Ferðamenn Fleiri munu sækja landið heim ef spár ganga eftir.
Ferðamenn Fleiri munu sækja landið heim ef spár ganga eftir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Því er spáð að 2,4 milljónir ferðamanna komi til landsins á þessu ári og framreiknað til ársins 2030 gæti sá fjöldi farið yfir 3 milljónir. Þetta kom fram á fundi Ferðamálastofu sem haldinn var í gær þar sem kynntar voru nýjar spár um fjölda…

Því er spáð að 2,4 milljónir ferðamanna komi til landsins á þessu ári og framreiknað til ársins 2030 gæti sá fjöldi farið yfir 3 milljónir. Þetta kom fram á fundi Ferðamálastofu sem haldinn var í gær þar sem kynntar voru nýjar spár um fjölda ferðamanna, eyðslu þeirra hér á landi, fjölda gistinátta og meðaldvalartíma á næstu árum. Spárnar eru unnar af Intellecon fyrir Ferðamálastofu en dr. Gunnar Haraldsson hjá Intellecon greindi frá hvernig þróun á þessum lykilstærðum ferðaþjónustunnar verður til ársins 2030.

Spár fyrir þetta ár benda til að ferðamenn muni eyða 143 þús.kr. að meðaltali hér á landi og heildareyðslan verði 350 ma.kr., sem er töluverð aukning frá því í fyrra. Ferðamenn komi til með að gista að meðaltali í 3,4 nætur á þessu ári og heildarfjöldi gistinátta verði ríflega 8,3 milljónir, sem er einnig töluverð aukning frá því á síðasta ári. Gunnar tók það fram í fyrirlestri sínum að sér þætti það vera áhugavert að hröð aukning í fjölda ferðamanna hefur alla jafna skilað sér í færri gistinóttum að meðaltali og að lækkandi meðaleyðsla á hvern ferðamann, sem Intellecon sér í gögnum sínum, fari saman við styttri dvalartíma.

Spár gefa einnig til kynna vaxandi fjölgun ferðamanna samhliða meiri eyðslu þeirra til ársins 2030, með þeim fyrirvörum að forsendur í ferðaþjónustu gætu breyst snögglega. Til að mynda vegna eldsumbrota á Reykjanesi eða stríðsátaka í Mið-Austurlöndum. Ákvarðanir ferðaþjónustuaðila og stjórnvalda muni hafa áhrif á framþróun ferðaþjónustunnar, með tilliti til fjárfestinga í innviðum og markaðssetningar erlendis. arir@mbl.is