Björn Kristleifsson var fæddur í Reykjavík 1. desember 1946. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð að kvöldi 31. desember 2023.

Foreldrar Björns voru hjónin Kristleifur Jónsson vegaverkstjóri, f. 18.11. 1898, d. 29.1. 1978 og Sigríður Þóra Jensdóttir húsfreyja, f. 27.8. 1910, d. 11.7. 1995. Þau bjuggu í Reykjavík.

Hann útskrifaðist sem dipl. ing. arkitekt frá Technische Universität í Berlin 1972 og hóf störf á arkitektastofu Jes Þorsteinssonar og síðar hjá Húsameistara ríkisins. Þá rak hann ArkAust, sína eigin stofu á Egilsstöðum, í 25 ár. Síðustu starfsárin vann hann hjá Byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar.

Hann var kvæntur Þuríði Backman, f. 1948, hjúkrunarfræðingi og fv. alþingismanni. Synir þeirra eru Kristleifur myndlistamaður, f. 1973 og Þorbjörn sviðslistamaður, f. 1978.

Kristleifur á dótturina Ronju Þuríði, Þorbjörn er í sambúð með Júlíu Marx og saman eiga þau dótturina Elvu.

Fyrir átti Þuríður Ragnheiði Sívertsen, íþrótta- og leikskólafræðing, f. 1966. Hún er gift Hilmari Sigurðssyni og eiga þau dæturnar Tinnu Björk og Hildi Sif.

Systkini Björns eru María Elísabet hjúkrunarfræðingur, f. 1939 og Jens Sigurður Kristleifsson, myndlistamaður og kennari, f. 1940, giftur Guðrúnu Maggý Magnúsdóttur.

Björn verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 11. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, Bjössi.

Það er ekki auðvelt að skrifa svona grein. Nú vantar þig til að aðstoða okkur eins og svo oft áður. Þú varst alltaf fyrstur til að hlaupa til og hjálpa ef eitthvað var að. Ætli þú myndir ekki enda á að skrifa þetta mestmegnis sjálfur. Og ef svo væri yrði textinn auðlesinn, léttur og laus við allan hégóma. Við skrifum um mann sem tók lífshlutverkið alvarlegar en hann tók sjálfum sér, um mann sem tók þarfir annarra ávallt fram yfir sínar. Þú varst velviljaður, traustur og geðgóður. Þú varst uppátækjasamur og alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt, eitthvað öðruvísi.

Allar lýsingar á þér hljóma takmarkaðar og dæmisögurnar fölna í samanburði við þá heildarmynd sem þú skilur eftir. Stuðningur þinn við okkur systkinin, trúin sem þú hafðir á okkur og tíminn sem þú gafst okkur, allt er þetta með öllu ómetanlegt og það er svo sárt að missa þig.

Þú varst góður maður og hjarta þitt var stórt. Elsku pabbi, Bjössi.

Takk fyrir okkur. Takk fyrir allt.

Með ást og söknuð í hjarta.

Þín

Þorbjörn, Kristleifur
og Ragnheiður.

Elsku litli stóri bróðir. Þakka þér fyrir að koma eins og sólargeisli inn í fjölskylduna okkar á Barónsstígnum. Þú fæddist um miðnættið og mamma valdi að sjálfsögðu að fullveldisdagurinn yrði afmælisdagurinn þinn, þér til mikillar ánægju.

Einstakur velvilji og hlýja fylgdi þér alla tíð, sjálfstæður lítill drengur sem vildi hag allra sem mestan. Bjarta brosið, glettnin og viljinn til að hjálpa.

Núna held ég að það sé þörf fyrir þig á stærri vettvangi. Ég sé þig fyrir mér í hópi sálna í handanheiminum eða hvað eigum við að kalla það, með kærleika og visku. Reyna að leiða blítt en ákveðið að betra lífi fyrir alla hér á jarðarkringlunni. Nú brosir þú og finnst ég léttgeggjuð en hvað með það, maður má láta sig dreyma.

Ferðirnar vestur á æskuslóðirnar með Jens bróður okkar og ekki síður ferðirnar með Kristleifi að taka ljósmyndir af vörðum. Vörðurnar á Þingmannaheiði, svo margar góðar minningar, dýjamosinn og grámosinn með fjallagrösunum.

Ég man vel eftir þegar ég dró þig fjögurra eða fimm ára gamlan niður að Þingmannaá til að skola sokka, mér hafði eitthvað sinnast við mömmu, átti að passa þig, missti einn sokkinn í ána, kannski varstu að reyna að hjálpa mér, allavega dastu í ána, en þér varð ekki meint af. Seinna um kvöldið dró ég þig með mér niður Kleifarnar og við fundum smiðjusteininn hans Gests spaka Oddleifssonar sem hafði verið týndur síðan á söguöld.

Þakka þér fyrir allt elsku Bjössi.

María Elísabet
Kristleifsdóttir.

Með Birni Kristleifssyni er fallinn frá einstaklingur sem setti drjúgt mark á sína samtíð, ekki síst þá þrjá áratugi sem hann hafði fasta búsetu á Egilsstöðum á Héraði 1983-2013. Eiginkona hans var Þuríður Backman alþingismaður fyrir Vinstri græna í 14 ár, þ.e. frá stofnun flokksins 1999-2013.

Arkitektúr var meginviðfangsefni Björns, en því námi lauk hann frá Tækniháskólanum í Vestur-Berlín árið 1972. Þar var hann í hópi íslenskra stúdenta sem m.a. settu upp kvikmyndir sem vöktu athygli, þar á meðal um Skugga-Svein.

Um það leyti var Björn heitbundinn Þuríði Backman hjúkrunarfræðingi og síðar alþingismanni til 14 ára. Eftir störf Björns í áratug syðra fluttu þau hjón austur í Egilsstaði þar sem Björn stofnaði sína eigin stofu, ArkAust, sem hann rak samfellt í 25 ár. Teiknaði hann m.a. kirkjur og íbúðarhús af fjölbreytilegum gerðum og var ætíð setinn verkefnum, m.a. í menningarmálum. Listfengi hans birtist í myndskreytingum af ýmsu tagi, þar á meðal gerð jólakorta fyrir íþróttafélagið Hött, sem við Kristín eigum mörg sýnishorn af.

Kynni okkar Björns og Þuríðar hófust fyrst að ráði á 10. áratugnum þegar ég var þingmaður Austurlandskjördæmis á vegum Alþýðubandalagsins. Tilraun var gerð til að fella mig frá framboði fyrir alþingiskosningarnar 1991. Hún rann út í sandinn, enda átti ég mikinn stuðning um allt kjördæmið. Í þeim hópi voru þau Björn og Þuríður, og tók hún þá 3. sæti á framboðslista og síðan 2. sæti í alþingiskosningunum 1995. Vegna starfa minna í alþjóðastofnunum kom hún oft sem varaþingmaður minn inn á Alþing.

Fyrst reyndi þó fyrir alvöru á hug þeirra hjóna til stjórnmálaþátttöku Þuríðar, þegar ég óskaði eftir að hún leiddi lista Vinstri grænna eystra í alþingiskosningunum 1999. Um niðurstöðuna reyndi ekki síður á hug Björns sem eiginmanns, og reyndist hann jákvæður. Hélt Þuríður þingsæti eftir þetta næstu 14 árin að hún dró sig í hlé frá stjórnmálstarfi.

Ég mun ætíð minnast með þakklæti og virðingu stuðnings og viðmóts þeirra hjóna í minn garð og okkar Kristínar.

Hjörleifur Guttormsson.

Nú ertu genginn kæri vinur og ekki verður fundinn annar slíkur.

Þið hjónin komuð inn í líf okkar Helgu Jónu þegar þið fluttuð úr Reykjavík til Egilsstaða árið 1983 og settuð verulegt mark á líf okkar og urðuð með tímanum einhverjir okkar allra bestu vinir þar eystra. Við Björn höfðum sést áður sem snöggvast í Reykjavík á vinnustofu þar sem þeir Þórarinn bróðir voru arkitektar, svo allt í einu var bankað á eldhúsgluggann hjá okkur á Lagarásnum og þar voruð þið Þuríður mætt austur, komin til að hefja nýtt líf og kynnast nýju fólki enda miklar félagsverur bæði tvö, framtakssöm, hugmyndarík og listræn.

Björn var listateiknari, hugmyndaríkur og fljótur til. Gat ég alltaf leitað til hans ef mig vantaði eitthvað til að lífga upp á fyrirlestra eða fræðslu sem fylgdu mínu starfi, oft á elleftu stundu. Þuríður varð samstarfsmaður minn á Heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum síkát og drífandi.

Það skapaðist mikill samgangur á milli okkar heimila, heimboðin til þeirra endalaust sprell, glaðværð, leikir og uppfinningasemi. Synir okkar á líku reki á fullu í íþróttastarfi þar sem Björn var allt í öllu, meðal annars formaður íþróttafélagsins Hattar um árabil og átti mikinn þátt í því ásamt öðrum frumherjum eystra að efla æskulýðsstarf innan félagsins. Einkum var körfuboltinn hans áhugasvið sem nú hefur náð að blómstra á eftirtektarverðan hátt. Konur okkar stóðu fyrir stofnun foreldrafélags grunnskólans, skipulögðu foreldravaktina m.m.

Björn tók drjúgan þátt í að gera hugmyndir Keith Reed tónlistarkennara að Óperustúdíói Austurlands að veruleika með smíði sviðsmynda fyrir fjórar óperur við frumstæðar aðstæður. Átti Björn einstaklega gott með að fá aðra til að vinna með sér og bjó yfir smitandi hugmyndaauðgi og atorkusemi.

En það voru ekki síst gagnkvæm vinátta og samvera sem byggðist upp á milli heimila okkar sem hefur reynst okkur hjónum dýrmæt. Persónueiginleikar þeirra hjóna og framkvæmdasemi dreif okkur með í margt sem við hefðum annars ekki upplifað; þátttaka í uppsetningu sýninga á vegum brúðuleikhúss sem þau stofnuðu og fóru með vítt um land, fjölskylduferðir upp á öræfi, skemmtilegt starf í þorrablótsnefndum o.fl.

Eftir að þau hjón fluttu alfarið suður héldust tengsl okkar og vinátta. Þegar Björn tók að kenna Parkinsonveikinnar að marki breyttist allt og líf Þuríðar og kraftar fóru í vaxandi mæli að snúast um þverrandi sjálfsbjargargetu Björns. Þau mættu víða góðvilja og þjónustu í heilbrigðiskerfinu á þeirri vegferð og síðustu misserin eftir að Björn fékk inni á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð skiptu sköpum og léttu á henni. Þar var hann að lokum leystur undan krossi síns sjúkdóms.

Far sæll gamli vin og megi góðar minningar um einstaka persónu þína létta líf syrgjenda.

Stefán Þórarinsson.

• Fleiri minningargreinar um Björn Kristleifsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

hinsta kveðja

Bjössi frændi minn og vinur er dáinn. Það var nokkuð lengi ljóst hvert þessi fjárans sjúkdómur væri að fara en höggið er samt afar þungt.

Frá því ég man eftir mér hef ég verið einlægur aðdáandi Bjössa og náðum við strax vel saman. Hann var skemmtilegur, klár og flinkur. Bjössi bjó til og framkvæmdi hluti sem höfðuðu sterkt til mín og veittu mér innblástur.

Upp úr standa þó minningar um góðar samverustundir og vinskap.

Sigurður Óli Jensson.