Háifoss Stórbrotið umhverfi þar sem til stendur að bæta aðstöðu, enda ljóst að ferðamönnum sem á þennan stað koma mun fjölga mikið í framtíðinni.
Háifoss Stórbrotið umhverfi þar sem til stendur að bæta aðstöðu, enda ljóst að ferðamönnum sem á þennan stað koma mun fjölga mikið í framtíðinni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fjölmargir eftirsóttir ferðamannastaðir á Íslandi hafa orðið til fyrir tilviljun. Þegar fjöldinn er orðinn alltof mikill er byrjað að bregðast við, mjög oft alltof seint. Sú uppbygging sem er fram undan í Þjórsárdal er einstök, þar sem…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fjölmargir eftirsóttir ferðamannastaðir á Íslandi hafa orðið til fyrir tilviljun. Þegar fjöldinn er orðinn alltof mikill er byrjað að bregðast við, mjög oft alltof seint. Sú uppbygging sem er fram undan í Þjórsárdal er einstök, þar sem sameinast verður um að vernda náttúru og byggja upp innviði,“ segir Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Þess er vænst að umhverfisráðherra undirriti á næstunni þá stjórnar- og verndaráætlun fyrir Þjórsárdal sem fyrir liggur. Þar eystra sér heimafólk dalinn fyrir sér sem land tækifæra í ferðaþjónustu, það er ef búið verði í haginn og aðstaða þar bætt. Svæðið er fjölsótt í dag, enda í alfaraleið þegar leið fólks liggur til dæmis í Landmannalaugar, Veiðivötn eða um Sprengisandsleið þvert yfir landið.

Einstakur metnaður

Fyrir um áratug var svo farið að búa í haginn fyrir uppbyggingu á þessu svæði, það var árið 2014 að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfesti rammaskipulag fyrir Þjórsárdal með áherslu á að þar yrði byggð upp ferðaþjónusta og útivist. Sérstaklega var horft til þess reits í dalnum sem heitir Reykholt. Þar var gömul sundlaug sem var byggð á sama tíma og Búrfellsvirkjun en hafði verið dæmd ónýt þegar hér var komið sögu.

Þegar skipulagsmálin voru í höfn auglýsti sveitarfélagið eftir einhverjum sem vildu byggja upp ferðaþjónustu við Reykholt í Þjórsárdal og þar komu inn í myndina félagið Rauðukambar ehf. Allt er nú í höfn varðandi uppbyggingu við Reykholt og framkvæmdir þar eru hafnar. Þar verða Fjallaböðin byggð inn í fjallið Rauðukamba ásamt 40 herbergja hóteli.

„Sá metnaður sem hefur verið hafður að leiðarljósi við uppbyggingu Fjallabaðanna er einstakur á Íslandi,“ segir Haraldur Þór. Að koma upp gestastofu fyrir Þjórsárdal segir hann hafa verið lengi í deiglunni og sveitarfélagið unnið að því í langan tíma. Að slík aðstaða verði tengd Fjallaböðunum sé líka mjög ákjósanlegt; en stofunni hefur verið fundinn staður við svonefndan Selhöfða í mynni dalsins. Skipulag fyrir svæðið gerir ráð fyrir að baðgestir leggi bílum sínum við gestastofuna og verði svo fluttir þaðan á rafmagnsbílum í Fjallaböðin. Með slíku verður hægt að stýra umferð um svæðið og halda umhverfisálagi í hófi.

Dalurinn verði í umsjón sveitarfélagsins

Rauði þráðurinn í því sem fram undan er í Þjórsárdal er að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafi með höndum vernd og umsjón svæðisins, enda verði samið við Umhverfisstofnun á þá lund. „Ég tel mikilvægt að náttúruperlur eins og Þjórsárdalurinn verði undir stjórn sveitarfélagsins og dagleg umsjón í höndum heimamanna. Ég tel að það sé lykilatriði í að vel takist til að uppbyggingin efli samfélagið og styrki byggðina. Það eru mikil tækifæri í að nýta svæðið á ábyrgan hátt til atvinnusköpunar,“ tiltekur Haraldur Þór Jónsson.

Á fyrstu öldum eftir landnám var í Þjórsárdal blómleg byggð, sem svo tók af í vikurfalli því sem fylgdi Heklugosi árið 1104. Svæðið komst aftur í þjóðbraut með byggingu Búrfellsvirkjunar um 1970.

Stöng, Fossárdalur og hálendisbrúnin

Til að styrkja ferðamannasvæðið Þjórsárdal í sessi segir sveitarstjórinn að margt þurfi að gera; svo sem að koma upp salernisaðstöðu og leggja göngustíga svo sem við Hjálparfoss og víðar í Þjórsárdal. Bæjarrústirnar á Stöng voru grafnar úr vikri árið 1939 og seinna voru reistar yfir þær burstir sem nú eru orðnar feysknar. Nú verður reist yfir þær veglegri bygging og eru þær framkvæmdir hafnar. Nærri Stöng er Gjáin; friðlýst svæði sem er gróið dalverpi þar sem á rennur í gegnum og af sprettur hvönn og fleira fallegt. Einnig er horft til framkvæmda sem nauðsynlegar eru í Fossárdal sem gengur inn af Þjórsárdal. Innst í honum er hinn 122 metra Háifoss sem þar fellur fram af hálendisbrúninni.

„Háifoss er annar hæsti foss landsins og afar tilkomumikill að sjá. Að honum liggur slóði af svonefndum Línuvegi sem er ofan við Þjórsárdalinn. Þetta er leið sem þarf að bæta og svo verður líka að koma upp útsýnispalli við fossinn og bæta öryggismálin þar. Og þá verður að taka málin í stórt samhengi; innheimta bílastæðagjalda er framtíðin en með slíku fást tekjur sem fjármagnað geta nauðsynlegar framkvæmdir í Þjórsárdal,“ segir Haraldur Þór Jónsson að síðustu.