Dagmál Þingmennirnir Teitur Björn Einarsson og Bergþór Ólason.
Dagmál Þingmennirnir Teitur Björn Einarsson og Bergþór Ólason. — Morgunblaðið/Hallur
Álit umboðsmanns Alþingis um ólögmæta stjórnsýslu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra hlýtur að hafa pólitískar afleiðingar fyrir ráðherrann. Um það eru þingmennirnir Teitur Björn Einarsson í Sjálfstæðisflokki og Bergþór Ólason í Miðflokki sammála, en þeir eru gestir Dagmála í dag

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Álit umboðsmanns Alþingis um ólögmæta stjórnsýslu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra hlýtur að hafa pólitískar afleiðingar fyrir ráðherrann. Um það eru þingmennirnir Teitur Björn Einarsson í Sjálfstæðisflokki og Bergþór Ólason í Miðflokki sammála, en þeir eru gestir Dagmála í dag.

„Það er ekki hægt að horfa upp á þessar stjórnarákvarðanir ráðherrans og láta þær átölulausar,“ segir Teitur, samherji Svandísar í ríkisstjórn. Það væri hlutverk Vinstri-grænna að finna lausn á því og endurbyggja það traust sem hún hefði grafið undan.

Hann vildi ekki svara því hvernig hann myndi greiða atkvæði ef vantrauststillaga kæmi fram á Alþingi.

Bergþór minnti á að matvælaráðherra sætti einnig ábyrgð þingflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þeir gætu ekki vikið sér undan henni. Embættisfærsla Svandísar hefði verið fyrir neðan allar hellur og græfi undan stjórnskipan landsins.

Hann benti á að hvalveiðibannið hefði bakað fjölda manns og Hvali hf. mikið tjón, sem skattgreiðendur þyrftu að bera. Þótt hann væri ekki hlynntur því að stjórnmálamenn væru dregnir fyrir Landsdóm, þá sýndist sér að forsendur væru til að gefa út ákæru á hendur henni.