Björk Elva Brjánsdóttir fæddist á Akureyri 23. júlí 1959. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 26. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Ragnheiður Hlíf Júlíusdóttir, f. 10. júlí 1927, d. 19. júlí 2013, og Brjánn Guðjónsson, f. 19. nóvember 1923, d. 22. júlí 2014.

Systkini Bjarkar eru: 1) Baldur, f. 1948, 2) Júlíus Ingvar, f. 1951, maki Ásta Fanney Reynisdóttir, 3) Guðjón Svarfdal, f. 1955, maki Dýrfinna Torfadóttir, 4) Snjólaug Jónína, f. 1962, maki Kristján Már Magnússon, 5) Þráinn, f. 1965, maki Sigrún Rósa Vilhjálmsdóttir.

Björk Elva giftist Angantý Arnari Árnasyni skipstjóra 25. desember 1983. Synir þeirra eru: 1) Fannar Þór, f. 1978, maki Katrín Júlía Pálmadóttir, f. 1983. Börn þeirra eru Fannar Nói, f. 23. júlí 2012, og Myrra, f. 27. ágúst 2014. Dóttir Fannars er Lea Björk, f. 7. mars 2004.

2) Egill Daði, f. 1983, maki Rakel Heinesen, f. 1986. Börn þeirra eru Kristín Emma, f. 28. desember 2008 og Annfinn Arnar, f. 17. september 2012. 3) Árni Brjánn, f. 1989, maki Inga Dís Júlíusdóttir, f. 1989. Barn þeirra er Arnar, f. 16. maí 2020.

Björk ólst upp á Akureyri og gekk í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Björk flutti ung að árum á Hauganes þar sem hún hóf sambúð með verðandi eiginmanni sínum, Angantý Arnari, sem þar bjó. Árið 1993 fluttu þau hjón til Akureyrar þar sem Björk vann við verslunar- og umönnunarstörf en fór síðar í sjúkraliðanám og útskrifaðist frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2004 og vann upp frá því á Hjúkrunarheimilinu Hlíð og við heimahjúkrun.

Útför Bjarkar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 11. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Björk mín, fallega tengdamamma, vinkona og ljúfasta amman. Við kveðjum hana með trega í dag. Þetta átti ekki að fara svona. Við vorum ekki tilbúin að missa ömmu Björk. Ég er svo óendanlega stolt að vera tengdadóttir hennar. Svo þakklát hvað hún var börnunum mínum dásamleg amma. Amma Björk var alltaf mætt með slikk og ís í glærum plastpoka þegar einhver var lasinn.

Hún var með sérstaka náðargáfu þegar kom að blómum. Hún gat látið allt vaxa og dafna. Hún gaf líka skemmtilegustu og bestu gjafirnar. Hún elskaði að kaupa handa öðrum og troðfylla gjafaskápinn sem enginn mátti opna. Svo púslaði hún saman í afmælis og jólagjafir. Það dugði aldrei einn pakki. Það voru alltaf tveir á mann undir jólatrénu og á afmælum var alltaf aukapakki fyrir öll ömmugullin. Hún elskaði að gefa. Þegar hún sagði „ég vildi að ég gæti gefið þér allan heiminn“ þá var hún þegar búin að því. Allt sem ég á í dag er henni að þakka. Egill Daði og krakkarnir eru allur heimurinn fyrir mér. Hún var fyrirmyndin mín í svo mörgu og það er mér ómetanlegt. Ég sakna þess að hringja í hana, kíkja í kaffi og spjalla um allt milli himins og jarðar. Missirinn er stór og sorgarsárið er djúpt og það mun aldrei gróa. En ég veit að hún fylgist með okkur og passar upp á okkur eins og hún var vön að gera. Amma Björk verður alltaf með okkur. Guð geymi þig, elsku tengdamamma mín.

Ég man
Með þér á ég margar minningar

Myndir sem létta mitt lundarfar

Ég ligg hér og ég hugsa til þín

Hvernig sólin á þig skín

Ég sakna þín

(Sverrir Bergmann)

Þín tengdadóttir,

Rakel.

Það er þungbært að kveðja yngri systur í blóma lífsins á okkar tíma mælikvarða. Í þessum þrengingum leitar á hugann fjölmargt frá liðnum tímum, andinn er einhvern veginn ekki alveg reiðubúinn. „Ég er hvorki heill né hálfur maður og heldur ósjálfbjarga, því er verr“ mælti Vilhjálmur Vilhjálmsson, sá elskaði og dáði söngvari og textasmiður. Hann var í miklu uppáhaldi hjá Björk systur minni og fékk að óma seint og snemma í hljómtækjum heimilisins.

Björk var reyndar tónelsk frá unga aldri, tók strax þátt í starfi Kórs Barnaslóla Akureyrar og var söngvin alla tíð, tók síðar þátt í ýmsu kórastarfi, m.a. á meðan fjölskyldan bjó á Hauganesi út með firði en þar var ýmsu félagsstarfi við brugðið. Ég hef á tilfinningunni að þaðan eigi þau Angantýr Arnar góðar minningar.

Af uppeldi okkar systkinanna sex fer svo sem ekki mörgum sögum. Þetta var fyrir eða í árdaga uppeldisfræðanna. Ég man þó ekki til þess að þeim væri beitt á heimilinu með markvissum hætti en stöðugleiki var ríkjandi og einbeitingin snerist fyrst og fremst um að brauðfæða hópinn.

Mamma vann á ungum æskudögum okkar á saumastofunni Heklu og vinnutíminn var frá kl. 16-22 virka daga. Það kom í minn hlut sem drengurinn í miðjunni að taka oftast á mig vaktina þar til pabbi kæmi heim á sjöunda tímanum og jafnvel undirbúa kvöldverð. Eldri bræður mínir tveir höfðu yfirleitt annað að sýsla, voru komnir á næsta þroskastig, voru gjarnan úti í bæ að lifa lífinu, „að hitta mennina“. Ég tók því snemma þátt í uppeldinu á tveimur systrum og svo yngsta bróðurnum og hafði því talsvert saman við þau að sælda.

Ekkert á uppvaxtarárunum benti til þess að þær systurnar, Björk Elfa og Snjólaug Jónína, yrðu sérlega samrýmdar systur. Þær toguðust endalaust á og flest í umhverfinu varð þeim að ágreiningi enda eru þær talsvert ólíkar að eðlisfari. Síðar urðu þær afar nánar, voru trúnaðarvinir og í daglegum og nánum tengslum og sóttu ráð og stuðning hvor til annarrar.

Það var augljós gæfa Bjarkar systur minnar í lífinu að kynnast Angantý Arnari sem bar hana á höndum sér alla tíð. Stundum hefur það eflaust verið krefjandi hlutskipti því systur minni kippti í kynið, lundarfar ættarinnar er ekki slétt og fellt, Björk var stór í stykkjunum. Angantýr Arnar er hins vegar þrautseigur, skynsamur og á allan hátt vel gerður maður. Í erfiðum veikindum Bjarkar vék hann öllu til hliðar, starfi sínu, áhugamálum og meira að segja eigin heilsufari til þess að geta annast konu sína sem hann sannarlega unni framar öllu öðru.

Björk Elfa systir mín átti gott líf. Hennar umgjörð var fyrst og fremst fjölskyldan og ræktarsemi við hana. Hún hafði hlýtt viðmót, naut sín í þjónustu við annað fólk og valdi sér störf þar sem þessir eiginleikar fengu að njóta sín. Hún var gestrisin og saman áttu þau Angantýr Arnar fallegt heimili sem alltaf stóð okkur landshornaflökkurum opið.

Við leiðarlok, á sorgarstund, færum við Dýrfinna fjölskyldunni og nánustu ættingjum, sonum þeirra, mökum, barnabörnum og tengdaföður hugheilar kveðjur og þökkum samfylgdina.

Guðjón Svarfdal Brjánsson.

Árið 2004 festum við kaup á nýrri parhúsíbúð í Stekkjartúni 10 á Akureyri. Fjölskyldan í númer 12 var þegar flutt inn og tókust strax góð kynni við hana sem þróuðust í trausta og góða vináttu er haldist hefur æ síðan. Arnar og Björk voru samhent og yndisleg hjón sem gott og gaman var að umgangast. Nú hefur elsku Björk kvatt eftir hetjulega baráttu við veikindi.

Áhugi Bjarkar á gróðri og garðrækt smitaði sannarlega frá sér. Þau hjón lögðu mikla elju í að rækta garðinn sinn á sem fallegastan hátt og það var alltaf gott að leita til Bjarkar varðandi garðrækt enda var hún eitt hennar helsta áhugamál. Því fannst henni mjög erfitt að geta ekki sinnt garðinum sínum eins og hún hefði viljað þegar þrek hennar fór minnkandi síðasta sumar.

Það skapaðist fljótt sú hefð hjá okkur nágrönnunum að hittast að kvöldi Þorláksmessu og njóta samveru um stund og skiptast á smá gjöfum. Þessar stundir ásamt matarboðum, hittingi á pallinum og öllum kaffisopunum verða ekki eins án Bjarkar en við munum viðhalda okkar góðu vináttu við Arnar með minningu hennar að leiðarljósi.

Elsku Arnar, Fannar, Egill, Árni Brjánn og fjölskyldur, megi guð og góðar vættir styrkja ykkur á erfiðum tímum.

Megi algóður guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hrönn Lárusdóttir)

Blessuð sé minning Bjarkar vinkonu okkar.

Ágústa og Kristinn (Kiddi).