Vélin tilbúin Hér er verið að undirbúa flugferð Súlunnar frá Steinbryggjunni í Reykjavík sumarið 1928. Fjöldi manns fylgdist með Súlunni eins og alltaf.
Vélin tilbúin Hér er verið að undirbúa flugferð Súlunnar frá Steinbryggjunni í Reykjavík sumarið 1928. Fjöldi manns fylgdist með Súlunni eins og alltaf. — Ljósmynd/Magnús Ólafsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1928 Var þá afráðið, að einn farþega yrði að hætta við ferðina og varð að samkomulagi að Maggi Magnús frestaði förinni. Árni Óla blaðamaður

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Morgunblaðið var sex ára gamalt þegar flugvél lyfti sér frá íslenskri grund í fyrsta skipti árið 1919. Blaðið hefur alla tíð haft áhuga á framgangi flugmála á Íslandi, eins og glögglega má sjá þegar blaðinu er flett í gegnum áratugina. Fyrsta farþegaflugið milli Reykjavíkur og Akureyrar var mánudaginn 11. júní 1928. Blaðamaður Morgunblaðsins var meðal farþega, Árni Óla.

Mikilvægt þótti að hafa tíðindamann Morgunblaðsins með í för til að skrásetja þennan merka atburð þegar beint flug hófst milli höfuðborgarinnar og höfuðstaðar Norðurlands. Gefum Árna Óla orðið:

„Í gær byrjaði flugfjelagið á farþegaflugi. Fór Súlan hjeðan tií Akureyrar og til baka aftur. Fjórir farþegar ætluðu að taka sjer far, ungfrú Sesselja Fjeldsted, Maggi Júl. Magnús læknir og blaðamennirnir Árni Óla og Skúli Skúlason. En er flugmennirnir ætluðu að hefja sig til flugs hjeðan af ytri höfninni, reyndist vjelin of þung, og gat ekki náð flugi. Var þá afráðið, að einn farþega yrði að hætta við ferðina og varð að samkomulagi að Maggi Magnús frestaði förinni. En mælt er, að það sje bensíni því að kenna, sem flugmenn fá hjer, að snúningshraði skrúfunnar getur ekki orðið eins mikill og þarf til þess að flugan lyftist með því fullfermi, sem henni er annars ætlað.

Veðurútlit var ekki sem best á Norðurlandi í gærmorgun, dimmviðri og norðanátt, og var því eigi fullráðið hvort fljúga skyldi um Breiðafjörð og Húnaflóa eða til Ísafjarðar og þaðan til Norðurlands.

Kl. 11½ var lagt upp hjeðan af ytri höfninni. Er flugan var komin norður undir Snæfellsnes, sáu flugmenn að bjart var orðið norður yfir Húnaflóa, og ákváðu þeir þá að fara stystu leið. Yfir hálsinn milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar kom snöggvast á þá þoka, en bjart veður er á Húnaflóa kom. Var flogið yfir Skaga í 1700 metra hæð, yfir þveran Skagafjörð norður um Siglunes, inn Eyjafjörð, í góðu veðri. Kl. 3 var sest á Akureyrarpolli.

Eftir rúml. 2 klst. töf á Akureyri, var lagt upp aftur. Ungfr. Sesselja Fjeldsted varð eftir nyrðra. Ingvar Guðjónsson tók sjer far með flugunni til Siglufjarðar í bakaleið, en í sæti hans kom Guðm Skarphjeðinsson frá Siglufirði og hingað. Var ½ klst. dvöl á Siglufirði. En kl. 8¾ var Súlan sest á Reykjavíkurhöfn.

Er þetta í fyrsta sinni sem farið er fram og aftur á einum degi milli Suður og Norðurlands.“

Í minningabók sinni Erill og ferill blaðamanns segir Árni Óla að vandræðin með bensínið hafi sér þótt leiðinlegur fyrirborði. Væru farþegarnir í hættu ef flugvélin skyldi hreppa snarpan mótvind? „En þessar hughræringar gleymdust brátt er flugvélin var komin á loft, því gaman var að fljúga í fyrsta sinn,“ skrifaði Árni. Flugmaður í þessari ferð hét Simon og vélamaðurinn hét Wind.

Eins og risavaxinn fugl

Morgunblaðið var einnig á vettvangi þegar flugvél tók á loft í fyrsta sinn á Íslandi. Þetta var klukkan fimm síðdegis hinn 3. september 1919 í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Flugvélin, sem var eign Flugfélags Íslands (1) og alveg ný, var af breskri gerð, Avro 504K, sem var tvívængja með 110 ha. Le Rhöne-mótor. Flugmaðurinn var kapteinn Cecil Faber.

Daginn eftir birtist eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu. Væntanlega hefur Árni Óla skrifað þessa frétt, eini starfandi blaðamaður blaðsins:

„Fyrsta flugið á Íslandi. Capt. Faber flaug tvisvar í gær.“ Svo segir: „En um kl. 5 í gær (3. sept.) gerðist óvæntur atburður suður á Flugvelli. Reynsluflugið var ákveðið þá strax, og án þess að nokkur vissi, ók Faber vélinni út á völl, settist við stýrið og renndi af stað. Vélin rann nokkra tugi faðma niður eftir túninu, eins og álft sem flýgur upp af vatni, og loks losnaði hún frá jörðu og smáhækkaði. Hljóðið frá mótornum heyrðist inn í bæinn og menn fóru að skima í kringum sig. Og allir, sem skimuðu, ráku augum í það sama: vélin leið áfram um loftið eins og risavaxinn fugl, stöðugri en nokkur vagn á rennsléttum vegi, sneri sér krappar beygjur og tyllti sér eftir dálitla stund aftur á grassvörðinn.“

Og ekki var lýsingin á síðari flugferð dagsins tilkomuminni. Fólkið horfði á vélina fullt eftirvæntingar. Og þegar hún losnaði við jörðina dundi við lófaklapp allra og köll margra. Enda hafði fólkið aldrei séð flugvél á flugi áður. Árni segir að hestarnir á næsta túni hafi horft á þetta furðuverk og einn hundur ætlaði að tryllast.

Flugfélag Íslands stóð fyrir flugsýningum og útsýnisflugi með farþega í tvö sumur, en var lagt niður á árinu 1920 og flugvélin seld. Sumarið 1920 var flugmaður vélarinnar Vestur-Íslendingur að nafni Frank Fredericksen.

Flugfélag Íslands, numer tvö í röðinni, var stofnað í Reykjavík 1. maí 1928. Flugfélagið tók á leigu flugvélar frá Þýskalandi ásamt áhöfnum. Fyrsta flugvélin var af gerðinni Junkers F.13 og bar einkennisstafina D-463. Fjórar Junkers-vélar voru notaðar til farþegaflugs, póstflutninga og síldarleitar á Íslandi á árunum 1928 til 1931, þó aldrei nema tvær í einu. Þrjár þeirra voru af gerðinni Junkers F.13 og ein af gerðinni Junkers W.33d. Vélarnar báru íslensk nöfn; Súlan, Veiðibjallan og Álftin.

Helsti hvatamaður að stofnun Flugfélags Íslands 1928 var Alexander Jóhannesson (1888-1965). Hann var prófessor og doktor í málvísindum og þrívegis rektor Háskóla Íslands. Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók, sem er rétt hjá fæðingarstað Alexanders á Gili, heitir eftir honum.

Sumarið 1926 kynntist hann þýskum flugfræðingi, Siegert að nafni. Sá kom honum í samband við þýska flugfélagið Lufthansa, hið stærsta í heimi. Komst þá skriður á málin og fyrir atbeina Alþingis komst málið á beinu brautina.

„Ég hefi sjálfur óbifandi trú á framgangi þessa máls, meðal annars vegna þess að æskulýður landsins stendur að því,“ sagði Alexander í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið sumarið 1928.

Sumarið 1928 flaug Súlan margar ferðir með farþega vítt og breitt um landið. Þá var flugvélin einnig notuð við síldarleit út af Norðurlandi. Lengsta flugferðin var 1.200 kílómetrar á einum degi.