Kynslóðir mætast „Mér finnst heillandi að sjá fólk dansa á öllum aldri, bæði atvinnudansara og áhugafólk.“
Kynslóðir mætast „Mér finnst heillandi að sjá fólk dansa á öllum aldri, bæði atvinnudansara og áhugafólk.“ — Ljósmynd/Axel Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árstíðirnar er splunkunýtt íslenskt dansverk í fjórum þáttum eftir þær Snædísi Lilju Ingadóttur og Valgerði Rúnarsdóttur en það verður frumflutt á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu á laugardaginn kemur, 13

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Árstíðirnar er splunkunýtt íslenskt dansverk í fjórum þáttum eftir þær Snædísi Lilju Ingadóttur og Valgerði Rúnarsdóttur en það verður frumflutt á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu á laugardaginn kemur, 13. janúar, klukkan 20. Í verkinu eru árstíðirnar fjórar; vetur, sumar, vor og haust, túlkaðar með dansi.

„Okkur Snædísi langaði að vinna með þessa eilífu hringrás árstíðanna. Enda er náttúran og hennar fjölbreytileiki, takturinn og mynstrin sem birtast í henni magnaður innblástur. Það er alltaf jafn heillandi að sjá náttúruna taka breytingum í árstíðaskiptum og eins að finna hvaða áhrif þessar breytingar hafa á mann sjálfan. Hver árstíð hefur sinn sjarma sem kveikir mismunandi í manni frá ári til árs,“ segir Valgerður til útskýringar, spurð að því hvernig hugmyndin að verkinu hafi kviknað. „Árstíðir Vivaldis og allir þeir ballettar sem samdir hafa verið við tónverkið hafa verið okkur hugleiknir en Áskell Harðarson vinnur tónlistina, þó Vivaldi sé ekki langt undan,“ bætir hún við.

Aðrir listrænir stjórnendur sýningarinnar eru Rebekka Austman Ingimundardóttir leikmyndahönnuður, Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir búningahönnuður og Katerina Blahutova ljósahönnuður.

Unnu með grunnskólabörnum víða um landið

Að sögn Valgerðar hafa þær Snædís unnið saman í mörg ár í fjölbreyttum verkefnum. „Snædís hefur meðal annars dansað í nokkrum af mínum verkum og aðstoðaði mig við gerð kvikmyndarinnar Abbababb en ég var danshöfundur hennar. Þá unnum við saman að verkefninu Derringur, en við hlutum styrk fyrir því einhvern tímann fyrir heimsafaraldur. Verkefnið var unnið með grunnskólabörnum víða um land, þar sem við buðum upp á dansvinnustofur og settum upp sýningar í kjölfarið. Þar var umfjöllunarefnið einmitt líka íslensk veðrátta og árstíðirnar, því má segja að nýja verkið okkar sé einhvers konar afsprengi af því. Þannig að þetta er orðið áralangt samband.“

Allir geta dansað

Valgerður segir mikla tilhlökkun ríkja fyrir frumsýningardeginum sjálfum og tekur fram að stefnt sé að fjórum sýningum. „Svo er aldrei að vita nema þær verði fleiri eða að verkið eigi sér framhaldslíf í einhverri mynd. Þetta er samstarfsverkefni, við erum að framleiða sýninguna ásamt Íslenska dansflokknum. Við erum með stóran hóp með okkur, bæði dansara frá Íslenska dansflokknum og Forward Youth Company, sem er hópur ungra áhugadansara en hópurinn hefur verið starfræktur í nokkur ár.“

Þá koma einnig tveir leikarar fram í dansverkinu, þau Harpa Arnardóttir og Árni Pétur Guðjónsson. „Mér finnst bara svo æðislegt að hafa þau í hópnum enda dásamlegir listamenn og flytjendur. Við erum kannski líka að reyna að brjóta niður þessar týpísku staðalímyndir af dansinum og sýna fram á að allir geta dansað. Einnig eru tvær níu ára stelpur með í sýningunni. Okkur langaði að hafa fólk á breiðu aldursskeiði í sýningunni sem endurspeglar jú lífið sjálft og þessa eilífu hringrás,“ segir Valgerður og bætir við að aldur dansarans hafi verið henni hugleikinn í langan tíma. „Það hefur verið svolítið viðloðandi dansinn að fólk hættir snemma en þetta er að breytast í dag og líftími dansarans er að lengjast. Gjarnan hafa dansarar verið að hætta á miðjum aldri, jafnvel á sínum besta aldri, og með því skolast öll sú reynsla af sjónarsviðinu. Mér finnst heillandi að sjá fólk dansa á öllum aldri, bæði atvinnudansara og áhugafólk.“

Tekur hún sem dæmi að hreyfingar dansara breytist auðvitað með árunum, eins og hreyfingar allra, en maður sé hins vegar aldrei of gamall til að dansa. „Atvinnudansarar komast ekki á síðasta söludag, frekar en annað fólk. Það er svo auðvitað alveg eðlilegt að sumir nenni þessu sprikli heldur ekki endalaust, tæknilega krefjandi vinna tekur líka sinn toll af líkamanum. Að því sögðu þá má þó aðlaga vinnuna breyttri getu líkamans og leggja áherslu á aðra þætti í sköpuninni en tæknilega flóknar útfærslur. Ég er orðin eins og heittrúuð talsmanneskja fyrir því að dansarar og fólk almennt dansi og hætti aldrei að dansa eða byrji að dansa,“ segir hún og hlær.

Fólkið skiptir öllu máli

Spurð að því hvort ekki sé erfitt að búa til svona langt og mikið dansverk frá grunni svarar Valgerður því til að allt snúist þetta um fólkið sem unnið sé með hverju sinni.

„Maður undirbýr sig vel, pakkar niður ákveðnum hugmyndum, tekur fram kortið og sjónaukann, finnur réttu ferðafélagana og svo er að treysta ferðalaginu. Ef maður villist gjörsamlega þá er alltaf hægt að taka upp kortið en stundum er líka gjöfult að dvelja í óvissunni og sjá hvað hún býður upp á. Ég er aldrei með fyrirfram gefið handrit en auðvitað einhverja ramma sem er mjög spennandi að taka lengra þegar maður fer svo að vinna með öðrum. Fólkið skiptir öllu máli, bæði aðrir listrænir stjórnendur og þeir sem flytja verkið, eins aðrir sem starfa í leikhúsinu. Það hljómar eflaust eins og algjör klisja en þetta er hópsport og er unnið í mikilli samvinnu,“ segir Valgerður. „Þetta er draumastaða að vera í sem danshöfundur, að fá Stóra sviðið í Borgarleikhúsinu, þetta tryllta svið með öllum sínum tæknilegu möguleikum og að sjá hugmyndir sínar raungerast með þessu magnaða fólki. Við erum bara að springa úr hamingju hérna.“

Algjör forréttindastaða

Sjálf er Valgerður nýkomin úr öðru ferli á sama sviði en hún er danshöfundur fjölskyldusýningarinnar Fíasól gefst aldrei upp sem sýnd er í Borgarleikhúsinu um þessar mundir.

„Það var líka algjört draumaferðalag með yndislegu fólki en allt öðruvísi, þar er jú handrit sem setur mann auðvitað strax í einhverjar aðstæður með karakterum o.s.frv. Það var mikil og gefandi vinna sömuleiðis og þetta er auðvitað algjör forréttindastaða að vera í, það að geta unnið við svona fjölbreytt verkefni við listsköpun sína. Ég þrífst á því að fara á milli verkefna, bæði að stýra ólíkum verkefnum sem danshöfundur og að taka þátt í samsköpun með öðrum og að dansa í verkefnum hjá öðrum. Það er svo gott að breyta til finnst mér, rétt eins og það er gott að fara á milli árstíða í hinni eilífu hringrás,“ segir Valgerður og bætir að lokum við að alltaf sé gott að fara inn í haustið eftir langt og gott sumar. „Svona rétt eins og spennan sem fylgir því að taka á móti vorinu og sjá fræ spíra og verða að plöntu.“