Marta María Jónasdóttir fæddist í Reykjavík 5. júní 1929. Hún lést 28. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Hulda Sólborg Haraldsdóttir húsmóðir, f. 1902, d. 1993, og Jónas Böðvarsson skipstjóri, f. 1900, d. 1988.

Marta var þriðja í röð fjögurra systkina sem öll eru látin, hin voru Sigríður, f. 1924, Haraldur, f. 1926, og Böðvar, f. 1931.

Fyrrverandi eiginmaður Mörtu var Garðar B. Bjarnason stýrimaður, f. 1928, d. 1980. Börn þeirra eru: 1) Jónas, starfar fyrir sjómannasamtökin, f. 1955, kona hans Harpa Helgadóttir sölufulltrúi, f. 1964, börn þeirra eru fimm: Marta María, f. 1977, Jón Sigurður, f. 1979, Hulda Hrund, f. 1985, Guðlaug Dagmar, f. 1987, og Helgi Hörður, f. 1994. 2) Valgerður framhaldsskólakennari, f. 1959, eiginmaður hennar er Arnar Ásmundsson bankastarfsmaður, f. 1957, börn þeirra eru fjögur: Áshildur, f. 1982, Garðar, f. 1988, Jónas, f. 1993, og Marta María, f. 1996. Langömmubörnin eru ellefu og er eitt þeirra látið.

Marta ólst upp í Reykjavík, gekk þar í Miðbæjarskólann, Kvennaskólann og Húsmæðraskólann, í sautján sumur var hún í sveit á Álftanesi á Mýrum hjá afa sínum Haraldi Bjarnasyni og ömmu Mörtu Maríu Níelsdóttur. Hún vann hjá Rafveitunni Tjarnargötu í tíu ár.

Marta og Garðar hófu búskap sinn í húsi foreldra Mörtu á Háteigsvegi 32 og eignuðust son sinn þar. Þau byggðu sér hús í Lindarhvammi 3 í Kópavogi þar sem dóttirin fæddist. Marta var heimavinnandi á meðan hún ól upp börnin sín en eiginmaðurinn var á sjó. Síðar starfaði hún meðal annars hjá Ríkisendurskoðun, í matsölu í Menntaskólanum við Hamrahlíð og í hannyrðaversluninni Erlu en lengstan starfsferil átti hún í innheimtum og ábyrgðum hjá Landsbankanum eða þar til starfsævinni lauk. Eftir það einbeitti hún sér að því að hlúa að sínum. Marta bjó í hálfa öld og fram á síðasta dag í Barmahlíð 17, Reykjavík.

Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 11. janúar 2024, klukkan 13. Útförin er sameiginleg með Ernu Aradóttur, mágkonu hennar og vinkonu til 70 ára.

Þær létust með viku millibili.

Á litlu myndinni þar sem þú ert fimm ára, þessari sem tekin er í kartöflugarðinum á Álftanesi á Mýrum þar sem þú varst sautján sumur í sveit hjá afa þínum og ömmu og ert í sauðskinnsskónum, skín einbeitingin úr móleitu pírðu augunum undir þykka þvertoppnum. Þú vandar þig, sem varð þinn vani, heldur þéttingsfast um háls á kettlingi til að missa hann ekki og bítur á vörina. Veganestið úr sveitadvölinni var nægjusemi og umburðarlyndi eftir að hafa umgengist stóran og kærleiksríkan frændgarð.

Fermingarmyndin er tekin að hausti 1943 því ekki var hægt að ferma þig að vori þar sem faðir þinn var fjarri í siglingum sem skipstjóri á millilandaskipi í stríðinu mikla. Þú ert athugul og alvarleg enda búin að verða vitni að hernámi í ótryggum heimi.

Á myndinni af þér ungri Reykjavíkurdömu er farsæl skólaganga að baki. Þú hafðir verið ötul yfir skólabókum og handavinnu eftir að þú lærðir ung að lesa og prjóna hjá ömmu þinni og nöfnu á Mýrunum. Stundvísin hafði skilað þér hringjarastarfi í Kvennaskólanum og samviskusemin viðurkenningum í skóla og síðan góðri vinnu hjá Rafveitunni í Tjarnargötu.

Myndirnar sem ég á af þér í huga mér, elsku mamsa bamsa, eru eftir þessa tíma. Eftir fyrstu árin þín í húsinu hans Schopka í Skerjafirði, eftir barnæskuna í húsi Sesselju og dætra hennar í Bjarkargötu 12 og sem ungri konu í húsi góðra foreldra þinna að Háteigsvegi 32, þar sem staðfesta, höfðingsskapur, hófsemi og velvild greyptust inn í þig. Mínar myndir eru úr Lindarhvammi 3 í Kópavogi þar sem ró þín, sjálfstæði og mildi, heimavinnandi húsmóður, urðu til þess að sælan varð alltumlykjandi og í Barmahlíð 17 þar sem þú, starfsmaður Landsbankans, með útsjónarsemi, yfirvegun og ljúfmennsku komst mér til manns og studdir mig alla daga.

Ég sé í huga mér þegar þú stakkst þér inn í efnabúðir í miðbænum á leið heim úr vinnu í Hafnarhvoli, straukst fataefni og lést þig dreyma um nýja flík sem stundum varð að veruleika eftir að þú hafðir dregið fram sníðaskærin og saumavélina. Draumar annarra um nýjar flíkur urðu einnig að veruleika þegar þú saumaðir og prjónaðir hverja dásemdina eftir aðra.

Myndirnar sem við fjölskylda mín eigum af þér frá síðustu kvartöld, eftir að starfsferli þínum lauk, eru ótalmargar og allar góðar, enda samtvinnaðist þú öllu okkar lífi í hversdeginum og spari.

Mildin þín, móðir mín, var þér í blóð borin og fylgir mér alla ævi.

Þín

Valgerður (Valla).

Elsku amma.

Ég var svo heppin að fá að vera með þér nánast upp á dag alla mína æsku og uppeldisár. Ein af fyrstu minningunum með þér var þegar við spiluðum innifótbolta af miklum móð á teppalögðu stofugólfunum á heimili þínu. Þrátt fyrir að vera inni á fallega heimilinu þínu var ýmislegt leyft til að hafa gleði og hamingju í fyrirrúmi. Ég fór ekki í leikskóla fyrr en ári fyrir skóla og fékk að vera hjá þér í staðinn. Þú leyfðir mér að vera ég og ég fékk ætíð mitt pláss hjá þér, allan þinn tíma og athygli. Þú hélst alltaf í góð gildi, viðhorf, aga og sinntir góðu uppeldi. Ég þurfti að gjöra svo vel að sporðrenna hafragrautnum áður en ég fékk skál af kókópuffs, um annað var ekki hægt að semja. Þegar ég var lasin sast þú hjá mér öllum stundum og last þig hása af Drekasögu eða Grimms-ævintýrum þar sem stígvélaði kötturinn var í uppáhaldi. Nokkrum sinnum í viku og vel á annan áratug skutlaðir þú mér í fiðlu niður á Lindargötu eða í Skipholtið og á kóræfingar í Langholtinu. Alltaf beiðstu eftir mér og mættir á alla viðburði hjá mér, tónleika og sýningar. Stuðningur númer eitt. Bílferðirnar í rauðu Carinunni voru hinir albestu sálfræðitímar þar sem við gátum verið einar að spjalla um allt milli himins og jarðar. Síðar tóku ömmugötin við þegar ég var komin í menntaskóla og háskóla þar sem við helguðum einn morgun í viku spjalli, kósíheitum og kruðeríi.

Eitt af því sem ég er stoltust af er að fá að bera nafnið þitt. Nafnið sem þú fékkst frá ömmu þinni. Talið er að fjórðungi bregði til nafns. Ég vona það allavega. Þú varst einn mesti kvenskörungur sem ég hef kynnst og klár varstu fyrir allan peninginn. Þú fórst þínar eigin leiðir í lífinu og stóðst alltaf með sjálfri þér. Þú kenndir mér að hafa trú á sjálfri mér, standa með réttlæti og koma hreint fram. Þú kenndir mér að tala vandað mál, gera ætíð mitt besta, klæða mig eftir tilefni, sýna gjafmildi og bera virðingu fyrir því sem maður tekur sér fyrir hendur. Við tengdumst í handavinnunni og þú kenndir mér að læra að meta íslenska og klassíska tónlist, hvort sem um væri að ræða Diddú eða Mozart. Þú hoppaðir upp um bekk og fórst ári á undan jafnöldrum þínum í Kvennaskólann, þar veittirðu mér innblástur. Þú fórst í Húsmæðraskóla Reykjavíkur, þangað ákvað ég að fara líka. Fyrir tæpum tveimur árum fékk ég síðan skólameistarastöðu við þann skóla, nú Hússtjórnarskólann í Reykjavík, og þá datt nú alveg af þér andlitið. „Verður þú þá þéruð núna?“ spurðir þú mig alvörugefin en kankvís á sama tíma. Ég er svo þakklát fyrir að þú hafir fylgt mér fyrstu skrefin mín í því starfi og fá að vinna innan veggja skólans sem þér þótti svo vænt um.

Þú varst mín helsta fyrirmynd og munt verða það áfram. Ég mun gæta nafnsins okkar vel og halda í allt það góða sem þú kenndir mér. Takk fyrir að hafa haft óþrjótandi tíma fyrir mig og móta mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.

Ég sakna þín. Þar til síðar, elsku amma.

Fingurkoss til þín.

Þín „nabbagó” (nafna góð),

Marta María A.

Elsku amma mín, amma Marta, er dáin. Þótt það sé gott lífsverk að ná því að lifa í 94 ár þá fyllist hjartað af söknuði og sorg því það er vont að missa þá sem manni eru kærir, á hvaða aldri sem þeir eru. Amma var miklu meira en bara amma. Hún var uppalandi, vinkona, vegvísir og kennari. Það var gott að kúra í hennar stóra faðmi þegar eitthvað bjátaði á. Þegar ég hugsa um ömmu Mörtu fyllist hjartað af þakklæti því það eru raunveruleg forréttindi að hafa átt bandamann eins og hana. Minningarnar þjóta fram hjá eins og hraðlest, hraðlest hins góða og kærleiksríka.

Amma mín var þriðja barn Huldu Sólborgar Haralsdóttur húsfreyju í Reykjavík og Jónasar Böðvarssonar skipstjóra hjá Eimskip. Hún var alin upp í Bjarkargötu í Reykjavík en þegar hún var unglingur fluttist fjölskyldan á Háteigsveg 32, sem langafi minn og langamma reistu. Á sumrin dvaldi amma á Álftanesi á Mýrum hjá ömmu sinni, Mörtu Maríu Níelsdóttur, og Haraldi Bjarnasyni afa sínum. Þau voru bændur á landnámsjörð Skalla-Gríms. Í gegnum tíðina spurði ég ömmu gjarnan út í líf hennar þegar hún var lítil. Þetta voru hversdagslegar spurningar um hvað hún hefði verið með í nesti, hvað var í mestu uppáhaldi hjá henni og hvað hún borðaði á jólunum. Amma svaraði alltaf með sömu setningunni: „Ég man það ekki. Það voru allir alltaf svo góðir við mig og fékk nóg að borða.“ Það þýddi því ekkert að reyna frekari yfirheyrslur í þeim efnum.

Þótt amma hefði verið fráskilin þegar fyrsta barnabarnið hennar fæddist þá var engum blöðum um það að fletta að hún elskaði ennþá hann afa minn, Garðar Björgvin Bjarnason stýrimann. Hún gat bara ekki verið gift honum því grunngildi þeirra voru ólík.

Amma var þessi reglusama sem vildi eiga fallegt og gott líf með góðum mat, kökum og desertum. Þegar ég var lítil vorum við Mörturnar oftar en ekki að hugsa um hvað við gætum borðað næst eða hvaða fínerísföt við gætum saumað. Hún var alltaf með grænu saumavélina á lofti og töfraði fram eitthvað fallegt. Eitt sinn saumaði hún apaskinnsgalla á nöfnu sína þegar slíkir gripir þóttu smart. Svo kenndi hún réttu handtökin í saumaskap, matreiðslu og prjóni svo fátt eitt sé nefnt.

Þrátt fyrir að amma hefði aldrei liðið skort og fengið nóg að borða var hún upptekin af því að fara vel með peninga. Hún var nýtin og nægjusöm og vildi að afkomendur hennar væru það líka. Hún þoldi ekki gagnslaus innkaup og skran. Amma vildi að föt væru úr góðum og vönduðum efnum. Hún var til dæmis fastakúnni í Seymu og keypti stundum efni, án þess að vera búin að ákveða hvað hún ætlaði að sauma úr þeim. Á rigningardögum klöppuðu Mörturnar kannski bara efnunum til að hressa sig við. Það er ótal margt sem amma lagði til og einu sinni sem oftar sagði hún við litlu nöfnu sína að hún ætti endilega að ganga sem mest á háhæluðum skóm á meðan hún gæti. Því einn daginn yrði þessi litla gömul og þá gæti hún ekki leyft sér þann munað að prikast áfram á hælunum. Þessi ráð ömmu eru meitluð í stein og verður ekki haggað.

Elsku amma mín, takk fyrir mig!

Marta María Winkel Jónasdóttir.

Í hverfulli æsku var amma hlýjan í lífi mínu. Þar sem amma var, þar var hlýtt í öllum skilningi þess orðs. Hlýtt viðmót, hlý teppi, hlýr matur og hlý tónlist. Hjá ömmu var öryggi og yfirvegun og ekki síbreytilegar reglur. Amma ætlaðist ekki til neins nema kurteisi og stundvísi.

Á unglingsárunum var notalegt að heimsækja ömmu ein og spjalla við hana eða sitja með henni og prjóna. Hún var örlát á tímann sinn og vildi alltaf aðstoða án skilyrða.

Þegar ég fullorðnaðist tileinkaði ég mér matargerð ömmu: að elda með hjartanu frekar en fylgja uppskriftum. Þannig verða bestu réttirnir til og þannig mun ég ávallt minnast ömmunnar minnar.

Elsku amma, ég þakka fyrir stundirnar sem við áttum saman og vildi óska að ég og börnin mín hefðum haft betri aðgang að þér síðustu árin. Við fjölskyldan finnum enn hlýjuna sem þú gafst okkur, í hjartanu og í öllu sem þú prjónaðir handa okkur.

Áshildur.

Í dag er til hinstu hvílu lögð elskuleg amma eiginkonu minnar og alnafna, Marta María Jónasdóttir. Ég kynntist henni fyrst fyrir tæplega níu árum er ég og barnabarn hennar hófum samband. Ég varð þess fljótlega áskynja að þar var kona mikilla mannkosta og reynd af lífsins ólgusjó. Við ræddum reglulega gildi og helstu áskoranir mannlegs samfélags. Marta María Jónasdóttir var ekki aðeins skarpglögg heldur var hún jafnframt sérlega rík að kímnigáfu sem áberandi er hjá stórum hluta hennar aðstandenda. Mér er sérlega minnisstætt þegar ég upplýsti hana um að mér hefði nánast tekist að skrá mig í sambúð með henni þegar ég var að bindast alnöfnu hennar og barnabarni varanlegum böndum með hennar velþóknun í þjóðskrá. Hafði hún á orði að ég hefði betur gert það enda meira upp úr því að hafa.

Ég kveð Mörtu Maríu Jónasdóttur með virðingu, hlýju og kærleik og þakka henni fyrir allt það sem hún gerði fyrir nöfnu sína, eiginkonu mína. Það er ómetanlegt. Við hjónin getum því miður ekki verið viðstödd útförina vegna óvæntrar dagsetningar en munum minnast hennar í dag sem aðra daga og gerum okkur grein fyrir því hve stóru hlutverki hún gegndi í velferð afkomenda sinna.

Blessuð sé minning Mörtu Maríu Jónasdóttur.

Páll Winkel.

Tengdamóðir mín Marta María Jónasdóttir er látin.

Það var að hausti til árið 1982 sem ég hitti Mörtu tengdamóður mína í fyrsta sinn, hún tók mér opnum örmum og var ávallt góð við mig og mína. Það fór ekki á milli mála að þar var á ferðinni myndarleg, sjálfstæð og ákveðin kona. Bæði myndarleg húsmóðir, falleg kona og ávallt vel tilhöfð.

Helsta afþreying Mörtu var að sauma og prjóna. Hún prjónaði sokka, vettlinga, peysur eða það sem hentaði í það sinn fyrir fjölskyldumeðlimi, þó aðallega barnabörn og langömmubörn.

Það var alltaf notalegt að koma í matar- og kaffiboðin til tengdamóður minnar í Barmahlíð og í sveitina Selvík. Hún passaði vel upp á að enginn færi svangur heim enda var hún kokkur af guðsnáð og bakaði bestu kökur í heimi fram á síðasta dag, ég man sérstaklega eftir súkkulaðikökunni með piparmyntukreminu. Alltaf var hægt að treysta því að Marta töfraði fram glæsilegar kransakökur þegar stórveislur bar að í fjölskyldunni.

Marta hafði gaman af að ferðast um landið og naut sín vel í bílnum, þá leið henni eins og fuglinum fljúgandi. Ég dáðist að henni þegar hún var ennþá akandi um, komin yfir nírætt.

Marta bjó í Barmahlíðinni þegar ég kynntist henni og var svo heppin að heilsan leyfði henni að búa þar fram á síðasta dag.

Góðar og fallegar minningar á ég um tengdamóður mína og geymi ég þær í hjarta mínu.

Guð blessi minningu þína elsku Marta mín.

Ég minningar geymi, ég man þær og skil,

þær minna á vordagsins blessaðan yl.

Því syrgir minn hugur, ég sé þína mynd

í sólhýru blómi, í fjallanna lind.

Þá haustblærinn kaldur um heiðina fer

ég hlusta og vaki og bið fyrir þér

að veturinn hverfi, að vorsólin blíð

vermi þitt hjarta um ókomna tíð.

(Steinunn Þorbjörg Guðmundsdóttir)

Þín tengdadóttir,

Harpa.

• Fleiri minningargreinar um Mörtu Maríu Jónasdóttur bíða birtingar og birtast í blaðinu næstu daga.