Sorphirða Seinni hluti desember reyndist erfiður í sorphirðu í borginni.
Sorphirða Seinni hluti desember reyndist erfiður í sorphirðu í borginni. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján Jónsson kris@mbl.is Sorphirða í Reykjavík hefur verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu enda hafa pappi og plast víða safnast upp í íbúðarhúsnæði og grenndarstöðvum við litla kátínu borgarbúa.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Sorphirða í Reykjavík hefur verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu enda hafa pappi og plast víða safnast upp í íbúðarhúsnæði og grenndarstöðvum við litla kátínu borgarbúa.

„Ég skil fólk mjög vel. Auðvitað kemur upp gremja þegar þú kemur ekki pappadrasli í tunnuna hjá þér og ferð svo í næstu grenndargáma og þá er allt fullt þar einnig svo dæmi sé tekið. Þú greiðir hirðugjöld og ætlast til að fá ákveðna losun,“ segir Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg.

Gamall bílakostur

„Ég talaði við rekstrarfulltrúann í gær [þriðjudag]. Þá áttum við eftir Heimana, Vogana, Sundin, Breiðholtið og Árbæinn. Við erum að komast í gegnum jólaskítinn sem var auðvitað gríðarlega mikið sorp en nú er færðin mun betri en var í desember. Ef íbúar vilja hjálpa okkur enn meira þá er hjálplegt að fara með sorp á grenndarstöðvar eða endurvinnslustöðvar. Þá á ég sérstaklega við þegar fólk er með mjög stóra pappakassa sem dæmi enda eru þeir fljótir að fylla tunnurnar,“ segir Guðmundur, sem telur samverkandi þætti hafa valdið því að sorphirða varðandi pappa og plast hefur verið á eftir áætlun síðustu vikurnar.

Færðin í desember hafi haft áhrif en einnig sé bílakosturinn ekki nægilega góður því bílarnir séu farnir að eldast. Þar að auki bilaði bíll á milli jóla og nýárs hjá þjónustuaðilanum sem sér um að tæma grenndargámana.

„Elstu bílarnir hjá okkur eru tíu ára gamlir en í svona bransa fara þeir að bila þegar þeir eru um fimm ára. Þegar álagið er mikið og við missum út bíl þá er vandinn fljótur að vinda upp á sig. Ekki síst ef við erum að fara aukaferðir inn og út úr húsum til að taka umframsorp sem ekki kemst fyrir í tunnunum. Núna erum við með alla bíla nema einn í notkun en hann er bilaður til lengri tíma vegna þess að framleiðandi lyftubúnaðarins og pressunnar í Svíþjóð varð gjaldþrota í desember,“ útskýrir Guðmundur og bætir því við að næsta sumar sé von á þremur nýjum bílum í flotann.

Eru nógu margar tunnur?

Morgunblaðið ræddi í vikunni við einn eigenda fjölbýlishúss í Brautarholti sem var ósáttur við að sorp hefði ekki verið hirt þrátt fyrir að sorphirðan væri langt á eftir áætlun. Ástæðan var sú að tunnurnar voru yfirfullar.

„Við tökum allt umframsorp nema í undantekningartilfellum. Stundum þurfum við að setja mörk eins og í tilfellum þegar ekki er rétt flokkað í tunnurnar og þar er úrgangur sem á ekki heima þar. Til eru dæmi um að frágangurinn sé þannig að við komumst varla inn í geymsluna. Íbúar geta einfaldað okkur vinnuna með því að ganga vel frá í sorpgeymslum,“ segir Guðmundur og veltir fyrir sér hvort sorptunnurnar séu einfaldlega of fáar í því tilfelli sem blaðið fjallaði um en er ekki í aðstöðu til að fullyrða um einstök tilfelli.

„Þar er um tiltölulega nýtt hús að ræða og þau hafa bætt við sig smátt og smátt. Hver tunna kostar vegna þess að greitt er fyrir hverja tunnu en ekki fast verð á fasteign eins og í nágrannasveitarfélögunum. Fólk þarf að vera með nægilega margar tunnur og getur ekki verið að spara sér hirðugjöldin með því að setja sorp til hliðar í einhverjum pokum eða þess háttar. En þegar við erum á eftir áætlun, eins og við erum núna með bláu og grænu tunnurnar, þá tökum við umframsorpið og höfum alltaf gert það við slíkar aðstæður. Það tefur okkur hins vegar og þá verðum við seinni til nágrannans.“

Kostnaður meiri en tekjurnar

Spurður hvort kjörnir fulltrúar í borginni hafi ekki sinnt þessum málaflokki segir Guðmundur borgarfulltrúa sýna starfseminni skilning. Ofmat á endingu bílanna hafi verið stærra vandamál.

„Lögin eru þannig að okkur er ætlað að rukka að fullu fyrir allan kostnað við meðhöndlun úrgangs. Þegar við lendum á eftir áætlun eins og núna þarf Reykjavíkurborg að greiða kostnað við bíla, mannskap, móttökugjald fyrir úrgang og allt það. Við þurfum að greiða ennþá meira þegar við erum að vinna þetta upp núna og vinnum yfirvinnu vegna þess. Tekjurnar sem við höfum haft af hirðugjöldum í Reykjavík á undanförnum árum hafa verið lægri en kostnaðurinn við meðhöndlun úrgangs.“