Frískandi „Í Satanvatninu er tveimur ólíkum formum, ballett og þungarokki, teflt saman á kröftugan og frískandi hátt,“ segir í rýni um Satanvatnið.
Frískandi „Í Satanvatninu er tveimur ólíkum formum, ballett og þungarokki, teflt saman á kröftugan og frískandi hátt,“ segir í rýni um Satanvatnið. — Ljósmynd/Karim Ilija (iliya)
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Satanvatnið ★★★½· Listrænn stjórnandi: Selma Reynisdóttir. Danshöfundar: Bjartey Elín Hauksdóttir, Indy Alda Souda Yansane, Olivia Teresa Due Pyszko, Saga Kjerúlf Sigurðardóttir, Selma Reynisdóttir og Þórdís Nadia Semichat. Dramatúrgía: Þórdís Nadia Semichat. Búningar: Alexía Rós Gylfadóttir. Leikmynd og Lúsifer-haus: Rakel Andrésdóttir. Lýsing: Juliette Louste. Tónlistarstjórnandi: Katrín Helga Andrésdóttir. Tónsmíði: Ingibjörg Elsa Turchi, Katrín Helga Andrésdóttir, Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir og Valgeir Skorri Vernharðsson. Hljómsveit: Ingibjörg Elsa Turchi, Lovísa Elísabet Sigurðardóttir og Valgeir Skorri Vernharðsson. Dansarar: Bjartey Elín Hauksdóttir, Indy Alda Souda Yansane, Olivia Teresa Due Pyszko og Saga Kjerúlf Sigurðardóttir. Frumsýning í Tjarnarbíói fimmtudaginn 21. desember 2023.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Metalballettinn Satanvatnið var frumsýndur 21. desember 2023 og var því síðasta frumsýning dansársins. Í kynningu segir að verkið sé fyrsti frumsamdi ballett Íslandssögunnar sem er nokkuð orðum aukið og í því sé unnið með klisjur sem fyrirfinnast í ballett annars vegar og þungarokki hinsvegar. Verkið gerist djúpt í Satanvatni og sýnir okkur líf nokkurra vera sem þar búa, átök þeirra í milli og þær hættur sem að þeim steðja frá heiminum ofan yfirborðsins.

Satanvatnið er kröftugt og skemmtilegt verk og það að leika sér með klisjurnar sem finnast ekki síst í ballettinum, en þar liggur þekking rýnanda, er vel til fundið. Það er frískandi að sjá stöðurnar, sporin, samkeppnina á milli dansaranna, tútúið og margar aðrar klisjur sett í umgjörð sem minnir meira á þungarokkstónleika en ballettsýningu.

Sviðsmynd sýningarinnar var frábær og búningar sömuleiðis. Saman með lýsingunni var upplifunin af sviðinu mögnuð og sannfærandi að verkið gerðist í undirdjúpunum þar sem myrkrið ræður ríkjum. Smáatriði eins og að láta verurnar vera með sundgleraugu með speglagleri sem sköpuðu geisla út í rýmið þegar ljósin lýstu á þau var snilld en það var ekki síst í atriði þegar allir flytjendurnir stóðu saman í flóðlýsingu og horfðu út í salinn sem þetta kom sérstaklega vel út. Gervi Lúsifers var líka frábært og það að fálmararnir hans þjónuðu sem tútú var snilld. Augnablikið þegar Lúsifer kveikti á höfuðljósinu sínu var líka óborganlegt.

Hljóðmyndin var kröftug og töff. Hlutverk hljómsveitarinnar á sviðinu og samspil hennar og dansaranna var vel úthugsað og kom vel út. Það vantaði aftur á móti upp á að verkið héldi dampi allan tímann. Það var fullt af frábærum tækifærum sem sum nýttust en önnur kviknuðu, byrjuðu að byggjast upp og lognuðust svo út af eða það var klippt á þau. Til dæmis var atriðið þar sem allir stóðu og horfðu út í sal mjög sterkt en hvaðan það kom og hvert það átti að leiða var erfitt að segja. Það sama má segja um atriðið þar sem Lúsifer kom á svið. Þar vantaði upp á aðdraganda eða uppbyggingu í átt að komu hans eða einhverskonar eftirmála. Í klassískum ballettverkum hefur innkoma persóna eins og hans grundvallaráhrif á framvindu verksins. Persóna eins og Rauðskeggs í Svanavatninu, gömlu spákonunnar í Le Sylphides, vondu og góðu dísarinnar í Þyrnirós og svo framvegis.

Ballett þjónar mikilvægu hlutverki í þjálfun íslenskra dansara og hafa dansnemendur því flestir grunn í þeirri tækni og sumir mjög góðan grunn. Ballettverk, eftir og með íslenskum dönsurum, sjást aftur á móti aldrei á sviði, að minnsta kosti ekki síðustu áratugina, svo það reynist nemendum þrautin þyngri að halda balletttækninni við, þá sérstaklega táskóatækninni sem er aðalsmerki kvenballettdansara, því til þess þarf daglega þjálfun og tækifæri til að beita henni á sviði. Vald dansaranna í Satanvatninu á ballettforminu var mismikið en þær höfðu greinilega góðan grunn. Táskórnir voru fjarri góðu gamni, skiljanlega, en líkamsstöður, spor, snúninga, æfingar og stemningu mátti greinilega sjá sem og tilvísanir í þekkt verk. Dansararnir áttu marga góða spretti og það voru mörg stórgóð atriði þar sem klisjur ballettsins voru afhjúpaðar á einfaldan og skýran hátt. Betra vald yfir ballettforminu, þá aðallega meiri nákvæmni í hreyfingum og líkamsstöðum, hefði þó gert verkið beittara.

Í Satanvatninu er tveimur ólíkum formum, ballett og þungarokki, teflt saman á kröftugan og frískandi hátt. Öll umgjörð verksins er áhrifamikil og tónlistin flott. Það voru margir góðir sprettir í danssmíðinni en einnig nokkrir staðir þar sem tækifærum til uppbyggingar og áhrifaríkra augnablíka var kastað á glæ. Hugmyndin að verkinu er frábær en það vantar upp á skerpu í útfærslu og framsetningu hennar og meiri nákvæmni í dansinn. Það er vandmeðfarið að vinna með fastmótað form eins og ballett til að benda á klisjur þess. Það þarf djúpa þekkingu og vald á forminu til að það verði trúverðugt.