Magni R. Magnússon
Magni R. Magnússon
„En hvað ef ég opna reikning hjá ykkur, legg inn það sem ég tók út úr hraðbankanum ykkar?“

Magni R. Magnússon

Ég vil segja frá sérkennilegri reynslu sem ég varð fyrir í lok nóvember.

Ég lenti í því að þurfa á sjúkrabíl að halda og fékk 100% þjónustu hjá Rauða krossinum. Reikningur var sendur frá Sjúkrasjóði Rauða krossins.

Þar sem ég bý á Laugarnesvegi og er bíllaus en Landsbanki Íslands er í göngufæri frá heimili mínu fór ég í Landsbankann, sem er til húsa í Borgartúni. Ég fór í hraðbanka þar og tók út kr. 10.000 til að greiða reikninginn hjá gjaldkera. Eftir smá bið kemur röðin að mér. Ég rétti elskulegum gjaldkera reikninginn og seðla, en þá spyr gjaldkerinn: „Átt þú reikning hjá Landsbankanum?“

Ég svara neitandi. „Þá getur þú ekki greitt þennan reikning hér.“ Ég spyr þennan kurteisa gjaldkera hvort íslenskir peningar séu ekki gildir hjá þeim og hvort ég geti þá greitt með kreditkorti. „Já,“ svarar gjaldkerinn.

Ég tek upp kreditkortið, hið sama og ég var að taka peningana út á, og rétti gjaldkeranum. „Æ, æ,“ segir gjaldkerinn. „Þetta kort er ekki gefið út af Landsbankanum og þess vegna get ég ekki tekið það.“ Þá segi ég að um miðja síðustu öld hafi ég unnið í um tíu ár í Landsbankanum og átti reikning þar, en við hrunið var öllum reikningum þar lokað. Það var því ekki von að hún fyndi reikning á mínu nafni í Landsbankanum. „En hvað ef ég opna reikning hjá ykkur, legg inn það sem ég tók út úr hraðbankanum ykkar?“ Gjaldkerinn athugar málið og sér að það ætti að vera í lagi. Ég er látinn fá langan lista að fylla út þar sem bankinn óskar eftir upplýsingum um mig áður en hægt er að opna reikning í mínu nafni.

Þá kemur lokaspurning. „Hvaðan koma peningarnir sem þú ert að leggja inn?“

Mitt svar: „Þeir eru úr hraðbanka ykkar og ég tók þá út úr honum fyrir u.þ.b. 25 mínútum.“

Þetta var loksins samþykkt og ég gat greitt Rauða krossinum reikninginn. Nú er spennandi hvort ég fæ afgreiðslu í „banka allra landsmanna“ ef ég kem í Borgartúnsútibúið.

Höfundur er íbúi í Laugarneshverfi og fv. verslunareigandi.