Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Aldrei hefur verið ríkari þörf fyrir aðgerðir og vitundarvakningu í málefnum íslenskunnar. Sókn er eina vörnin.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þjóðtunga er hugtak sem við notum yfir sameiginlegt mál landsmanna, tjáningartækið sem tengir okkur saman og er forsenda þess að hægt sé að tala um samfélag sem þjóð. Í ljósi þeirra miklu enskuáhrifa sem sýnileg eru í málsamfélagi okkar má velta því fyrir sér hvert verði í reynd sameiginlegt tungumál okkar Íslendinga eftir fáa áratugi. Eins og nú horfir er sá möguleiki til staðar að það verði enska en ekki íslenska.

Sú hrakspá að enskan eigi ef til vill eftir að taka við af íslenskunni er ekki illa ígrunduð upphrópun heldur grafalvarlegt mat á óheillavænlegri þróun sem nú er í algleymingi og dylst engum.

Hvert sem litið er blasa við auglýsingaskilti og upplýsingar á ensku. Hvar sem lagt er við hlustir heyrist enska töluð á almannafæri, hvort sem er á veitingastöðum, á göngum framhaldsskólanna, í strætisvagninum, inni í búðum, á hjúkrunarheimilum eða leikskólum. Hér mætti bæta við heimilunum þar sem ekki aðeins unglingar heldur börn á máltökuskeiði sitja fyrir framan tölvur og skjái þar sem boðið er upp á afþreyingu á ensku.

Alvarleg niðurstaða síðustu PISA-könnunar sýnir að nánast annar hver unglingur getur ekki lesið sér til gagns og framhaldsskólakennarar verða þess varir í auknum mæli að unglingar eigi erfitt með að tjá sig á íslensku. Þess heyrast æ fleiri dæmi í fjölmiðlum að enskan er orðin ungu fólki tamari á tungu en íslenskan. Um það vitnar orðfæð, sagnorðabrestur, enskuskotin orðaröð og málsnið. Þetta er ekki sagt æsku landsins til lasts, heldur er það staðreynd sem ekki verður litið fram hjá.

Slakur árangur íslenskra ungmenna í PISA-könnunum stendur augljóslega í beinu samhengi við veika stöðu íslenskunnar og er hættumerki. Niðurstaðan sýnir raunverulega hættu á því að rétt innan við helmingur íslenskra ungmenna sé dæmdur til skertra tækifæra í lífinu. Sú lífsgæðaskerðing hlýst af því að þau geta ekki nýtt sér menntunar- og atvinnumöguleika. Geta ekki greint og metið upplýsingar. Geta ekki dregið farsælar ályktanir í upplýsingaóreiðu samtímans. Hún er ekki aðeins ávísun á veikari félagslega stöðu komandi kynslóðar, hún er hættuleg í öllum skilningi – ekki síst sjálfu lýðræðinu.

Hvað er til ráða?

Þörfin fyrir faglega og markvissa umgjörð um málefni íslenskrar tungu hefur aldrei verið brýnni en nú. Sú stund er runnin upp að við þurfum vitundarvakningu. Stjórnvöld og almenningur verða að taka höndum saman um að snúa við þeirri óheillaþróun sem verið hefur og blása til sóknar fyrir hönd íslenskunnar. Eins og sakir standa er sókn ekki aðeins besta heldur eina vörnin.

Eitt augljóst sóknarfæri liggur í íslenskri málstefnu. Lögum samkvæmt er íslenska opinbert mál og málstefnunni er ætlað að „tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags“. Sjónmengun af enskum auglýsinga- og upplýsingaskiltum, hvert sem litið er, sýnir þó glöggt að framkvæmd málstefnunnar er ekki sem skyldi.

Mikilsverður liður í endurreisn íslenskunnar væri því að fylgja eftir íslenskri málstefnu og virkja hana í reynd. Staðan nú er þannig að skil milli stefnumótunar og framkvæmdar í málefnum íslenskrar tungu eru óljós og forræðið ekki á einni hendi. Þessu þarf að breyta og gera faglegar undirstöður málaflokksins óháðari pólitískum áherslumun frá einum tíma til annars. Góður ásetningur einstaka ráðherra – líkt og þess sem nú situr – dugir skammt þegar málaflokkurinn í heild sinni er ofurseldur pólitískum sviptivindum og óljósu forræði. Full þörf er á að endurskoða hlutverk og virkni íslenskrar málnefndar, einskorða það betur við stefnumótun en fela öðrum framkvæmdahliðina með skýrari valdheimildum en nú eru. Einnig er ástæða til að skerpa betur á löggjöf varðandi sýnileika íslenskunnar og framkvæmd málstefnunnar.

Annað sóknarfæri liggur í íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna. Hana þarf að stórbæta og efla til muna. Best væri ef hægt væri að niðurgreiða námið að verulegu eða öllu leyti. Þá þurfa Íslendingar að láta af þeim leiða óvana að svara ævinlega á ensku ef á þá er yrt á bjagaðri íslensku. Hvernig á fólk af erlendum uppruna að geta lært íslensku og aðlagast þar með samfélaginu ef það fær aldrei að tala tungumálið?

Síðast en ekki síst ber að nefna það sem þó ætti að vera sjálfgefið, en það er markviss lestrarkennsla og lesþjálfun sem fylgt er eftir, ekki aðeins í grunnskólum heldur einnig í framhaldsskólum. Læsi er lykill að allri menntun og upplýsingaúrvinnslu í okkar tækniþróaða samfélagi. Þann grunn má hvorki vanmeta né vanrækja.

Við sem höfum alist upp við sögur, lærdóm og ljóð á íslenskri tungu höfum drukkið í okkur menningaráhrif og skilning á veröldinni í gegnum tungumálið okkar. Við eigum gjöf að gjalda og skyldum að gegna gagnvart móðurmálinu. Íslenskan er ekki aðeins tjáningartæki – hún er farvegur hugsunar, tilfinninga og sköpunar. Hún er menning okkar og forsenda þjóðernis í besta skilningi þess orðs.

Höfundur er prófessor og deildarforseti við Háskólann á Bifröst.