Á Boðnarmiði yrkir Benedikt Jóhannsson um nýársheit: Ég hástemmd nýárs heit ei strengi, þau halda jafnan ekki lengi, þó held ég yrði huga léttir að hlusta aðeins minna' á fréttir. Magnús Halldórsson um stjórnarheimilið: Allir treysta öllum þar, engum þarf að hygla

Á Boðnarmiði yrkir Benedikt Jóhannsson um nýársheit:

Ég hástemmd nýárs heit ei strengi,

þau halda jafnan ekki lengi,

þó held ég yrði huga léttir

að hlusta aðeins minna' á fréttir.

Magnús Halldórsson um stjórnarheimilið:

Allir treysta öllum þar,

engum þarf að hygla.

Enginn gefur einlægt svar.

(Ætli þar sé mygla)

Gunnar Hólm Hjálmarsson útskýrir:

Ýmsir telja afsögn skjól

eða litlu breyti.

Alltaf má fá annan stól

og annað ráðuneyti

Magnús Halldórsson yrkir:

Tæpast neinn á taugum fer,

ef titli enga sviptum.

Flóttaleiðin fundin er

og felst í stólaskiptum.

Jón Atli Játvarðarson skrifar: Það er einhver þrautakóngur í spilastokk þingmanna til að þeir hlakki meira til endurkomu sinnar á Alþingi eftir óþægilega langt jólahlé:

Umbi er faglegur, alls enginn glanni,

allur samt þingheimur volandi.

Svandís braut víst á brothættum manni,

sem beinlínis var ekki þolandi.

Magnús Halldórsson vitnar í fréttir um að Suður-Kórea hafi bannað framleiðslu á hundakjöti:

Með Svandísi þar svotla stund,

að sönnu væri fengur,

ef súran hval og saltan hund,

þar selja má ei lengur.

Ingunn Björnsdóttir hélt áfram:

Svandís gæti gefið þeim

góða spyrðu af rengi.

Síðan aftur haldið heim

og hundum fagnað lengi.

Kristján H. Theodórsson yrkir:

Hriktir í og hreysið skekið,

hrútar lausir krónni í.

Eftir verður eflaust tekið,

upp mun rísa stjórnin ný.

Limran Tálsýnir eftir Eyjólf Óskar Eyjólfsson:

Menn ruddust með fjármagnsins fána

og studdu svo krossmenn og kjána

og fundu með hryggð

undir hamri og sigð

að hugmyndir eldast og þrána.

Öfugmælavísan:

Séð hef ég kýrnar vinda voð,

veiðibjöllu steikja roð,

lóminn þamba sjóðheitt soð,

selinn eta úr básum moð.