Hjálmar Jónsson
Hjálmar Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég tel formanninn ekki starfi sínu vaxinn og ég tel heldur ekki að fólk sem hefur ekki hreinan skjöld í fjármálum, og gefur ekki skýringar í þeim efnum, eigi að vera í forsvari fyrir félag eins og Blaðamannafélag Íslands sem stendur fyrir…

„Ég tel formanninn ekki starfi sínu vaxinn og ég tel heldur ekki að fólk sem hefur ekki hreinan skjöld í fjármálum, og gefur ekki skýringar í þeim efnum, eigi að vera í forsvari fyrir félag eins og Blaðamannafélag Íslands sem stendur fyrir gildi opinnar og lýðræðislegrar umræðu,“ segir Hjálmar Jónsson um formann Blaðamannafélags Íslands (BÍ), Sigríði Dögg Auðunsdóttur, sem sagði Hjálmari upp störfum sem framkvæmdastjóra félagsins.

Fékk Sigríður Dögg stuðning stjórnar félagsins fyrir uppsögninni. Í tilkynningu frá stjórninni, sem birt var í gær, segir að á undanförnum misserum hafi áherslur í starfsemi félagsins breyst og hafi verið unnið að endurskipulagningu á skrifstofu félagsins sem endurspegli þessar breytingar. Hluti af því sé ráðning nýs framkvæmdastjóra. Samhliða henni hafi stjórnin viljað bjóða Hjálmari nýtt starf innan félagsins og tryggja að þekking hans og reynsla nýttist þannig að tryggja mætti sem best vandaða yfirfærslu verkefna. Í því ferli hafi hins vegar orðið trúnaðarbrestur á milli stjórnar og framkvæmdastjóra sem stjórn telji að ekki verði leyst úr.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að auglýst verði eftir nýjum framkvæmdastjóra og muni formaður gegna fullu starfi á skrifstofu félagsins þar til gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra og hann tekinn til starfa. Sigríður Dögg sagði við mbl.is í gær að hún hefði óskað eftir því að fara í launalaust leyfi hjá RÚV til að gegna þessu starfi.

Spurð nánar út í brottrekstur Hjálmars og hvort hún vildi svara fyrir ummælin sem hann lét falla um hana sagðist hún ekki vilja tjá sig frekar um málið og vísaði í tilkynningu stjórnar BÍ.

Formannskjör fer fram á aðalfundi BÍ fyrir lok apríl og kveðst Sigríður Dögg ætla að sækjast eftir endurkjöri.

Hjálmar hefur starfað sem framkvæmdastjóri BÍ frá 2003 og var formaður félagsins á árunum 2010-2021.