Dýrð í dauðaþögn Bríet kom lagi Ásgeirs Trausta aftur á vinsældalista.
Dýrð í dauðaþögn Bríet kom lagi Ásgeirs Trausta aftur á vinsældalista. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flowers – Miley Cyrus Heilalímið Flowers sem er valdeflandi popplag var eitt vinsælasta lag heims á síðasta ári. Talið er að Miley hafi samið það til fyrrverandi eiginmanns síns, Liams Hemsworth, en þau skildu árið 2020

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Flowers – Miley Cyrus

Heilalímið Flowers sem er valdeflandi popplag var eitt vinsælasta lag heims á síðasta ári. Talið er að Miley hafi samið það til fyrrverandi eiginmanns síns, Liams Hemsworth, en þau skildu árið 2020. Miley gaf lagið út fyrir um ári, á afmælisdegi Liams.

Klisja – Emmsjé Gauti

Rapparinn íslenski Emmsjé Gauti á tvö lög á vinsældalista K100. Lagið Klisju frumflutti hann á brúðkaupsdegi sínum í ágúst á síðasta ári fyrir konu sína Jovönu og gesti.

Forget Me – Lewis Capaldi

Lagið Forget Me með skoska söngvaranum Lewis Capaldi var vinsælasta lag hans af plötunni Broken by Desire to be Heavenly Sent. Árið 2022 opnaði Lewis sig um að hann hefði greinst með taugasjúkdóminn tourette og hefur þurft að aflýsa tónleikum og taka sér hlé frá tónlistinni vegna þess.

Eyes Closed – Ed Sheeran

Ballaðan Eyes Closed kom út á vormánuðum 2023 og var fljót upp alla vinsældalista heims eins og flest lög sem Ed Sheeran gefur út. Fyrstu drög lagsins urðu til árið 2018 en það var gefið út í fyrra. Texti lagsins fjallar að miklu leyti um vin Ed, Jamal Edwards, sem lést af of stórum skammti eiturlyfja.

Dýrð í dauðaþögn – Bríet og Ásgeir Trausti

Söngkonan Bríet söng eitt vinsælasta lag Ásgeirs Trausta, Dýrð í dauðaþögn, og gerði það að sínu. Lagið sló í gegn á K100.

Dance The Night – Dua Lipa

Popp- og danslagið Dance The Night var titillag einnar vinsælustu kvikmyndar síðasta árs, Barbie, svo það kemur ekki á óvart að lagið hafi fljótt orðið vinsælt um heim allan. Ísland varð ekki út undan þar.

I’m Good (Blue) – David Guetta og Bebe Rexa

Lagið I’m Good (Blue) er mjög líkt laginu Blue (Da Ba Dee) með Eiffel 65 frá árinu 1998 sem varð gríðarlega vinsælt. Þessi útgáfa var tekin upp og blönduð fyrir mörgum árum en fékk litla athygli, það var ekki fyrr en Bebe Rexha söng aftur inn á lagið og það fór á flug á samfélagsmiðlinum TikTok að það fór að heyrast í útvarpi um allan heim.

Þúsund hjörtu – Emmsjé Gauti

Annað lag rapparans á listanum er Þúsund hjörtu sem var Þjóðhátíðarlag síðasta árs. Lagið þótti vel heppnað og var vel tekið undir þegar Emmsjé Gauti flutti það í Herjólfsdal.

Hold Me Closer – Elton John og Britney Spears

Endurútgáfur voru vinsælar á síðasta ári en þessi þótti áhugaverð. Britney Spears og Elton John tóku upp lagið Hold Me Closer og innihélt það brot úr lögum eins og Tiny Dancer (frá 1971), The One (frá 1992) og Don’t Go Breaking My Heart (frá 1976). Lagið er af plötunni The Lockdown Sessions sem Elton gaf út árið 2021. Þetta var einnig fyrsta lagið sem hafði komið frá Britney í heil sex ár.

Unstoppable – Sia

Það er oft þannig með söngkonuna og lagahöfundinn Siu að það sem hún snertir verður fljótt vinsælt. Það var engin undantekning á því er hún gaf út lagið Unstoppable árið 2016 og er það enn gríðarlega vinsælt og mikið spilað.