Klettagarðar Nýja landfyllingin mun koma við hlið hinnar fyrri, fyrir framan skolphreinsistöð Veitna. Hún verður nær Viðeyjarsundi en hin fyrri.
Klettagarðar Nýja landfyllingin mun koma við hlið hinnar fyrri, fyrir framan skolphreinsistöð Veitna. Hún verður nær Viðeyjarsundi en hin fyrri. — Tölvumynd/Alta
Faxaflóahafnir hafa sótt um framkvæmdaleyfi fyrir 2. áfanga landfyllingar við Klettagarða í Sundahöfn. Beiðninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa. Fyrri landfyllingin var framkvæmd á árunum 2019-2020

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Faxaflóahafnir hafa sótt um framkvæmdaleyfi fyrir 2. áfanga landfyllingar við Klettagarða í Sundahöfn. Beiðninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.

Fyrri landfyllingin var framkvæmd á árunum 2019-2020. Hún er í framhaldi af Laugarnesi. Seinni landfyllingin verður norðaustur af hinni fyrri, fyrir framan skolphreinistöð Veitna. Hún verður 1,9 hektarar að stærð. Áætlaður framkvæmdatími er 5-7 ár, frá 2024 til 2031, eftir því hversu hratt efni berst frá framkvæmdasvæðum í borginni.

Fram kemur í umsókninni, sem unnin er af Alta, að helsta ástæðan fyrir því að hefja þessar framkvæmdir nú sé að losa þarf efni úr grunnum af framkvæmdasvæði Nýs Landspítala (NLSH) á næstunni. Þá sé brýnt að ljúka þessari landfyllingu því að fyrirséð er að Faxaflóahafnir og Veitur muni skorta athafnasvæði á komandi árum. Ódýrasta leiðin við uppbyggingu landfyllingar sem þessarar er að nýta tækifærin þegar losa þarf efni af tilteknu svæði og fá það flutt sem stystu leið.

Annað efni sem nýtt verður í landfyllinguna mun annars vegar falla til vegna dýpkunar Sundahafnar og hins vegar úr húsgrunnum eða þaðan sem losa þarf efni á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir dyrum standa umfangsmiklar dýpkunarframkvæmdir á Viðeyjarsundi.

Skolphreinsistöð Veitna við Klettagarða er stærsta skolphreinsistöð landsins og tekur við skolpi frá nær helmingi höfuðborgarsvæðisins. Ljóst er að þörf er á því að stækka hana í framtíðinni.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson