Vélbar Vélbarþjónninn Adam frá Richtech Robotics hefur nóg að gera við að blanda drykki fyrir gesti í Las Vegas.
Vélbar Vélbarþjónninn Adam frá Richtech Robotics hefur nóg að gera við að blanda drykki fyrir gesti í Las Vegas. — AFP/Frederic J. Brown
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gervigreindin er í aðalhlutverki á árlegri raftækjasýningu, CES, í Las Vegas í Bandaríkjunum, sem opnuð var í vikunni. Um 3.500 fyrirtæki sýna þar vörur sínar og búist er við um 130 þúsund gestum sem vilja kynna sér nýjustu tæknina á neytendamarkaði

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Gervigreindin er í aðalhlutverki á árlegri raftækjasýningu, CES, í Las Vegas í Bandaríkjunum, sem opnuð var í vikunni. Um 3.500 fyrirtæki sýna þar vörur sínar og búist er við um 130 þúsund gestum sem vilja kynna sér nýjustu tæknina á neytendamarkaði.

Sjálfvirkir barnavagnar, naglalakkari, barvélmenni, gleraugu fyrir lesblinda, skór sem ganga sjálfir, gegnsæir sjónvarpsskjáir og nýjasta gervigreindartækni í bílum er meðal þess sem sjá má á CES-sýningunni.

„Heimurinn er á sögulegum tímamótum vegna gervigreindar,“ sagði William Cho, forstjóri suðurkóreska tæknifyrirtækisins LG, á blaðamannafundi í Las Vegas. LG, Samsung og fleiri fyrirtæki sýna nýjustu sjónvarpstæknina, meðal annars gegnsæja sjónvarpsskjái sem koma væntanlega á markað síðar á árinu en skjáirnir verða nánast ósýnilegir þegar slökkt er á þeim.

Jessica Boothe, framkvæmdastjóri hjá Consumer Technology Association sem skipuleggur CES-sýninguna, segir að sjónvörp muni tengja heimilistækitæki, öryggismyndavélar og jafnvel skanna sem geta fylgst með heilsufari fólks. „Við munum sjá sjónvarpið verða stjórnstöð heimilisins,“ sagði hún.

Snyrtivöruframleiðendur eru í óðaönn að taka gervigreind í þjónustu sína. L'Oreal kynnir á sýningunni Beauty Genius; app þar sem notendur geta mátað vörur í sýndarveruleika, fengið ráðgjöf við snyrtingu og svör við spurningum um vandamál svo sem bólur og hárlos. L'Oreal frumsýndi einnig hárþurrku sem lagar sig að hárgerðum og dreifir hita með sjálfvirkum hætti og hárlitunartæki sem notar litahylki.

Þá er á sýningunni handsnyrtitæki sem er sagt vera fyrsta tækið sem sameini gervigreind og flókna sjálfvirknitækni til að lakka neglur með fullkomnum hætti. Tækið, sem minnir á stóran prentara, getur lakkað allar tíu neglurnar á höndunum og þurrkað þær síðan á 25 mínútum.

Tækni tengd heilsufari er einnig áberandi. M.a. kynnir fyrirtækið NuraLogix tæki sem skannar andlit með aðstoð gervigreindar og mælir blóðþrýsting, hlutfall líkamsfitu og streitu.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson