Berglind Ósk Guðmundsdóttir
Berglind Ósk Guðmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ef málum vindur þannig fram að þess gerist þörf að nefndin fari yfir málið munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því,“ segir Hildur Sverrisdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ef málum vindur þannig fram að þess gerist þörf að nefndin fari yfir málið munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því,“ segir Hildur Sverrisdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið. Hún var spurð hvort hún hygðist taka upp álit umboðsmanns Alþingis um stjórnsýslu matvælaráðherra í hvalveiðimálinu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins.

„Nú er staðan sú að það er á borði Vinstri-grænna hvernig þeir ætla að bregðast við til að taka ábyrgð á þessu áliti sem er vissulega þungur áfellisdómur yfir verkum ráðherra. Framhald málsins á vettvangi þingsins, hvort sem það er vantrauststillaga eða skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, verður að koma í ljós í framhaldi af því. Að mínu viti er álitið skýrt og skilur eftir fá ef nokkur vafaatriði í málinu,“ segir Hildur.

Í sama streng tekur Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks sem sæti á í nefndinni. „Framhald málsins verður að skoðast út frá því hvernig VG hyggst bregðast við þessu alvarlega áliti umboðsmanns.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar er formaður nefndarinnar. Spurð um þetta segir hún í skilaboðum til Morgunblaðsins: „Mér hefur ekki borist beiðni frá fulltrúa í nefndinni um að setja álitið á dagskrá hennar. Álit umboðsmanns fara ekki sjálfkrafa til nefndar ólíkt skýrslum Ríkisendurskoðunar. Útiloka ekki að rætt verði um málið á nefndarfundum í næstu viku en dagskrá þeirra er ekki tilbúin.“