í heimi. Besta svarið við eiturlyfjahringjunum væri að draga úr eftirspurninni, en það er ekki líklegt til að gerast. Aukið frjálsræði sölu á marijúana hefur engin sýnileg áhrif haft. Í Hollandi hefur frjálslyndið í sölu á marijúana og hassi meira að segja orðið til þess að landið er orðið miðstöð innflutnings og dreifingar í Evrópu og hefur verið talað um að ástandið þar sé farið að líkjast því sem gerist í Rómönsku Ameríku. Það sjáist meðal annars á því að fjölmiðlar þori ekki lengur að taka af skarið í umfjöllun um eiturlyfjahringina af ótta við hefndir.

Ástæðurnar eru margar fyrir því hvernig komið er, en það er ótækt að glæpagengi geti orðið svo voldug og atkvæðamikil að borgararnir geti ekki um frjálst höfuð strokið og gengið áhyggjulausir um götur.