Hatur Á þennan minningarstein um aftökur á gyðingum í seinna stríði var krotað „Heil Hitler, gyðingar deyi“.
Hatur Á þennan minningarstein um aftökur á gyðingum í seinna stríði var krotað „Heil Hitler, gyðingar deyi“. — AFP/Damien Meyer
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Sumir gyðingar segjast beinlínis hræddir við að vera í Frakklandi og hafa margir fjarlægt Mezuzah-helgiskrínið af dyrakörmum húsa sinna,“ segir Freddo Pachter í samtali við Times of Israel, en síðastliðin 17 ár hefur hann hjálpað frönskumælandi fólki að flytja til Ísraels. Segist hann aldrei á sínum ferli hafa séð viðlíka ásókn og nú.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Sumir gyðingar segjast beinlínis hræddir við að vera í Frakklandi og hafa margir fjarlægt Mezuzah-helgiskrínið af dyrakörmum húsa sinna,“ segir Freddo Pachter í samtali við Times of Israel, en síðastliðin 17 ár hefur hann hjálpað frönskumælandi fólki að flytja til Ísraels. Segist hann aldrei á sínum ferli hafa séð viðlíka ásókn og nú.

„Að lifa við þetta ástand er óbærilegt – fela öll ummerki um gyðingdóm á sama tíma og fólk segist óhrætt iðka múhameðstrú eða kristni,“ segir Pachter og bætir við að hörð viðbrögð Ísraelshers (IDF) við ódæði hryðjuverkasamtaka Hamas 7. október sl. hafi kallað fram stóraukna andúð í garð gyðinga. Í ódæði Hamas voru um 1.200 manns, langflestir þeirra almennir borgarar, myrtir og yfir 240 fluttir nauðugir til Gasa. Dráp var ekki eina vopn Hamas-liða þennan dag því allt bendir til að vígamennirnir hafi einnig beitt varnarlaust fólk, þ. á m. börn, grófu kynferðislegu ofbeldi.

Hundruð vilja frá Frakklandi

Pachter segir fjöldasamkomur hafa verið haldnar í París, Marseille og Lyon þar sem fólk gat nálgast upplýsingar um flutning til Ísraels. Hundruð mættu á hverja samkomu.

Þessi mikli áhugi gyðinga á flutningi er ekki það eina sem kemur á óvart, að sögn Pachters. Félagsleg staða og menntun er einnig allt önnur en áður.

„Oft sáum við einstaklinga sem upplifðu félagslega erfiðleika eða vandamál tengd atvinnu. En núna eru þetta verkfræðingar, læknar og lögmenn,“ segir hann og bætir við að þessi hópur sé ekki að flýja fátækt. Líf þeirra væri undir venjulegum kringumstæðum þægilegra í Frakklandi. Fólkið sé hins vegar að flýja gyðingaofsóknir og andúð.

Opinber gögn sýna 430 prósenta fjölgun á umsóknum frá Frakklandi síðan hryðjuverkið mikla 7. október var framið.

Í samtali við Times of Israel segjast franskir gyðingar ekki lengur vera öruggir heima fyrir og er það ástæða þess að þeir horfa nú til Ísraels.

„Ég sé mig ekki lengur búa í Frakklandi á meðan allt þetta er í gangi. Ég er hrædd um börnin mín alla daga. Þetta er ekkert líf,“ segir móðir í París sem ekki vildi koma fram undir nafni. „Sjöundi október breytti öllu. Ég hafði aldrei hugsað mér að yfirgefa Frakkland fyrir Ísrael.“

Tímabilið 7. október til miðjan nóvember voru, að mati lögreglu, 1.500 hatursglæpir framdir í Frakklandi gegn gyðingum, allt frá hótunum yfir í alvarlegar líkamsárásir.