Erna Aradóttir fæddist á Hjaltastað í Norður-Múlasýslu 28. janúar árið 1932. Hún lést 4. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Sigríður Soffía Þórarinsdóttir húsmóðir, f. 1894, d. 1972, og Ari Jónsson héraðslæknir á Egilsstöðum, f. 1898, d. 1967. Foreldrar Sigríðar Soffíu voru Þórarinn Þórarinsson, prestur á Valþjófsstað, og Ragnheiður Jónsdóttir. Foreldrar Ara voru Jón Arason, prestur á Húsavík, og Guðríður Ólafsdóttir. Systir Ernu var Ragnheiður, f. 1933, d. 1982.

Eiginmaður Ernu var Böðvar Jónasson, f. 1931, d. 2015. Þau giftust 1955. Foreldrar hans voru Hulda Sólborg Haraldsdóttir húsmóðir, f. 1902, d. 1993, og Jónas Böðvarsson skipstjóri, f. 1900, d. 1988. Barn Ernu og Böðvars er Sigríður Soffía leikskólakennari, f. 1958, hennar maður er Jóhannes Sveinbjörnsson f. 1954. Þeirra dætur eru þrjár 1) Erna mannfræðingur, f. 1983, hennar maður er Davíð Bragi Konráðsson fornleifafræðingur, f. 1981, dóttir þeirra er Nína Sigríður, f. 2023. 2) Marta endurskoðandi, f. 1989, maður hennar er Michael Þórarinsson gæðastjóri, f. 1973, sonur þeirra er Jóhannes Hrafn, f. 2014. Dóttir Michaels er Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, f. 1997. 3) Agnes forritari, f. 1994.

Erna ólst upp á bænum Brekku á Héraði. Hún varð gagnfræðingur frá Alþýðuskólanum á Eiðum 1948, var í Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1949-1950 og lauk námi við Hjúkrunarskóla Íslands 1955. Erna var hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum 1955-1957 og 1959-1970, var hjúkrunarfræðingur á lækningastofu Björns Guðbrandssonar frá 1960 í nokkur ár. Hún var einnig hjúkrunarfræðingur í Menntaskólanum í Hamrahlíð í nokkur ár frá 1973, vann á Heilsuverndarstöð Kópavogs 1970-1980, á Heilsugæslustöð Kópavogs frá 1980, þar var hún deildarstjóri heimahjúkrunar frá 1987 og fram að starfslokum. Erna tók einnig vaktir á Læknavaktinni undir lok starfsævinnar.

Erna sat í stjórn Hjúkrunarfélags Íslands 1959-1963 og var gjaldkeri 1961-1963. Hún var í ritnefnd Hjúkrunarkvennatalsins sem var útgefið 1969. Erna starfaði í mörg ár í Soroptimistaklúbbi Kópavogs, í því starfi kom hún að uppbyggingu Hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar.

Erna og Böðvar hófu búskap sinn í húsi foreldra Böðvars á Háteigsvegi 32 og eignuðust dóttur sína þar. Þau byggðu raðhús á Álfhólsvegi 18 þar sem þau bjuggu í 15 ár og fluttu sig síðar um set á Álfhólsveg 74. Síðustu þrjú árin bjó Erna í íbúð á Sléttuvegi 27.

Útför Ernu fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 11. janúar 2024, klukkan 13. Útförin er sameiginleg með útför Mörtu M. Jónasdóttur mágkonu hennar og vinkonu til 70 ára. Þær létust með viku millibili.

Látin er í Reykjavík kær frænka okkar, Erna Aradóttir. Hún var dóttir föðursystur okkar, Sigríðar Soffíu Þórarinsdóttur – sem í okkar fjölskyldu var alltaf kölluð Stóra frænka – og Ara Jónssonar læknis á Egilsstöðum. Þau systkinin, pabbi og Stóra frænka, voru náin enda þau tvö þau einu sem bjuggu á Héraði af stórum systkinahópi frá Valþjófsstað og mikill og náinn samgangur milli heimila þeirra. Þegar starfslok nálguðust hjá þeim mágum upp úr 1960, fluttu fjölskyldurnar báðar á fyrstu hæðina í Skaftahlíð 10 í Reykjavík og jókst þá samgangur fjölskyldnanna enn meira. Og þótt aldursmunur okkar systkina sé meiri en 20 ár varð þetta sambýli til þess að þau yngstu okkar kynntust Stóru frænku og Ara jafn vel og þau sem eldri eru. Dætur þeirra, Erna og Ragnheiður, önnuðust foreldra sína fram í andlátið og komu oft í Skaftahlíðina, þó sérstaklega Erna sem var eins og klettur við hlið móður sinnar eftir andlát Ara 1967. Stóra frænka lést 1972.

Tengslin við Ernu styrktust enn frekar eftir að við komumst öll á fullorðinsár og stofnuðum okkar eigin fjölskyldur. Hún var sjálfskrifuð í öll fjölskylduboð, hvort heldur það voru brúðkaup, stúdentsveislur, skírnarveislur eða fermingar, enda var hún frekar sem eldri systir en frænka. Við systkinin og fóstursystir okkar höfum um árabil hist ásamt mökum einu sinni á ári í svokölluðum systkinafagnaði þar sem við eyðum heilum degi saman við ýmsa afþreyingu og njótum svo góðs matar hjá einhverju okkar. Oftar en ekki var Erna með okkur í þessum fagnaði og er okkur sérstaklega í minni helgardvöl í Skagafirðinum árið 2016 þar sem við heimsóttum m.a. Hóla og Siglufjörð.

Lítil saga lýsir einstaklega vel hjartahlýju og vináttu Ernu og Böðvars manns hennar við fjölskylduna. Eftir vetrardvöl í Reykjavík veturinn 1959-60 fór fjölskyldan austur í Eiða um vorið og sú elsta okkar, Ingibjörg, varð ein eftir í bænum og leigði herbergi á Melunum. Eitt sinn þegar hún var búin að vera sárlasin í nokkra daga, ein og umkomulaus, kom Erna við að beiðni mömmu sem hafði áhyggjur af dótturinni. Þegar Erna sá ástandið sagði hún umsvifalaust að nú skyldi Ingibjörg koma með henni og vera hjá þeim Böðvari um tíma. Ungu hjónin tóku hana upp á sína arma, Sigga Soffa var látin ganga úr rúmi og Ingibjörg bjó hjá þeim í tæplega þrjú ár.

Erna kom í áttræðisafmæli Ingibjargar í júlí 2021 og var það í síðasta skipti sem stórfjölskyldan hitti hana en sameiginlegur áhugi Ernu og Ragnheiðar á ættarsögunni styrkti tengslin þeirra á milli enn frekar síðustu árin.

Gleði og glæsileiki einkenndu Ernu og við kveðjum hana með miklum söknuði.

Við systkinin frá Eiðum og fjölskyldur okkar sendum Siggu Soffu, Jóhannesi, dætrunum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ernu frænku.

Ingibjörg, Þórarinn,
Stefán, Sigurður Þór, Ragnheiður Helga,
Hjörleifur og Halldór.

Það hefur verið ómissandi að fá Ernu, mágkonu og stórvinkonu mömmu, árlega í afmæli mitt. Þá sagði hún söguna af fæðingu minni, sem hún var viðstödd, með tilþrifum og sló ekkert af í frásögninni. Sagan góða var síðast sögð í afmæli mínu síðastliðið haust, móður minni, mér og öðrum til skemmtunar.

Erna hefur verið hluti af þeim kvennakrans sem ól mig upp og verið mér náin. Það eru forréttindi að hafa slíka konu nálæga. Hún hafði mikið að gefa og það voru ótalmargir sem nutu krafta hennar, ættingjar og skjólstæðingar. Erna lét sig málin varða, var mannvinur og vakandi af umhyggju fyrir heilsu fólks.

Lánið lék við mig þegar ég fékk að starfa með Ernu á Heilsugæslustöð Kópavogs þegar ég var unglingur. Hún var þar deildarstjóri heimahjúkrunar og ég símastúlka. Ég dáðist að dugnaði hennar og röggsemi í ábyrgðarmiklu starfi og það fylgdi því öryggi að vinna nálægt henni.

Erna hafði ekki síður puttann á púlsinum er varðaði listir og menningu. Þau Böðvar áttu stórt bókasafn og fylgdist hún vel með myndlist og tónlist, það var gaman að hlusta á frásagnir hennar af listamönnum og verkum þeirra. Sjálf skrifaði hún bók, ásamt öðrum, sem var heimildar- og fræðirit, Hjúkrunarkvennatal. Safna þurfti miklu magni af upplýsingum, skrifa, flokka og raða. Mér er í barnsminni að húsið hennar var undirlagt af pappírum og ljósmyndum á þessum tíma, enda var verkefnið viðamikið.

Erna var hafsjór af fróðleik og hafði ferðast víða innan lands sem utan. Hún og Böðvar höfðu grandskoðað landið, farið inn að miðju þess og út á ystu nes en hann hafði unnið við byggingu og viðhald vita. Þau ferðuðust einnig utanlands og stundum til fjarlægra staða. Þegar ferðalög voru fram undan hjá mér var hægt að fletta upp í henni og fá lánuð ferðarit. Þegar heim var komið hlustaði hún af áhuga á frásagnir af því sem fyrir augu hafði borið.

Erna var höfðingi heim að sækja og hélt hverja stóru veisluna á fætur annarri. Á gestalistanum gleymdust engir og passað var upp á að einstæðingar væru þar engin undantekning.

Það hefur verið mikilvægt að eiga hana sem hauk í horni alla tíð og allt undir það síðasta. Ætíð var hægt að sækja styrk til hennar. Síðasta samtalið var örfáum dögum áður en hún kvaddi þar sem hún lagði blessun sína yfir tónlistina í útför móður minnar, sem lést viku á undan henni, óafvitandi að það yrði einnig hennar eigin útför.

Hafðu þökk fyrir samfylgdina.

Valgerður
Garðarsdóttir.