Quito Hermenn fyrir utan forsetahöllina í miðborg höfuðborgarinnar í gær.
Quito Hermenn fyrir utan forsetahöllina í miðborg höfuðborgarinnar í gær.
Mikill fjöldi hermanna er nú á götum Quito, höfuðborgar Ekvadors, eftir innrás vopnaðra árásarmanna í beina útsendingu hjá sjónvarpsstöðinni TC á þriðjudag. Forseti Ekvadors, Daniel Noboa, sem tók við völdum í landinu í nóvember, lýsti yfir…

Mikill fjöldi hermanna er nú á götum Quito, höfuðborgar Ekvadors, eftir innrás vopnaðra árásarmanna í beina útsendingu hjá sjónvarpsstöðinni TC á þriðjudag. Forseti Ekvadors, Daniel Noboa, sem tók við völdum í landinu í nóvember, lýsti yfir neyðarástandi í landinu í gær og gaf út skipun um að ná böndum yfir glæpagengin hvar sem til þeirra næðist.

Árásin, sem er rakin til eiturlyfjagengja, hefur valdið miklum ótta í landinu, en alþjóðlegir eiturlyfjahringir auk eiturlyfjagengja frá nágrönnunum, Kólumbíu og Perú, hafa notað hafnarborgina Guayaquil í Ekvador til að flytja kókaín til Bandaríkjanna og Evrópu. Búið er að ná árásarmönnunum, en áður en það gerðist höfðu þeir tekið fanga og lýst því yfir að hver sá sem væri á ferli eftir kl. 11 um kvöld yrði skotinn.

Stigmögnun ofbeldis í landinu hefur vakið ugg alþjóðasamfélagsins, þ. á m. Joseps Borrells utanríkismálastjóra ESB sem lýsti árásinni sem „beinni árás á lýðræðið og réttarríkið“. Þá hafa Bandaríkjamenn miklar áhyggjur af stöðunni og buðu Noboa aðstoð vegna ofbeldisins og mannrána eiturlyfjagengjanna.

Bæði Frakkar og Rússar hafa varað landa sína við að fara til Ekvadors vegna ofbeldisöldunnar og sendiráð Kína tilkynnti í gær að þjónusta til borgara yrði stöðvuð.

Morðtíðni í landinu hefur fjórfaldast frá 2018 og lagt var hald á 220 tonn af fíkniefnum í fyrra.