Núna Suðurver er tveggja hæða hús. Verslanir og þjónustustarfsemi er að finna á jarðhæðinni.
Núna Suðurver er tveggja hæða hús. Verslanir og þjónustustarfsemi er að finna á jarðhæðinni. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk eiganda verslunarmiðstöövarinnar Suðurvers, á horni Kringlumýrarbrautar og Hamrahlíðar, um leyfi til að byggja tvær hæðir ofan á húsið. Grenndarkynna á umsókn um nýtt deiliskipulag fyrir lóðina, ákveði lóðarhafi að sækja um það. Eftir stækkun yrði heildarstærð hússins 4.983,9 fermetrar og nýtingarhlutfall á lóð 2.18.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk eiganda verslunarmiðstöövarinnar Suðurvers, á horni Kringlumýrarbrautar og Hamrahlíðar, um leyfi til að byggja tvær hæðir ofan á húsið. Grenndarkynna á umsókn um nýtt deiliskipulag fyrir lóðina, ákveði lóðarhafi að sækja um það. Eftir stækkun yrði heildarstærð hússins 4.983,9 fermetrar og nýtingarhlutfall á lóð 2.18.

Suðurver er tveggja hæða hús sem stendur á lóðinni Stigahlíð 45-47. Í fyrirspurn til Reykjavíkurborgar er spurt hvort heimilað verði að byggja tvær hæðir ofan á það og koma þar fyrir 12 íbúðum og skrifstofuhúsnæði, þvottahúsum fyrir íbúðir og sameiginlegu dvalarsvæði á svölum efstu hæðar.

Ennfremur að setja upp lyftu sem tengir allar hæðir hússins, breyta innréttingum í kjallara og koma þar fyrir sameiginlegri hjóla- og vagnageymslu fyrir íbúðir og koma fyrir skrifstofum í stað iðnaðarbakarís í suðurhluta 2. hæðar hússins. Loks að bæta og breyta fyrirkomulagi á lóð með gróðri og koma fyrir hjólastæðum og bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.

Verslunarmiðstöðin Suðurver var reist árið 1964. Húsið er steinsteypt með burðarvirki úr steyptum súlum og stálsúlum fylltum steypu. Birt stærð hússins er 2.898,3 fermetrar, þar af eru um 900 m2 í kjallara. Margskonar starfsemi er í húsinu í dag, iðnaðarbakarí þar sem bakað er fyrir kaffihús og bakarí Bakarameistarans víða á höfuðborgarsvæðinu, kaffihús/bakarí, veitingastaður (Kjúklingastaðurinn), verslanir (Krambúðin og lyfjabúð) og ýmiss konar þjónustustarfsemi. Komið er að viðhaldi hússins að utan sem innan og styttist í að iðnaðarbakarí Bakarameistarans flytji úr Suðurveri, að því er fram kemur í umsögn arkitektastofunnar Gláma-Kím fyrir hönd húseigenda.

Lóðin Stigahlíð 45-47 er skráð 2.282,2 fermetrar. Á lóðinni sjálfri eru 36 bílastæði, en á spildu við hlið lóðar eru 26 bílastæði sem nota má um óákveðinn tíma, sbr. samþykki borgarráðs frá 1983. Á bílastæðalóð handan Hamrahlíðar eru 20 stæði til viðbótar. Samtals eru því 82 bílastæði til afnota fyrir lóðina.

Skilgreint sem hverfiskjarni

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur er Suðurver skilgreint sem hverfiskjarni. Einn af fyrirhuguðum meginásum borgarlínu liggur um Kringlumýrarbraut austan við lóðina. Stigahlíð 45-47 er innan 300 metra jaðars frá þungamiðju borgarlínu við Kringlu og innan áhrifasvæðis almenningssamgangna.
Í greinargerð umsækjanda kemur fram að uppbygging á lóðinni Stigahlíð 45-47 falli ákaflega vel að markmiðum og leiðarljósi gildandi aðalskipulags Reykjavíkur. Markmið þess séu að skapa sjálfbær og heilbrigð borgarhverfi þar sem allir félagshópar hafa tækifæri til búsetu.

Þróaðar verði sterkar hverfisheildir sem standi undir grunnþjónustu, öflugri verslun og þjónustu, íþrótta- og frístundastarfsemi og fjölbreyttu mannlífi. Atvinnutækifærum innan hverfa verði fjölgað og atvinnukjarnar í grennd við einsleit íbúðahverfi verði styrktir.

Fram kemur í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að fyrirspyrjandi lagði inn umsókn um byggingarleyfi árið 2017 um einnar hæðar ofanábyggingu sem var grenndarkynnt. Athugasemdir sem bárust voru einkum út af aukinni umferð og auknu skuggavarpi á aðliggjandi lóðir. Í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum var lagt til að umsókninni yrði hafnað vegna áhrifa skuggavarps á lóð til norðurs.

Nýjustu tillöguuppdrættir Glámu-Kím sýni mun grænna yfirbragð en fyrri tillögur. Hellulagt svæði með gegndræpu yfirborði, trjám, blómabeðum og hjólastæðum sé næst húsi. Við suðurenda að Hamrahlíð er gert ráð fyrir setsvæði enda sólríkasti og skjólbesti hluti lóðarinnar.

Við norðurenda hússins verði komið fyrir djúpgámum í góðum tengslum við aðalinngang á efri hæðir hússins. Bílastæði næst Kringlumýrarbraut verða með gegndræpu og grænu yfirborði. Á útidvalarsvæði fyrir íbúðir á efstu hæð er gert ráð fyrir blómakerjum og lagt er til að þak hússins verði þökulagt til að bæta hljóðvist í íbúðum.

Með tillögunni fylgi ítarlegar skuggavarpsmyndir. Af þeim megi ráða að skuggavarp hafi lítil áhrif. Verkefnastjórinn tók jákvætt í tillöguna og skipulagsfulltrúinn samþykkti umsögn hans.