Einsemd Leiða má að því líkum að heilsu aldraðra hafi hrakað vegna einangrunar á tímum covid með minni hreyfingu og félagslegum samskiptum.
Einsemd Leiða má að því líkum að heilsu aldraðra hafi hrakað vegna einangrunar á tímum covid með minni hreyfingu og félagslegum samskiptum. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is „Mín tilfinning er sú að ástandið á eldri borgurum hérna á Akureyri hafi versnað mikið eftir covid-faraldurinn,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, við Morgunblaðið.

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Mín tilfinning er sú að ástandið á eldri borgurum hérna á Akureyri hafi versnað mikið eftir covid-faraldurinn,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, við Morgunblaðið.

„Ég hef enga sönnun fyrir því, en að mínu viti hefur ekki verið gerð nein rannsókn á því. En sem öldrunarlæknir þá hitti ég fólk á göngudeild og ég hef tekið eftir því hjá mínum sjúklingum, sem ég hef verið að fylgja eftir, að þeim hefur hrakað meira en ég hefði búist við á þessu tímabili.“

Hún segir að það geti verið skýring að í kjölfar faraldursins hafi eldra fólk dregið sig meira út úr því að taka þátt í félagsstarfi og öðru slíku sem það gerði kannski áður.

20-25% fjölgun innlagna

„En svo höfum við líka það sem við getum mælt og er óeðlilegt, sem er fjölgun innlagna, sem við gerðum úttekt á. Það er mjög áberandi hvað innlögnum á sjúkrahúsið hefur fjölgað hjá þessum elsta aldurshópi, yfir 75 ára, eða um 20-25% fjölgun í þeim aldurshópi en það er ekki nema 9% í innlögnum á sjúkrahúsið í heild,“ segir Ragnheiður, en fjallað er um málið í Læknablaðinu. Könnunin nær aftur til 2019 og sýnir stigvaxandi aukningu hjá þessum elsta hópi.

Margþættur vandi

Ragnheiður er spurð hvort hluti skýringar á fjölgun innlagna elsta hópsins gæti líka tengst þeirri áralöngu stefnu að hafa eldri borgara sem lengst heima hjá sér og frekar einbeita sér að heimahjúkrun, jafnvel þótt eldra fólk búi eitt og búi þá við mikla einsemd.

„Það er einn þáttur í þessu. Búið er að fækka hjúkrunarrýmum hér á Akureyri vegna myglu sem kom upp á hjúkrunarheimilinu Hlíð. Það þýðir að fólk sem bjargar sér ekki eitt heima hefur lent á sjúkrahúsinu. Engir aðrir aðilar en öldrunarheimili eða sjúkrahúsin hafa getað sinnt fólki allan sólarhringinn. Svo hefur líka verið skortur á heimahjúkrun.“

Skortur á heimahjúkrun

Það hefur áhrif á fjölgun innlagna aldraðra á sjúkrahús ef biðlistar eru komnir um heimahjúkrun og Ragnheiður segir að heilsugæslan hafi ekki náð að anna beiðnum frá sjúkrahúsinu. Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, segir að umfang heimahjúkrunar hafi verið að þyngjast mikið síðustu ár, ekki endilega frá covid.

„Það er verið að veita hjúkrunarþjónustu allt frá einu sinni í mánuði og upp í sex sinnum á sólarhring og þá með lengri innlitum á heimilinu,“ segir hún og tekur undir með Ragnheiði að lokun hjúkrunarheimilisins í Hlíð hafi líka áhrif. „Það er líka það sem veldur núna biðtímanum, sem nú er 2-8 vikur.“ Guðný segir að verið sé að forgangsraða beiðnum og starfsfólk geri sitt besta. Þá hafi skort hjúkrunarfræðinga, en það horfi vonandi til betri vegar á næstu mánuðum.

Hraðað öldrun

Þegar fólk hefur verið í reglulegri hreyfingu fyrir faraldurinn er kannski ekki skrýtið að það fari að hrörna þegar því var allt í einu uppálagt að vera heima hjá sér og helst ekki hitta fólk af hræðslu við að smitast af covid-19. „Maður veit að ef fólk hættir að hreyfa sig þá er alltaf erfiðara að koma sér af stað aftur, hvað þá fyrir eldra fólk,“ segir Ragnheiður. „Ég hef áhyggjur af því að þetta hafi flýtt fyrir öldrun og hrumleika þessa hóps, sem var kannski tæpur fyrir,“ segir hún og ítrekar að engar rannsóknir staðfesti þennan grun þótt ýmis teikn séu á lofti sem hún hafi séð í starfi sínu sem öldrunarlæknir.

Nú segja sumir að einangrunin hafi bjargað mannslífum?

„Já, en þú getur verið með líf og svo getur þú verið með lífsgæði og ég myndi segja að lífsgæði þessa hóps hafi minnkað á þessu tímabili þótt hann hafi lifað af faraldurinn.“