Straumsvík Álver Rio Tinto verður fyrir skerðingum á næstunni.
Straumsvík Álver Rio Tinto verður fyrir skerðingum á næstunni. — Morgunblaðið/Ómar
Innrennsli til miðlana og aflstöðva Landsvirkjunar í desember var áfram í lágmarki. Sú úrkoma sem féll, sérstaklega í síðari hluta mánaðarins, féll sem snjór og í byrjun janúar voru snjóalög á hálendinu í meðallagi miðað við árstíma

Innrennsli til miðlana og aflstöðva Landsvirkjunar í desember var áfram í lágmarki. Sú úrkoma sem féll, sérstaklega í síðari hluta mánaðarins, féll sem snjór og í byrjun janúar voru snjóalög á hálendinu í meðallagi miðað við árstíma.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Landsvirkjunar. Fyrirtækið hefur endurmetið horfur í vatnsbúskapnum í upphafi árs og niðurstaðan staðfestir þá ákvörðun sem tilkynnt var um 19. desember sl. að skerða afhendingu raforku til stórnotenda á suðvesturhluta landsins frá og með 19. janúar nk. Um er að ræða fyrirtækin Elkem, Norðurál og Rio Tinto sem og fjarvarmaveitur.

Skerðingar hafa verið frá því í byrjun desember þegar afhending orku var skert til fiskimjölsverksmiðja, fiskþurrkana og gagnavera sem stunda myntgröft.
Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að skerðingar á afhendingu orku geti staðið til loka apríl, en Landsvirkjun mun vakta vel allar breytingar í tíðarfari og stöðu miðlunarlóna og uppfæra áætlanir um skerðingar í samræmi við þær.
Ástæða aðgerðanna er samspil erfiðs vatnsbúskapar, hárrar nýtingar stórnotenda á langtímasamningum og aukinnar eftirspurnar heimila og smærri fyrirtækja, sem Landsvirkjun kappkostar að tryggja orku, sagði á heimasíðu fyrirtæksins þegar aðgerðir voru kynntar. sisi@mbl.is