Róbert Örn Sigurðsson fæddist í Reykjavík 23. september 1967. Hann lést á heimili sínu 24. desember 2023, eftir erfið veikindi.

Foreldrar hans eru Sigurrós Guð­munds­dóttir, f. 16. nóvember 1948, og Sigurður Örn Baldvinsson, f. 8. október 1948. Fyrrverandi eiginmaður Sigurrósar og stjúpfaðir Róberts var Gísli Sigurðsson, f. 14. maí 1941. Foreldrar Sigurrósar voru Guðrún Ásta Sigurðardóttir, f. 27. ágúst 1921, og Guðmundur Sigurðsson, f. 13. júlí 1929. Foreldrar Sigurðar voru Baldvin Jóhannsson, f. 21. júní 1921, og Anna Hulda Júlíusdóttir, f. 10. júní 1925.

Systkini Róberts eru Rúnar Freyr Gíslason, f. 29. apríl 1973, Örvar Sær Gíslason, f. 31. mars 1974, og Guðrún Brynja Gísladóttir, f. 2. mars 1981. Stjúpsystir hans er Huld Gísladóttir, f. 10. september 1960.

Börn Róberts eru Tinna Rut, f. 10. febrúar 1987, Katrín, f. 21. maí 1989, Patrekur Örn, f. 8. maí 1993, og Guðrún Rósa, f. 28. júní 2001. Móðir Tinnu Rutar er Pálína S Eggertsdóttir, f. 12. febrúar 1969, móðir Katrínar er María Kristín Jónsdóttir, f. 19. mars 1963, móðir Patreks Arnar er Aðalheiður Hreinsdóttir, f. 5. apríl 1967, og móðir Guðrúnar Rósu er Kristjana Knudsen, f. 17. janúar 1976. Unnusta Róberts 2009-2019 var Íris Andrea Ingimundardóttir, f. 18. maí 1970, og sonur hennar, sem Róbert gekk í föðurstað, er Bjartur Máni Sigmundsson, f. 31. maí 2003.

Róbert Örn bjó fyrstu mánuði ævi sinnar á Siglufirði með foreldrum sínum en fluttist svo til Reykjavíkur með móður sinni 10 mánaða gamall. Þau bjuggu þar fyrst um sinn hjá móðurömmu Róberts á Skúlagötu 66 og þá hjá langmömmu hans, Halldóru Bjarnadóttur, og sambýlismanni hennar, Þorláki Eyjólfssyni, á Bragagötu 23. Árið 1973 fluttist hann með móður sinni og stjúpa í Suðurhóla 6 þar sem Róbert hóf nám við Hólabrekkuskóla og útskrifaðist þaðan 1983.

Róbert Örn starfaði við ýmislegt um dagana. Hann vann við pípulagningar og ýmsa verkamannavinnu og á leikskólanum Hálsaborg og Elliheimilinu Kumbaravogi. Hann starfaði síðar við kartöfluvinnslu á Flúðum, við þjónustustörf á veitingastaðnum Holmenkollen í Ósló og síðustu starfsárin vann hann einna mest við bílamálun auk þess sem hann vann á tónlistarhátíðinni Extreme Chill Festival í nokkur ár. 39 ára að aldri fékk hann hjartaáfall, heilsunni hrakaði og hann hætti að vinna fasta vinnu eftir það.

Hann var mikill sundgarpur á yngri árum og spilaði fótbolta með Knattspyrnufélaginu Fram þar sem hann vann til verðlauna, en síðastliðin ár varð hann heltekinn af frisbígolf-íþróttinni sem hann sinnti öllum stundum.

Árið 2023 fékk hann annað hjartaáfall og gekkst þá undir þræðingu. Síðustu tvö árin barðist hann við alvarlegt mein.Á aðfangadaglést hann í kjölfar veikindanna.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 11. janúar 2024, klukkan 15.00.

Elsku drengurinn minn, frumburðurinn, Róbert Örn, sem ég elskaði svo mikið, er jarðsunginn í dag. Hvílíkur missir og nístandi sorg sem fyllir hjarta mitt. Mér finnst hann enn vera hjá mér, hugsanir mínar hverfast um strákinn minn með fallegu augun sem bræddu mömmuhjartað strax við fæðingu, lífið sem hann átti og arfleifðina sem hann skilur eftir í börnunum sínum.

Róbert var kominn á góðan stað í lífinu, var kátur og glaður, kominn með áhugamál og í góðu sambandi við börnin sín og okkur sem stóðum honum næst. Hann stefndi á Spánarferð með félögum sínum í frisbígolfi, fóturinn hlyti að verða orðinn góður þá.

Róbert hafði gaman af að ferðast og efst í huga hans var ævintýraferðin með góðum vini, Haraldi (Halla) Árnasyni, til Perú og um Amazon-skóginn. Þar dvöldu þeir um tíma og undu hag sínum vel. Nú eru þeir báðir farnir í annað ferðalag en aðeins fjórir dagar liðu á milli dánardaga þeirra. Nú eru þeir saman, vinirnir. Blessuð sé minning þeirra beggja.

Það er sárt að kveðja þig, elsku Róbert minn. Minningarnar um þig, elsku sonur, munu leiða mig inn í ljósið á ný. Þú varst mér svo dýrmætur og þú veist hvað ég elskaði þig mikið.

Góða nótt

Drengurinn minn, draumur míns hjarta,

dýrlegust gjöf móður ert þú.

Eiga þú munt ævina bjarta,

óskin mín besta' er til þín sú:

Góða nótt þú, glókollur minn,

glöð og sæl ég strýk þína kinn.

Góða barn, ég guði þig fel,

góða nótt, og dreymi þig vel.

Hreykin ég er af þessum snáða,

uppvaxinn mun fallegur sveinn.

Frumburður minn, fæddur til dáða,

fremri þér verður ekki neinn.

Góða nótt, ég sveipa þig sæng,

sofðu rótt sem ungi' undir væng.

Okkur tveim, er gæfan svo góð,

góða nótt, ég syng þér mitt ljóð.

Góða nótt þú, glókollur minn,

glöð og sæl ég strýk þína kinn.

Góða barn, ég guði þig fel,

góða nótt, og dreymi þig vel.

(Egill Bjarnason)

Mamma.

Mig langar í örfáum orðum að minnast Róberts bróður míns sem lést á aðfangadag eftir erfið veikindi. Róbert var 14 árum eldri en ég og var fluttur snemma að heiman en ég man hvað ég var alltaf ánægð með stóra bróður minn og hvað það var alltaf gott og gaman að hafa hann og svo seinna börnin hans á æskuheimilinu okkar í Seljahverfi.

Ég mun alltaf minnast Róberts með mikilli hlýju en hann var brosmildur og góður við alla. Það er lýsandi fyrir Róbert að þegar hann frétti af veiðiáhuganum hjá Arnóri mínum þá var hann mættur innan skamms með veiðidót sem hann átti og vildi gefa frænda sínum.

Það var dýrmætt að sjá Róbert blómstra í frisbígolfinu síðustu árin þar sem hann naut sín vel þrátt fyrir að heilsunni hefði hrakað.

Hvíl í friði elsku Róbert minn.

Þín litla systir,

Guðrún Brynja (Gússí).

Ég leit alltaf upp til Róberts, stóra bróður míns, þegar ég var lítill. Fyrst vegna þess hvað hann var sterkur og góður í að leika ótemjuhestinn undir mér, kúrekanum. Seinna vegna þess að hann var svo „street wise“, algjör töffari, með sítt að aftan, hataði Duran Duran, las Sven Hazel og hlustaði á AC/DC og Iron Maiden. Herra Fellahellir, algjör sundhetja, átti auðvelt með að læra. Svo var hann líka svo góður drengur, stríddi t.d. aldrei eða níddist á yngri bróður sínum.

Ég man þegar ég var fimm ára og hann ellefu. Hann sagði mér í trúnaði að hann ætlaði að gefa mömmu og pabba lampa, sem hann hafði smíðað sjálfur í skólanum, í jólagjöf. Einn daginn, stuttu síðar, kýldi ég hann í magann, í hugsunarleysi litla bróður, ætlaði að vera sniðugur. Ég smellhitti og hann meiddi sig, fór að gráta. Mamma skammaði mig auðvitað og í örvæntingu minni kjaftaði ég frá: „Hann ætlar að gefa þér lampa í jólagjöf!“ Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Róberti, trúnaðarbrestur ofan í magahöggið! En hann varð mér ekki reiður, bara sár. Og eftirmál voru engin.

Hann gerði aldrei neinum neitt, nema kannski sjálfum sér, eins og sagt er. Róbert var fíkill, fór á fleygiferð ungur að árum og náði aldrei almennilega að stoppa. Þessi klári, sjarmerandi og skemmtilegi maður var aldrei besta útgáfan af sjálfum sér eftir að fíknin tók völdin. Ég verð svo sorgmæddur þegar ég hugsa um hvað hefði getað orðið. Leiftrandi hugur, fyndinn með svartan húmor, hlustaði vel, hrifnæmur og minnugur. Og svo góður og hjálpsamur. Alltaf mættur ef eitthvað þurfti að græja. Jafnvel þótt maður væri ekki sjálfur á staðnum. Bara allt í einu búinn að mála allan bílskúrinn.

Þrátt fyrir sjúkdóminn var Róbert góður pabbi. Hlýr og nærgætinn, inni í málum, sagði hlutina beint út, hlustaði og hjálpaði. Og svo ótrúlega stoltur af börnunum sínum. Hann var vinur þeirra og þau elskuðu hann eins og hann var. Dæmdu hann ekki, sem var pabba þeirra líkt. Hann dæmdi ekki neinn.

Róbert hafði mömmu alla tíð sér við hlið, elskaði hana, þau voru trúnaðarvinir. Hún gerði allt sem hún gat fyrir hann í veikindunum, strákinn sinn, frumburðinn sem hún var nánast ein með fyrstu fimm árin þangað til pabbi kom inn í líf hennar. Hún sinnti barnabörnunum af alúð, var alltaf til staðar, elskaði og treysti.

Ég vonaði og trúði að næstu ár yrðu góð hjá Róberti. Hann var kominn með algjöra dellu fyrir frisbígolfi, orðinn rólegri og leið betur á sálinni. En líkamlegri heilsu hrakaði og elsku bróðir minn er farinn frá okkur og yndislegu börnunum sínum.

Það er sárt að eiga aldrei eftir að sjá glottið, prakkaralega blikið í augunum og hlusta á sögurnar. Um leið og ég skrifa þetta verð ég sorgmæddur yfir því að hafa ekki sagt þetta allt við hann. Lífið er svo skrýtið og getur tekið enda þegar við eigum síst von á því. Það á að kenna okkur sem erum á lífi. Elsku Róbert, stóri bróðir minn, ég vona að þú vitir að þú varst elskaður af mörgum. Þú fórst of snemma, við söknum þín og munum minnast þín fyrir allt það góða sem fylgdi þér.

Rúnar Freyr.

„Það er fallegt en sorglegt að vera manneskja“ stendur á einni af jóla-kærleikskúlunum sem ég hengi upp í eldhúsgluggann fyrir hver jól. Þetta er uppáhaldsjólakúlan mín og minnir á fegurð og breyskleika okkar allra. Leiðir okkar Róberts lágu saman rétt eftir aldamótin, mitt líf var óskrifað blað en hann var eldri og átti þrjú börn. Ég varð eftir stutt samband ólétt að mínu fyrsta barni, sem varð hans yngsta barn. Leiðir okkar skildi enda vorum við á ólíkum stað á lífsins vegi. Róbert var yndisleg manneskja og sál hans björt og sönn enda reyndist hann dóttur okkar vel og þau sáu ekki sólina hvort fyrir öðru alla tíð. Hann mætti á alla viðburði sem hann kom við þegar hún var í söngleikjadeildinni, hlustaði á hana spila á sellóið á tónleikum þegar hún var barn og maður fann að stoltið leyndi sér ekki.

Róbert brosti mikið með öllu andlitinu og ekki síst augunum og maður fann alltaf fyrir því að hann bar hag annarra fyrir brjósti enda var hann góðmenni. Hann var óspar á hrósið og ekki bara til barnanna sinna heldur líka hrósaði hann mér og manninum mínum mikið og sýndi okkur mikið þakklæti. Dóttir okkar kallaði hann og stjúpföður sinn pabba, það voru tveir feður sem tóku þátt í lífi hennar og sköpuðust oft skrítnar setningar eins og þegar stjúpfaðir hennar sagði í símtali að hann hefði rekist á pabba dóttur sinnar. Róbert vildi hjartanlega vera í þessu uppeldisverkefni með okkur í sátt og lagði sig fram við það og sagði ósjaldan að hann lifði fyrir börnin sín.

Eftir að dóttir okkar varð eldri var feðginasambandið á þeirra forsendum og við hittum hann minna því miður. En okkur fannst hann vera sáttur í eigin skinni undanfarin ár þrátt fyrir heilsubrest sem hann reyndi að ná tökum á með betri lífsstíl. Hann hafði fundið nýtt áhugamál, frisbí-golf, sem hann hafði ástríðu fyrir, var farinn að ferðast meira og stunda útivist. Jólin voru tími sem við hittum Róbert oftast og hann var jafnan kvikur eins og vindurinn og yfirleitt að fara að hitta einhverja enda átti hann vini og kunningja úti um allt. Oft var hann að hjálpa einhverjum og fann sig stundum í því hlutverki. Það var alltaf jafn ljúft að fá hann inn með pakka og knús og sjá stolta pabbann sem brosti svo blítt með fallegu gylltu augunum. Hann gat verið alveg ótrúlega fyndinn og sumt sem hann sagði er orðið klassískir brandarar meðal okkar, ekki allir prenthæfir enda var hann stundum einlæglega filterslaus en fékk okkur til að hlæja og gleðjast.

Björtum ljósum fylgja oft dimmir skuggar, það að missa elsku Róbert á aðfangadag hefði ekki getað verið sorglegra og ósanngjarnara en samt eitthvað svo fallegt líka! Sorgin er því miður gjaldið sem við greiðum fyrir það að elska og nú er þessi kærleikshátíð skyndilega þrungin söknuði. Sofðu rótt kæri Róbert og takk fyrir okkur, við pössum upp á yndisfríði eins og þú kallaðir alltaf dóttur okkar þegar hún var lítil. Við munum varðveita minningu um góðan dreng.

Samúðarkveðjur til allra sem þekktu, elskuðu og þótti vænt um Róbert.

Þangað til síðar,

Kristjana.

Elsku Róbert, þú komst inn í líf okkar snemma árs 2009. Þú tókst Bjart Mána strax að þér eins og hann væri þinn eigin sonur og leist á hann sem eitt af þínum börnum. Þú reyndist honum ávallt mjög vel. Þú varst sannarlega sannur vinur og ég er ofboðslega þakklát fyrir tímann og minningarnar sem við áttum saman. Þú varst alltaf boðinn og búinn ef einhver þér kær þurfti á hjálp að halda.

Takk fyrir að hafa fengið að verða samferða þér og upplifa með þér ævintýri lífsins.

Takk fyrir allar útilegurnar, veiðiferðirnar, Rauðasandsferðirnar og öll ævintýrin.

Þú endaðir á toppnum eins og þú ætlaðir þér sem Íslandsmeistari í frisbígolfi 2023.

Það urðu tímamót í lífi þínu þegar þú fórst í ævintýraríka ferð til Perú með Halla vini þínum. Ferð sem var algerlega ógleymanleg fyrir ykkur báða. Þið hófuð saman vegferð lengst inni í frumskógi Perú til þess að komast í dýpri kynni við andlega upplifun. Þú komst heim aftur með mun dýpri sjálfsvisku og fullur af gleði og þakklæti fyrir að hafa látið verða af þessari ferð. Það var svo ánægjulegt að fylgjast með þér rækta ástríðurnar þínar. Það óraði engan fyrir því að nákvæmlega sex árum eftir að þið komuð út úr frumskóginum mynduð þið báðir kveðja þennan heim eftir erfiða þrautagöngu við veikindi. Með nokkurra daga millibili. Þið eruð núna komnir saman á næsta æðra stig. Það er eins gott að þið passið hvor annan.

Elsku Róbert takk fyrir kveðjurósina, ég náði að sjá hana í gegnum tárin.

Elsku Sigurrós, Kata, Patti, Guðrún Rósa, Rúnar, Örvar, Guðrún og Ally.

Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Íris Andrea og Bjartur Máni.

• Fleiri minningargreinar um Róbert Örn Sigurðsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.