Jón Björgvin Stefánsson fæddist á Mýrum í Skriðdal 19. október 1927. Hann lést á Hrafnistu í Reykjanesbæ 28. desember 2023.

Foreldrar hans voru Ingifinna Jónsdóttir og Stefán Þórarinsson. Jón var næstyngstur fimmtán systkina sem öll eru látin.

Jón kvæntist 13.8. 1949 Guðrúnu Matthildi Sigurbergsdóttur, f. 20.11. 1930, d. 23.11. 2017.

Börn þeirra eru: 1) Sigurberg, f. 27.9. 1950. Eiginkona hans er Dagbjört Nanna Jónsdóttir. Börn þeirra eru Jón Auðunn, Kristinn Þór og Guðrún Matthildur. 2) Stefán, f. 27.1. 1952. Eiginkona hans er María Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Jón Björgvin, Sigurður og Svava Ósk. 3) Jóhanna, f. 28.7. 1953. Dætur hennar eru Guðrún Sjöfn, Þurý Ósk og Erla. 4) Ásbjörn, f. 20.10. 1959, d. 3.12. 2019. Eftirlifandi eiginkona hans er Auður Vilhelmsdóttir. Dætur þeirra eru Björg, Birna og Bergrún.

Barnabarnabörn Jóns eru þrjátíu.

Jón átti upphaf og æsku austur á Héraði. Hann stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og þar eftir vann hann ýmis verkamannastörf.

Hann lærði til skósmiðs hjá tengdaföður sínum, Sigurberg Ásbjörnssyni, og rak eigin skóvinnustofu þar til hann lauk starfsævi sinni, 85 ára gamall.

Jón lagði alla tíð rækt við að þjóna samfélaginu og fjölskyldu sinni af alúð.

Útför Jóns fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 11. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku afi minn. Nú ertu farinn á annan stað og söknuðurinn er mikill.

Þú varst svo ótrúlegur maður, harðduglegur og vinnusamur og lést ekkert stoppa þig. Hvers manns hugljúfi og þetta jafnaðargeð mættu margir taka sér til fyrirmyndar.

Ég á margar góðar minningar um samveru með þér og ömmu. Þið voruð dugleg að fara með okkur í sumarbústaðinn ykkar, Afakot, og þar var ýmislegt skemmtilegt brallað.

Á skóvinnustofunni þinni eyddum við líka mörgum stundum og fengum að prófa ýmislegt en okkur fannst þó mest spennandi að fá að afgreiða.

Alltaf var gott að koma til ykkar á Skólaveginn og eitt er víst að aldrei fór maður svangur þaðan.

Þú varst duglegur að fara í sund alla morgna fyrir vinnu og fór ég stundum með þér fyrir skóla og svo beint heim í hafragraut og lýsi áður en haldið var af stað út í daginn.

Þegar þú varst kominn á Hrafnistu kom ég oft í heimsókn til þín, klippti þig og við spjölluðum um heima og geima.

Ég veit að hún Gunna þín og Ásbjörn sonur þinn hafa tekið vel á móti þér.

Guð geymi þig afi minn.

Elska þig að eilífu.

Þín

Svava Ósk Stefánsdóttir.

Við kveðjum afa okkar, afa Jón, í dag. Afi Jón var okkur systrum afar kær.

Þegar við hugsum um afa þá hlýnar okkur um hjartarætur en afi var einn af blíðari, ef ekki blíðasti, mönnum sem við höfum kynnst. Jafnaðargeð, jákvæðni, hjálpsemi og góðmennska voru eiginleikar sem einkenndu hann. Afi var víðlesinn og klár og þótti okkur rosalega gaman að spjalla við hann um heima og geima. Afi var dugnaðarforkur og stálhraustur maður og þá er jafnvel vægt til orða tekið; hann hætti að vinna 85 ára gamall, gerði æfingar og fór í sund eldsnemma alla virka morgna þar til að hann flutti á hjúkrunarheimili. Hann var mjög handlaginn og í frítíma sínum skar hann út og eigum við allar falleg verk eftir hann sem okkur þykir svo vænt um.

Afi var með breiðasta brosið og hlýjasta faðminn og við munum sakna hans sárt.

Takk fyrir að vera besti afi og góð fyrirmynd.

Þínar afastelpur,

Björg, Birna og Bergrún.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

„Ég ætla út á verkstæði til afa!“ kalla ég um leið og ég sting mér út um vaskhúsdyrnar og stekk niður tröppurnar tvær. Skrefin eru mismörg eftir því hve há í loftinu ég er á leiðinni, þessa stuttu leið yfir í bílskúrinn – sem líka er skóverkstæðið hans afa. Hér er heimurinn hans, allt í röð og reglu, saumavélin, vinnubekkurinn og fyrir innan rennibekkurinn. Afi brosir hringinn þegar hann sér mig. Hann tekur mér opnum örmum, býður kandís eða kleinu, nema hvorutveggja sé og eitthvað að drekka. Hjá afa læri ég að smíða og ég má horfa á þegar hann gerir við, hvernig hann beitir hinum ýmsu verkfærum, saumar á saumavélina eða límir eitthvað saman. Afi segir mér deili á öllum körlunum sem koma í heimsókn í kaffi og það er alltaf stutt í hláturinn hjá okkur. Ferðirnar til afa voru fjölmargar og héldu áfram þegar ég var komin á fullorðinsárin og skrefin yfir á skóverkstæðið orðin í mesta lagi þrjú. Alltaf voru móttökurnar hlýjar og boðið um kandís og kleinu lét ekki á sér standa.

Við afi gátum rætt allt milli himins og jarðar og það var alltaf bæði pláss og tími fyrir mig á skóverkstæðinu. Stundum vildum við vinna saman í „þögn“, hann með sinn hamar og ég með minn. Stundum stóð ég í gættinni og við töluðum saman og færðum okkur sífellt nær hvort öðru, það var svo margt að segja, hlæja, deila og læra og kveðjustundin innihélt mörg faðmlög.

Afi átti sér líka annan heim en líkt og með verkstæðið sitt þá smíðaði hann þá báða. Heimili sitt og skóverkstæðið í Keflavík reisti hann á kreppuárum. Nokkrum árum áður en ég fæddist kom Afakot – sumarbústaðurinn með sundlauginni. Þar var afi með verkfæraskúr og stóð oft á pallinum fyrir framan hann, baðaður sólargeislum og beið mín með opinn faðminn. Hann var örlátur og þegar ég sjálf átti eigin börn var Afakot annað heimili okkar. Við vorum alltaf velkomin hjá afa og ömmu. Afi hélt áfram að kenna mér fram eftir öllu, hvernig er best að opna þrjóskar flöskur, hvernig rífa má flísar af vegg, hvernig gera má við rennilás, smíða skó, töskur og lagfæra – allt frá veraldlegum hlutum yfir í þá andlegu.

Afi kenndi okkur seiglu, jákvæðni, dugnað og vinnusemi. Hann var einstök fyrirmynd, sérstaklega sem fjölskyldumaður, og við áttum gott að eiga hann að. Hann var handlaginn, hjálpsamur og ávallt stutt í brosið. Einkunnarorð hans voru að lífið væri yndislegt og hann gerði allt sem í sínu valdi stóð til að hamingjan brosti við okkur öllum.

Mesta lán hans í lífinu var að kynnast ömmu og eignast börnin þeirra fjögur. Þegar hún féll frá beið afi þess sem hann kallaði lífsins gang. Þau eru loksins sameinuð á ný, Jón og Gunna skó.

Þurý Ósk Axelsdóttir.

• Fleiri minningargreinar um Jón Björgvin Stefánsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.