Framtíðin Þór Sigfússon kveðst sannfærður um að Ísland geti haft áhrif á kolefnisspor sjávarútvegs á heimsvísu með því að kynna hvernig draga megi úr sóun og auka fullnýtingu.
Framtíðin Þór Sigfússon kveðst sannfærður um að Ísland geti haft áhrif á kolefnisspor sjávarútvegs á heimsvísu með því að kynna hvernig draga megi úr sóun og auka fullnýtingu. — Morgunblaðið/Eggert
Áhugi á sérþekkingu íslensks sjávarútvegs og tengdra greina á fullnýtingu afurða fer vaxandi alþjóðlega og er ein sönnun þess góðar viðtökur bókar Þórs Sigfússonar stofnanda Sjávarklasans, 100% Fish How smart seafood companies make better use of resources

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Áhugi á sérþekkingu íslensks sjávarútvegs og tengdra greina á fullnýtingu afurða fer vaxandi alþjóðlega og er ein sönnun þess góðar viðtökur bókar Þórs Sigfússonar stofnanda Sjávarklasans, 100% Fish How smart seafood companies make better use of resources. Bókin segir meðal annars sögur af nýsköpun í sjávarútvegi og er hún orðin að lesefni háskólanema í Bandaríkjunum og í Skandinavíu. Telur höfundurinn minnkun sóunar í sjávarútvegi geta orðið eitt mesta framlag Íslendinga í að minnka kolefnisspor mannkyns á heimsvísu.

„Við höfum fundið fyrir gríðarlegum áhuga á þessari vinnu okkar varðandi að kynna hvernig megi auka nýtingu sjávarafurða um allan heim,“ segir Þór sem bendir á að fljótlega eftir stofnun Sjávarklasans hafi verið komið á samstarfi við ýmsa aðila hérlendis um markvissa kynningu utan Íslands á mikilvægi þess að draga úr sóun í sjávarútvegi, en Sjávarklasinn er fyrirtæki og viðskiptahraðall sem á víðtækt samstarf við fjölda nýsköpunarfyrirtækja í bláa hagkerfinu; útvegar þeim aðstöðu, styrkir tengslanet þeirra og fjárfestir í sprotunum.

Þór segir að hér á landi hafi ekki bara náðst árangur á sviði fullnýtingar heldur einnig tekist að auka verulega verðmæti hliðarafurða. „Þegar við erum að byrja [með Sjávarklasann] þá er Kerecis að byrja líka og fullt af fyrirtækjum að taka sín fyrstu spor. Síðan hefur þetta orðið bylting og á sama tíma kemur þessi mikli áhugi víða um heim á þessu hringrásarhagkerfi sem snýst um að nýta betur afurðir og draga úr sóun. Þá detta Íslendingar bara í það að vera í fararbroddi á því sviði sem er orðið það heitasta í umhverfismálum fyrirtækja í dag, sérstaklega í matvælageiranum. Þannig komum við á góðum tíma með allar þessar hugmyndir og hafandi þetta „landslið Íslendinga“ á þessu sviði á bak við okkur, útgerðarfyrirtækin sem hafa verið í þessu um árabil auk MATÍS, háskólana og fleiri stofnanir sem hafa unnið að þessu leynt eða ljóst.“

Þetta hafi leitt til þess að víða um heim hafi orðið áhugi á að stofna klasastarfsemi að íslenskri fyrirmynd og hafa sjávarklasar verið stofnaðir allt frá Alaska og Maine í Bandaríkjunum, til Afríku, þar sem nýverið var stofnað Namibian Ocean Cluster, og Danmerkur, svo eitthvað sé nefnt. „Í framhaldi af því hafa orðið til verkefni sem eru ráðgjöf við lönd sem vilja vinna að betri nýtingu afla og vilja fá útgerðir með sér. Í þessu eru íslenskar stofnanir og fyrirtæki að vinna með okkur, svo sem Marel og MATÍS.“

Handbók í fullnýtingu

Þór segir bókina 100% Fish hvatningu til alþjóðlega sjávarútvegsins um að gera betur, að stuðst verði við íslenska módelið til að ná hámarksárangri í fullnýtingu og sjálfbærni. „Segja má að bókin sé eins og handbók fyrir þá sem vilja taka þessi skref. Um leið er hún það sem mér hefur alltaf þótt vanta, sem er samansafn af sögum af fyrirtækjum víða um heim – þar af mörg á Íslandi – sem hafa verið einstakir frumkvöðlar í útgerð og nýsköpun. Þetta hefur vonandi þau áhrif að það hvetur aðra til dáða. Það er til fullt af sögum af fólki sem hefur verið í fararbroddi með nýjungar á þessu sviði, en um það hefur ekki mikið verið talað erlendis. Sjávarútvegurinn hefur ekki alltaf verið góður í því að segja frá því sem þeir gera vel og ég taldi alveg ástæðu til að raða þessu upp.“

Í tengslum við gerð bókarinnar var meðal annars rætt við forstjóra stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims, svo sem forstjóra Austral Fisheries í Ástralíu, American Seafoods í Bandaríkjunum, Royal Greenland á Grænlandi og Thai Union í Taílandi. Síðastnefnda félagið hefur verið framarlega í fullnýtingu sem og í sjálfbærni í rekstri, að sögn Þórs.

Hugarfarið afgerandi

Það er hins vegar ekki aðeins íslenska módelið sem skiptir máli heldur þarf einnig rétt hugarfar, útskýrir Þór. Spurður hvað verði til þess að þetta sérstaka hugarfar um að hámarka nýtingu verði til á Íslandi svarar hann: „Þetta er svo stór hluti af okkar lífi. Ég er oft í löndum þar sem sjávarútvegurinn er bara 0,1% af þjóðarframleiðslunni og telst ekki alvöruatvinnugrein. Þar sem hún telst ekki alvöruatvinnugrein þá verður enginn fókus á hana og því verður ekki þrýst á að lögð verði áhersla á hana. Á móti hefur þetta hér heima verið uppistaðan í hagkerfinu um svo langt skeið að í greinina hefur valist mikið mannval af fólki. Það á ekki bara við um útgerðina heldur einnig alla stoðþjónustuna svo sem tæknifólkið og jafnvel fólkið í fjármálastofnunum.“

Bendir hann meðal annars á að í fjármálastofnunum erlendis séu það oft deildir sem sinna byggðastyrkjum og minniháttar lána- og þróunarverkefnum sem eru ábyrgar fyrir sjávarútvegi, en hér á landi sé sjávarútvegurinn mikilvægur liður í útlánasviðum lánastofnana. „Það er líka mjög menntað fólk á öllum sviðum sjávarútvegs, en úti er þetta oft eins og að koma að sjávarútvegi eins og hann var á Íslandi á áttunda áratugnum – sem var fínn sjávarútvegur en bara allt annar en hann er í dag.“

Eitt mesta framlag Íslands

„Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar,“ svarar Þór spurður um hvaða viðbrögð bókin hafi fengið. „Það er verið að taka bókina inn í fyrirlestra og sem kennsluefni í Bandaríkjunum og nú síðast í Skandinavíu. Við finnum fyrir mjög miklum áhuga. Þessi hugmynd okkar um 100% nýtingu og starf Sjávarklasans verður meðal annars kynnt í þætti PBS í Bandaríkjunum í sumar.“

Áhuginn á tækni og þekkingu Íslendinga er nú þegar slíkur að nú er verið að senda fisk til Íslands að sögn Þórs. „Við erum að fá frystan fisk frá Bandaríkjunum og öðrum heimsálfum hingað til lands til að prófa íslenskan tækjabúnað og íslenska sérþekkingu til að sjá hvernig ná megi betri árangri með miklu betri tæknilausnum en þekkist annars staðar og meiri þekkingu á nýtingu hliðarafurða. Við erum að segja við sum af þessum löndum að við getum þrefaldað ef ekki fjórfaldað verðmæti hvers fisks með því að koma honum inn í þetta íslenska módel. Þ.e.a.s. með íslensku tækninni og þekkingunni. Það er að kveikja í mörgum svæðum og fyrirtækjum.“

Beðinn að spekúlera um framtíðarhorfur fullnýtingar kveðst Þór fullur bjartsýni. „Ég held að þetta gæti verið stærsta framlag Íslendinga til að draga úr kolefnisspori mannkyns á heimsvísu að hjálpa til við að koma skikki á sjávarútveg víða um heim. Með því getum við einnig bætt ímynd sjávarútvegs og sjávarafurða hér heima og á heimsvísu.“

Einstök saga af fullnýtingu afurðar

Bókin kennsluefni erlendis