Anna Hrefna Ingimundardóttir
Anna Hrefna Ingimundardóttir
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, veltir fyrir sér auðlegð þjóðanna í pistli í Viðskiptablaðinu. Hún bendir á að Ísland sé í fremsta flokki þjóða að þessu leyti og að ávinningurinn hafi skilað sér til almennings enda sé jöfnuður hvergi meiri. Þá nefnir hún að ríkulegar náttúruauðlindir hafi ekki dugað þjóðum til að tryggja auðlegð, þær hafi orðið mörgum böl vegna spillingar og blóðugra átaka.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, veltir fyrir sér auðlegð þjóðanna í pistli í Viðskiptablaðinu. Hún bendir á að Ísland sé í fremsta flokki þjóða að þessu leyti og að ávinningurinn hafi skilað sér til almennings enda sé jöfnuður hvergi meiri. Þá nefnir hún að ríkulegar náttúruauðlindir hafi ekki dugað þjóðum til að tryggja auðlegð, þær hafi orðið mörgum böl vegna spillingar og blóðugra átaka.

Hún rifjar upp að ekki sé ýkja langt síðan Argentína var „glæst efnahagslegt veldi. Landsframleiðsla á hvern íbúa landsins, sem byggði á útflutningi fjölbreyttra landbúnaðarafurða, var ein sú mesta í heimi. Í dag er landsframleiðsla á mann ríflega fimmfalt meiri á Íslandi en í Argentínu.“

Skýringin á þessum umskiptum sé stjórnarfar: „Hnignunin átti sér heldur ekki stað á einni nóttu. Frá hátindi efnahagslegs ferils síns hefur saga Argentínu einkennst af röð alvarlegra hagstjórnarmistaka sem fólust í ofurtrú á ríkisvaldið, miðstýringu og verndarhyggju sem leiddu til óðaverðbólgu og óhóflegrar skuldsetningar. Ekki hefur enn tekist að vinda ofan af þessum mistökum. Afleiðingin er efnahagslegur og mannlegur harmleikur.“

Loks segist hún ekki vera að spá því að eins fari fyrir Íslandi og Argentínu, en bendir á að efnahagsstefna skipti máli. Það er þörf áminning.